Fornir fimmtudagar á Dysnesi

Fornir fimmtudagar á Dysnesi við Eyjafjörð

Fimmtudaginn 29. júní kl. 17.30 býður Hið þingeyska fornleifafélag og Fornleifastofnun Íslands ses. íbúum norðurlands og getsum þeirra í heimsókn á Dysnes við Eyjafjörð.  Hafist var handa við könnun á Dysnesi fyrr í sumar en könnunin er liður í undirbúningsrannsóknum vegna fyrirhugaðarar byggingar stórksipahafnar á Dysnesi.

Þegar fornleifafræðingar mættu á svæðið var afar líitið að sjá.  Fátt gaf til kynna að kuml eða aðrar menjar væru undir sverðinum og aðeins ein lítil dæld á þýfðu nesinu gaf fyrirheit um að nesið bæri nafn með réttu.  Engar skriflegar heimildir eru til um Dysnes, engar sjáanlegar minjar eru í grendinni, engir garðar sjáanlegir, engar tóftir sem gætu gefið til kynna forna byggð og yfirleitt ekkert sem gaf til kynna að staðurinn væri spennandi með tilliti til fornleifarannsókna, annað en nafnið, en þekkt er að staðarnöfn breytast í tímans rás og því ekki á nafnið eitt að treysta.

 

En annað kom svo sannarlega á daginn.  Segja má að hvar sem fornleifafræðingar stungu niður skóflu, þar voru minjar undir.  Þegar þetta er skrifað þann 28. júní er öruggt að a.m.k. 2 bátskuml eru á Dysnesi og alls ekki útilokað að fleiri bátskuml líti dagsins ljós innan fárra daga eða vikna, reynar eru líkurnar miklar.  Bátskumlin tvö sem eru nú að mestu uppgrafin eru greinileg og í þeim hafa fundist, auk beinaleifa, sverð, spjótsoddur, skjaldarbóla og fleiri munir en báðum kumlunum virðist hafa verið rask

að fyrir langalöngu og stór hluti annars kumlsins er horfinn vegna ágangs sjávar.  Engin leið er að segja til um hvað nesið hafi verið stórt fyrir þúsund árum og hvort fleiri kuml hafi verið á nesinu en eru horfinn í sjóinn vegna landbrots.

 

En margt fleira er að sjá á Dysnesi sem enn hefur leindardómsfullan blæ yfir sér.  Þótt bátskumlin tvö séu greinileg þá eru aðrir „haugar“  sem enginn veit enn hvað hefur að geyma.  Einn þeirra lítur út eins og grjóthringur eða grjótbeð og umhverfis eru nokkrar grunnar dokkir en í þeim var

Grjóthaugur og dokkir umhverfis, óvíst hvað leynist undir.

ekkert að finna og aldrei áður hafa svipuð ummerki verið að sjá í kumlateigum hérlendis.

Það er full ástæða til að líta í heimsókn á Dysnes fimmtudaginn 29. júní kl. 17.30  í boði Hins þingeyska fornleifafélags og Fornleifastofnuanr Íslands.

Dysnes er í 15 km akstursfjarlægð frá Akureyri.  Ekið er sem leið liggur í átt til Dalvíkur.  Beygt er útaf Dalvíkurvegi  til austurs í Átt að Syðri Bakka (vegur 812) og aftur beigt niður að Gilsbakka og af heimreiðinni er ekið út af veginum til vinstri og mjóan malarveg niður undir fjöruborð.  þaðan er gengið eftir fjörunni nokkur hundruð metra til norðurs þar til komið er á Dysnesið.  Sjá nánar á korti Landmælinga Íslands.

 

Dysnes

Gestir eru hvattir til að vera vel skóaðir og klæddir því hafgolangetur verið köld.

 

HÞF / Unnsteinn Ingason.

Rannsóknir Hins þingeyska fornleifafélags halda áfram í sumar.

Síðastliðinn föstudag 24. mars úthlutaði Fornminjasjóður tæpum 45 miljónum króna til 24 verkefna af þeim 50 verkefnum sem sótt var um til sjóðsins.

Hið þingeyska fornleifafélag hlaut að þessu sinni tvo styrki, hvor um sig að fjárhæð 2,3 miljónir króna.

Kumlin á Litlu Núpum
Annars vegar er um að ræða framhald rannsókna á kumlateignum á Litlu Núpum í Aðaldal en þar fundust á árunum 2008-2010 fimm hefðbundin kuml með mannabeinum, þrjú hrosskuml og síðast en ekki síst bátskuml, það fyrsta í nær hálfa öld. Öll voru þessu kuml röskuð þ.e. hreyft hefur verið við þeim á næstu öldum eftir að þau voru grafin og bein ýmist verið fjarlægð eða þau hafa eyðst að miklu leyti og gripir fjarlægðir en ekki er hægt að fullyrða hvort kumlin hafi verið rænd í hefðbundnum skilningi þess orðs eða hvort opnun grafanna hafi tengst trúarsiðum og venjum þess tíma.

