Fornir fimmtudagar 2010

Fornir fimmtudagar og miðaldir á miðvikudegi – göngudagskrá

23. Júní 2010

Hið þingeyska fornleifafélag og Fornleifastofnun Íslands standa að gönguferðadagskrá um minjasvæði í Suður-Þingeyjarsýslu. Heimsóttir verða staðir þar sem rannsóknir eru í gangi og fornleifafræðingar taka á móti gestum.

Fimmtudagur 24. júní Seljadalur – Láfsgerðikl. 20.30 )1-1,5 klst.) Mæting við afleggjara að Kvígindisdal (rétt ofan Einarsstaðaskála og Jaðars. ca 15 mínútna ganga er frá afleggjara að Láfsgerði. Síðastliðið ár hófst fornminjaskráning á Seljadal og ráðgert er að ljúka henni í sumar. Markmið skráningarinnar er að leggja drög að minjakorti af dalnum sem nýta mætti til almennrar útivistar. Í þessari ferð gefst göngumönnum tækifæri til að kynnast vinnubrögðum við fornleifaskráningu og fræðast um byggð á Seljadal og sérstaklega í Láfsgerði. Fornleifafræðingarnir Birna Lárusdóttir og Elín Ósk Hreiðarsdóttir hjá Fornleifastofnun íslands taka á móti gestum í tóftum Láfsgerðis.

Fimmtudagur, 1 júlí Litlu Núpar í Aðaldal. kl. 16.30 (1,5 klst.) Mæting við afleggjarann að Litlu Núpum, rétt vestan við brúna yfir Mýrarkvísl. Undanfarin ár hefur verið unnið að rannsóknum á minjum á Litlu Núpum. Þar fannst m.a. bátskuml og umbúnaður annarra kumla á Litlu Núpum hefur vakið upp fjölmargar spurningar. Bæjarstæðið á Litlu Núpum er afar fallegt þar sem tóftirnar kúra í litlum hvammi gengt flugvellinum í Aðaldal, austan Laxár. Howell Magnús Roberts fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands og samstarfsfólk tekur á móti gestum.

Fimmtudagur, 8. júlí Skútustaðir III í Mývatnssveit. Kl. 16:30 (1 klst.) Á Skútustöðum III hefur á síðustu árum verið unnið að rannsókn á umfangsmiklum öskuhaug. Þar hafa fundist vísbendingar um byggð allt frá landnámsöld og fram á okkar daga en í öskuhaugum leynast miklar vísbendingar um líf fyrr á öldum sem varpað geta ljósi á lífsviðurværi fólks og efnahag. Þóra Pétursdóttir frá Fornleifastofnun Íslands og Dr. Thomas McGovern frá Hunter College NY taka á móti gestum og gefa þeim innsýn í störf fornleifafræðinga með áherslu á beina-fornleifafræði (Zoo archaeology).

Fimmtudagur, 15. júlí Hofstaðir kl. 20.30 (1 klst,) Mæting við Hofstaðabæinn. Rannsóknarsaga Hofstaða er orðinn löng og viðburðarík og fyrr á árinu kom út afar glæsilegt rannsóknarit um Hofstaðarannsóknirnar. Þrátt fyrir það er rannsóknum á Hofstöðum ekki lokið og í sumar mun Hildur Gestsdóttir fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands og sérfræðingur í mannabeinarannsóknum, vinna að rannsóknum á kirkjugarðinum þar. Hildur og félagar taka á móti gestum í kirkjugarðinum á Hofstöðum.

Miðvikudagur 21. júlí Þegjandadalur – Miðaldir á miðvikudegi. Kl. 13:00, ferðin tekur 3-4 klst. Mæting á bílaplaninu á Grenjaðarstað þar sem sameinast verður í bíla og ekið inneftir Þegjandadal að austanverðu. Undanfarin ár hefur verið rannsakað afar merkilegt minjasvæði á Þegjandadal. Í sumar er í gangi uppgröftur á Ingiríðarstöðum sem er innarlega í dalnum, grafið verður í gríðarstóran kumlateig auk þess sem leitað verður að öskuhaug við mögulegar skálatóftir sem fundust sumarið 2009. . Howell Roberts fornleifafræðingur sem stýrir uppgreftrinum tekur á móti gestum á Ingiríðarstöðum. Góður skófatnaður er nauðsynlegur því raklent er á kafla göngunnar. Allir eru velkomnir í gönguferðirnar, skráning er óþörf og þátttaka er ókeypis. Frekari upplýsingar má finna vikulega á www.fornleifafelag.is, Einnig má fá nánari upplýsingar hjá Sif Jóhannesdóttur í síma 848 3586 og Unnsteini Ingasyni í síma 894 4594

Vinsamlega athugiðað dagskrá getur mögulega breyst með skömmum fyrirvara. Hið þingeyska fornleifafélag og Fornleifastofnun Íslands.