Verkefnaskrá Hins þingeyska fornleifafélags 2006.
Minjar í Skuldaþingsey.
Í Skuldaþingsey er þyrping af óvenju mörgum, og mjög fornum tóftum, sem líklega eru leifar af fornum þingstað. Í eynni eru a.m.k. 30 forn mannvirki, búðatóftir, sem til þessa hafa verið mjög lítt kannaðar, enda hefur athygli fræðimanna einkum beinst að minjum í Þingey. Árið 2001 var gerð lítilsháttar athugun með grefti í Skuldaþingsey og fundust þá allnokkur gjóskulög í samhengi við mannvistarleifarnar. Tóftirnar eru a.m.k. frá miðöldum, en nákvæmari aldursákvörðun fékkst ekki við þá athugun.
Fyrirhugað er að gera rækilegri athugun á minjum í eynni sumarið 2006. Markmið rannsóknar er að kanna aldur fornleifanna og hlutverk þeirra.
Verkið skiptist í tvo hluta:
A) Gerð verður yfirborðsmæling á minjasvæðinu öllu með rafstýrðum hæðarmæli, mælingum safnað í gagnastökk og gögnin nýtt til að teikna kort og líkan af yfirborði svæðisins. Auk þess verður minjasvæðið í Þingey yfirborðsmælt með sama hætti.
B) Ein tóft verður rannsökuð með grefti, á sama hátt og þingbúðin í Þingey var rannsökuð sumarið 2005, þ.e. tóftinni skipt í fjóra reiti, og 2 andstæðir reitir grafnir. Reyndist sú aðferð vel, þar sem bæði var unnt að rekja gjóskulög og mannvistarlög með nákvæmni, bæði í grunnfleti og sniði.
Tímaáætlun:
15.7-31.7 Undirbúningur
1.8-4.8 Uppmæling
5.8-26.8 Uppgröftur
1.9-31.10 Úrvinnsla og skýrslugerð
Þegjandadalur, fornleifaskráning.
Sumarið 2005 var hafin fornleifaskráning á Þegjandadal í samstarfi Hins þingeyska fornleifafélags og Fornleifastofnunar Íslands sem annast framkvæmd rannsókna. Samtals á annað hundrað fornleifa voru skráðar sem er u.þ.b. þriðjungur af ætluðum minjum á dalnum. Fyrstu rannsóknir leiddu í ljós umfangsmiklar búsetuminjar frá miðöldum sem ótrúlega lítið hefur verið raskað á síðustu öldum og áratugum þrátt fyrir að dalurinn hafi ætíð verið nýttur sem upprekstrarland af bændum í nærsveitum. Á dalnum er m.a. að finna reislulega bæjarhóla, fjöldann allan af útihúsatófum, margfalda vallargarða og margra kílómetra langt kerfi garða. Auk þess eru heillegar leifar bænhúss og kirkjugarðs að finna á tveimur bæjum í dalnum vestanverðum og var sá ytri rannsakaður sumarið 2005.
Fyrirhugað er að ljúka fornleifaskráningu á dalnum sumarið 2006 og skýrslu veturinn 2006-2007 þar sem verður að finna ýtarlega skrá yfir alla minjastaði á dalnum, lýsingu á öllum fornminjum ásamt teikningum og ljósmyndum. Allir minjastaðir eru hnitsettir og verður hnitunum varpað á loftljósmyndir sem gera munu áhugasömum auðveldara að átta sig á landslagi og minjum dalsins.
Ytra-gerði, frumrannsóknir.
Í landi Narfastaða eru mikil garðlög og eitt þeirra, Gamli-Garður gengur þvert á túnstæði gamla Narfastaðabæjarins og bendir það til þess að það geti vart verið samtíma bæjarstæðinu. Vísbendingar eru um að bær hafi staðið þar sem gamli Narfastaðabærinn er nú, frá því um 1200 (vegna bænhúsbjöllunnar sem þarf fannst). Tekinn var skurður í Gamla-Garð sumarið 2005 og leiddi sú rannsókn í ljós að garðurinn er a.m.k. eldri en frá því um 1300, hugsanlega miklu eldri. Því er líklegt að bæjarstæði Narfastaða hefi áður verið á öðrum stað þ.e. fyrir 1200. En hvar? Líkum má leiða að því að upphaflega hafi bærinn verið byggður þar sem nú eru rústir á Ytra-Gerði, fast norðan við tún gamla Narfastaðabæjarins.