En markmið Hins Þingeyska fornleifafélags (HÞF) er að ljúka rannsóknum á kumlateignum í sumar ef fjármunir duga til með því að stækka rannsóknarsvæðið þótt ekki séu nein ummerki sýnileg á yfirborði sem gefa vísbendingar um að þar séu fleiri kuml að finna. Hefðbundin aðferð við kumlarannsóknir hefur um áratuga skeið verið á þann veg að aðeins kumlið sjálft hefur verið grafið upp, m.a. sökum þess að fjármagn hefur ávallt verið takmarkandi þáttur við rannsóknirnar, en rannsóknir HÞF á kumlateignum á Ingiríðarstöðum í Þegjandadal á undanförnum árum hefur m.a. leitt í ljós að umbúnaður kum

la var flóknari en áður var talið og m.a. hafa stoðarholur komið í ljós utanvert

Kumlateigurinn á Litlu Núpum

við grafirnar sem bendir til að tjaldað hafi verið yfir kumlin á einhverjum tímapunkti.

Stefnt er að því í sumar að gera allt að átta prufuskurði norðan, sunnan og vestan

við núverandi kumlateig eins og sést á meðfylgjandi mynd þar sem væntanlegir prufuskurðir eru merktir með rauðu en kuml sem rannsóknum er lokið á eru merkt með svörtum lit.

 

 

Ísótóparannsóknir á beinum

Hins vegar fékkst styrkur að fjárhæð 2,3 miljónir króna til ísótóparannsóknum á beinasafninu úr kumlateignum á Ingiríðarstöðum í Þegjandadal í Aðaldal. Þar hafa farið fram fornleifarannsóknir á vegum HÞF á árunum 2008-2015 og á því timabili voru grafin upp níu kuml auk tveggja gryfja sem innihéldu bein. Í kumlunum fundust leifar af átta hrossum og mannabein var að finna í átta af þessum níu kumlum. Öll voru kumlin röskuð fyrir utan eina smá gröf þar sem nýburði hafði verið lagður til hinstu hvílu.

Markmiðið með ísótóparannsóknum er þríþætt. Í fyrsta lagi að kanna hversu hátt hlutfall af fæðu einstaklinganna sem um ræðir kemur úr sjó, úr ferskvatni eða af landi. Sýni verða tekin úr lærleggjum og rifbeinum en ísótópar lærleggs gefa víbendingar um fæðuval síðustu 10-15 ára af ævi einstaklingsins en rifbein, sem endurnýjast mun hraðar en lærleggur, gefa vísbendingar um fæðuval síðustu 2-5 ár ævinnar.
Í öðru lagi verða tekin sýni úr tannglerungi til að vinna upprunarannsóknir en ísótópar í tönnum geta gefið vísbendingar hvort eitthvað af þeim mönnum eða hestum sem fundust í kumlunum hafi fæðst utan Íslands og mögulegt kanna að vera að greina megi uppruna einstaklinganna hafi þeir fæðst utan Íslands. Ísótópar í tannglerungi safnast upp mjög snemma ævinnar og með samanburðarrannsóknum við ísótópa í berggrunni er mögulegt að rekja uppruna einstaklinga upp að vissu marki.
Í þriðja lagi verða dýrabein aldurgreinnd með C14 aðferð (kolefnisaðferð). Fæðuval manna hefur neikvæð á hrif á nytsemi kolefnisgreininga, m.a. sökum þess að kolefni safnast upp í vatnalífverum sem síðan berst yfir í menn við neyslu þeirra og dæmi eru um að kolefnisgreining sýni meira en 200 ára mun á aldri manns og hests sem liggja í sömu gröf.

Umtalsverður fjöldi ísótóparannsókna hafa verið gerðar á beinum úr bæði kumlum og gröfum kirkjugarða s.s. á beinum úr kirkjugarðinum á Hofstöðum í Mývatnssveit og því er nóg til af samanburðarefni. Allar rannsóknirnar verða unnar í Scottish universities Environmental Research Centre (SUERC) (Universities of Edinburgh and Glasgow).

Howell Magnús Roberts mun stýra rannsóknunum á Litlu Núpum líkt og undanfarin ár og Dr. Hildur Gestsdóttir mannabeinafræðingur mun stýra rannsóknunum á beinunum frá Ingiríðarstöðum. Bæði starfa þau hjá Fornleifastofnun Íslands ses. sem hefur verið samstarfsaðili HÞF frá stofnun félagsins árið 2004.

Saltvík á sumarkvöldi.

Fimmtudagskvöldið 4. ágúst býður Hið þingeyska fornleifafélag í samstarfi við Fornleifastofnun Íslands ses. í heimsókn í Saltvík skammt sunnan Húsavíkur.

Í framhaldi af fornleifaskráningu í Reykjahverfi sumarið 2002 fundust m.a. tvær rúsaþyrpingar sunnan við túnið í Saltvík.  Engar heimildir eru til um þessar rústir svo vitað sé og ekki fundust aðilar á þeim tíma sem könnuðust við þessi tóftabrot eða þekktu sögu þeirra.  Tóftirnar eru ágætlega skýrar og liggur framhjá þeim reiðleið.  Við forrannsókn á þessum tóftum þá um sumarið fundust einnig tvö kuml sem báðum hafði verið raskað, báðum á fimmtándu öld skv. gjóskulögum en sjá mátti uppgröft skammt undir gjóskunni sem féll árið 1477.

Á netinu má finna m.a. tvær greinargóðar skýrslur um rannsóknirnar í Saltvík,  hér og hér.

Mæting er í gönguferðina við stóra hesthúsið í Saltvík kl. 18.30 og áætlað er að gönguferðin taki eina til eina og hálfa klukkustund.  Leiðsögumaður er Dr. Adolf Friðriksson forstöðumaður Fornleifastofnunar Íslands.

Fornir fimmtudagar – Leiðarnes í ljósaskiptum

Fimmtudagskvöldið 28. júlí býður Hið þingeyska fornleifafélag í heimsókn á Leiðarnes í Fnjóskadal.

Teikning Daniels Bruun af þingstaðnum á Leiðarnesi.

Loftmynd af Leiðarnesi, tekin af Google Earth

Um Ljósvetningaleið er getið í Ljósvetningasögu, Reykdælu og Njálu en ekki er þar sagt hvar hún var haldin en fullvíst er talið að leiðarþingið hafi verið haldið á svonefndu Leiðarnesi sem er í landi Háls, vestur við Fnjóská, skammt sunnan brúarinnar.

Orðið „Þing“ kemur úr fornnorrænu þar sem það merkti samkoma en þing til forna voru vettvangur dómstóla og löggjafar.  Auk Alþingis voru háð þrennskonar þing: Fjórðungsþing, vorþing (sóknar- og skuldaþing) og leiðarþing (haustþing).  Leiðarþing eða leiðir voru haldin að loknu alþingi og var tilgangurinn sá að gefa íbúum hvers héraðs nokkurs konar skýrslu um það sem fram hafði farið á Öxarárþingi.  Goðar héldu leiðarþingin en síðar féll það í hlut sýslumanna að halda leiðarþingin sem síðan liðu undir lok á 18. öld ogmanntalsþing tóku við hlutverkum þeirra.

Fátt er vitað með vissu um þingstaðina en talið er að vorþingsstaðirnir hafi verið 13 talsins á landinu öllu, þrjú í hverjum fjórðungi nema Norðlendingafjórðungi þar sem þau voru fjögur, að sögn Ara fróða sökum þess að Norðlendingar gátu ekki komið sér saman um annað.  Á norðurlandi er talið með vissu að þeir hafi verið Í Hegranesi og í Þingey en ekki er um ábyggilegar heimildir að ræða varðandi Leiðarnes og Skuldaþingsey, svo dæmi sé tekið, heldur er fyrst og fremst byggt á nöfnum þessara tveggja staða sem og búðatóftunum sem þar er að finna.

Mæting í gönguferðina er við austari Vaglaskógarveg, ekið upp klaufina og stoppað þar.  þaðan verður gengið að Leiðarnesi.  Leiðsögumaður er Davíð Herbertsson frá Hrísgerði og áætlað er að gönguferðin taki 1,5 til 2 klukkustundir.  Unnst.Ing.

Fornir fimmtudagar – Kuml og gröf að kveldi fimmtudags

Fimmtudagskvöldið 13. ágúst býður Hið þingeyska fornleifafélag og Fornleifastofnun íslands í heimsókn á kumlateiginn á Ingiríðarstöðum í Þegjandadal.

Það hefði mátt halda að nú myndi fátt koma fornleifafræðingum að óvart á Ingiríðarstöðum í Þegjandadal eftir áralangar rannsóknir á kumlateignum þar.  Stoðarholur umhverfis kumlin eru ekki lengur nýlunda né heldur veggur í miðjum kumlateignum sem kom í ljós sumarið 2010.  Í honum var að finna mikla holu með manna- og dýrabeinum og utanvert í torfveggnum var litla gröf ungabarns að finna.  Steinkraga var að finna umhverfis eitt kumlanna og áfram mætti telja.

Vinnuaðstæður fornleifafræðinga geta verið misjafnar.