Fyrirhuguð er forkönnun þar sem teknir verða tveir prufuskurðir, annar í garðlag sem er fast ofan við ytra-Gerði og hinn í garðlag sem liggur þar fyrir ofan. Líklegt er að garðarnir tengist mannvist í Ytra-Gerði og geta varpað nánara ljósi á upphaf byggðar á staðnum. Einnig verða tekin borkjarnasýni á völdum stöðum í og við rústir á Ytra-Gerði til að áætla þykkt mannvistarlaga þar og ganga úr skugga um hvort þar sé öskuhaug að finna. Með þessum grunnrannsóknum verður leitast við að svara spurningunni hvort á Ytra-Gerði sé að finna fyrstu byggð á Narfastöðum og varpa jafnframt skýrara ljósi á aldur rústanna og umfang mannvistarleifanna. Á grundvelli þessara rannsókna verður hægt að taka ákvörðun um hvort tilefni sé til frekari rannsókna á svæðinu.
Verkefnið er samstarfsverkefni Hins þingeyska fornleifafélags og Ferðaþjónustunnar á Narfastöðum ehf.
Litlu Núpar, frumrannsóknir og frágangur eldri rannsókna.
Rústirnar á Litlu-Núpum eru fyrir margra hluta sakir merkilegar. Þær eru umluktar tveimur, miklum garðlögum og túnin sem garðarnir afmarka eru óvenjustór. Innan túngirðingar er að finna fjölmargar tóftir og gerði sem eru að mestu leyti óhreyfð þó að beitarhús hafi verið byggð upp á tóftunum á síðari öldum en þau voru í notkun til 1913.
Rústa eyðibýlisins er fyrst getið í rituðum heimildum um aldamótin 1700, í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Þar segir: ?Litlunupar kallast fornt eyðiból hjer í landinu ut frá heimajörðinni, sem rómast að þar hafi í fyrndinni staðið, þo menn viti þess engin sannyndi. Sýnileg byggíngamerki eru hjer tóft og girðínga. Á því eru munnmæli að þessi jörð hafi eyðilagst fyrir reimleika. Ekki má hjer aftur byggja fyrir heyskaparleysi, þó er túnstæði nokkuð.?
Það sem m.a. styrkir tilgátur um að Núpabærinn hafi fyrst staðið á þeim stað sem nú kallast Litlu-Núpar er kumlfundur við ytri garð býlisins. Kuml fundust þar fyrir tilviljun árið 1915, þegar drengur einn var að elta hunangsflugu og sá hana fljúga inn í þúfu. Rótaði hann í þúfunni og vildi finna búið. Fann hann þar hauskúpu og var flugnabúið inni í henni. Matthías Þórðarson þáv. þjóðminjavörður rannsakaði kumlið árið 1915 og í ljós kom að þar hafði verið heygð fullorðin kona, með höfuð til norðurs. Skammt frá kumlinu voru uppblásin bein úr tveimur hrossum. Adolf Friðriksson, fornleifafræðingur kom á staðinn árið 2004 og var enginn staðkunnugur sem vissi um hvar kumlin höfðu fundist, enda langt um liðið. Tókst honum engu að síður að staðsetja þau kuml sem fundist höfðu 1915. Athugunin sumarið 2004 beindist annarsvegar að því að kortleggja kumlfundarstaðinn frá 1915, og athuga hvort þar leyndust fleiri kuml. Var í því skyni annarsvegar grafið í áðurnefnda þúst og hinsvegar í eina af lautunum þar hjá. Kuml fundust á báðum stöðum. Ekki gafst, sumarið 2004, tími til að rannsaka nánar umhverfi kumlanna. Niðurstöður Adolfs voru þær að næsta víst sé að á þessum slóðum leynist a.m.k. 2-3 önnur kuml.
Ljóst er að ítarlegri rannsókna er þörf á Litlu-Núpum, til að ganga úr skugga um hvort þar leynist frekari kuml frá fyrstu öldum, skera úr um aldur rústanna og ganga frá skráningu á minjasvæðinu.
Í fyrstu rannsóknarlotu er fyrirhugað að aldurssetja rústirnar og í þeim tilgangi verða prufuskurðir teknir í bæði ytri og innri vallargarð. Gjóskulög ættu að hjálpa við tímasetningu garðlaganna og þ.a.l. rústanna. Af skurðunum má einnig sjá hvort vallargörðunum hefur verið við haldið og þannig e.t.v. hversu lengi byggð á Litlu-Núpum hefur varað. Þá verður leitað ummerkja um fleiri kuml með kjarnaborun og kumlateigurinn mældur og teiknaður upp. Að auki er fyrirhugað að ljúka við skýrslugerð vegna grunnrannsókna er gerðar voru árið 2003.
Þannig samþykkt á stjórnarfundi Hþf., 21.04.2006