Nú í liðinni viku brá svo við að það sem virðist vera kristin gröf kom í ljós í kumlateignum. Gröfin snýr austur – vestur andstætt kumlunum sem liggja norður – suður og gröfin var bein og vel afmörkuð.  Hins vegar brá svo við að alls ekkert var að finna í gröfinni og því með öllu óljóst hvað þarna hefur átt sér stað á sínum tíma.

Að öllum líkindum lýkur rannsóknum á kumlateignum nú í sumar, nema eitthvað óvænt eigi eftir að koma í ljós á næstu dögum.

Gangan í Ingiríðarstaði hefst kl. 18.00 á bílaplaninu við Grenjaðarstað og tekur samtals 3-4 klukkustundir.  Æskilegt er að vera vel skóaður því blautt kann að vera á leiðinni.  Á Ingiríðarstöðum er það Howell Magnús Roberts stjórnandi rannsóknarinnar ásamt samstarfsfólki sem tekur á móti hópnum. Uing.

Hin meinta gröf liggur austur vestur og reyndist tóm.

Fornir fimmtudagar á þriðjudagskvöldi á Hofstöðum

Þriðjudagskvöldið 14 júlí býðst gestum og gangandi að heimsækja Hildi Gestsdóttur og samstarfsfólk í kirkjugarðinn forna á Hofstöðum í Mývatnssveit.  Leiðsögumenn og kynnar verða margir og nefna má Hildi Gestsdóttur, Megan Hicks og Adolf Friðriksson.

Kort af Hofstöðum. Birt með leyfi LMI.

Með heimsókninni á Hofstaði er einnig fagnað að Hið þingeyska fornleifafélag er komið á ellefta ár og Fornleifastofnun Íslands er tuttugu ára á þessu ári og að á næstu dögum lýkur uppgreftri garðsins, uppgreftri sem hófst árið 1999 og stóð til 2004 og nú aftur frá 2010 til ársins í ár.

Á þessum árum hafa verið grafnar upp liðlega 150 grafir innan kirkjugarðsveggja og að auki ein gröf utan garðs.  Áttatíu þessara grafa eru grafir barna(nýbura og í stöku tilvikum fyrirbura) og fimmtán grafanna eru grafir barna á aldursbilinu eins árs til sautján / átján ára en tiltölulega auðvelt er að aldursgreina bein ungbarna.  Hinn hluti grafanna er í flestum tilvikum grafir fullorðinna og í nokkrum tilvikum má fullyrða að um mjög aldraða einstaklinga sé að ræða, áttatíu ár plús þótt almennt sé mun erfiðara að aldursgreina bein fullorðinna en barna. Velta má því fyrir sér hvort erfiðasti hjallinn á lífsleið þeirra er í garðinu hvíla, hafi verið þegar brjóstamjólkinni sleppti en þeim sem hafi tekist að komast yfir þann hjalla hafi beðið umtalsvert langlífi.

Gröf í garðinum á Hofstöðum. Mynd: Af Facebook síðu Hofstaðir excavation.

Gjóskulög í kirkjugarðinum á Hofstöðum gefa til kynna að í hann hafi verið grafið á árabilinu 950 til 1300 og kolefnisgreiningar á beinum styðja þá tilgátu og gefa til kynna tímabilið frá seinni hluta 10 aldar til fyrri hluta tólftu aldar.  Ekki er vitað með vissu frá hvaða bæjum grafið var á Hofstöðum en ekki er óalgengt að grafreitur hafi verið á fjórða hverjum bæ.

Beinin í garðinum á Hofstöðum segja ekki bara til um aldur þeirra sem þar liggja heldur má lesa gífurlega mikið magn upplýsinga úr beinunum.  Með ísótópamælingum geta beinin sagt til um síðustu æviár einstaklingsins, m.a. hvaða fæðu hann neytti og geta einnig gefið vísbendingar um búsetu síðustu æviárin vegna fæðuvals.  Tennurnar geta sagt til um upprunan en styrkur strontíum, sem upphaflega kemur úr drykkjarvatni, getur sagt til um hvar viðkomandi ólst upp fyrstu ár ævinnar með samanburðarrannsóknum á strontíum í bergi og íslenskt berg er ungt og gefur þ.a.l. sterkar vísbendingar um upprunann.  Þessi misserin er verið að rannsaka sýnishorn úr beinunum frá Hofstöðum víða um heim og fjölmörg doktorsverkefni snúast um þá einstaklinga sem í garðinum hvíldu.

Heimsóknin á Hofstaði hefst kl. 20.00 og í boði verða kaffi og kleinur.  Gestir eru hvattir til að klæða sig vel og vera vel skóaðir.

Nánar má lesa um rannsóknir Fornleifastofnunar Íslands á vefsíðu stofnunarinnar www.instarch.is eða með því að smella hér.
UnnstIng