Verkefnaskrá 2005

Verkefnaskrá Hins þingeyska fornleifafélags 2005.

Þingey í Skjálfandafljóti:

Lýsing verkefnis

 

Verkefnið skiptist í tvennt: Annars vegar verða rústir í eynni mældar nákvæmlega upp með GPS-yfirborðsmælingu (differential GPS). Þannig er unnt að búa til nákvæmt þrívíddarlíkan af öllum rústunum. Hins vegar verða grafnir könnunarskurðir á fjórum stöðum, fyrst og fremst til að greina aldur rústanna með aðferðum gjóskulagafræði en einnig til að kanna innri gerð þeirra, hvort þar leynist gólflög eða önnur merki um mannvist. Slíkur skurðgröftur er nauðsynlegur undanfari frekari uppgraftar.

Fyrirhuguð rannsókn er hluti af stærra verkefni sem er á stefnuskrá nýstofnaðs félags sem nefnist Þingeyskur sagnagarður. Þingeyskur sagnagarður hefur að markmiði að safna saman og miðla fyrirliggjandi söguþekkingu á svæðinu og afla nýrrar þekkingar. Í fyrstu mun áhersla lögð á þrjá staði: Þorgeirskirkju í Ljósavatnsskarði, Goðafoss og Þingey. Hið þingeyska fornleifafélag hefur forgöngu um að efla rannsóknarþátt málsins. Til að Þingey geti orðið vænlegur viðkomustaður ferðamanna er m.a. nauðsynlegt að útbúa kynningarefni við hæfi. Mikilvægt er að til sé nákvæmur uppdráttur af rústunum og að lágmarksvitneskja sé fyrir hendi um aldur þeirra og innri gerð. Fornleifastofnun Íslands mun annast rannsóknirnar að fengnum tilskyldum leyfum og verða niðurstöður rannsókna birtar í skýrsluformi.

Þegjandadalur í Aðaldal:

Verkefnið

 

Fyrirhugað verkefni felst í aðalskráningu fornleifa á dalnum. Í slíkri skráningu er gengið á alla minjastaði, þeir staðsettir með gps-hnitum, uppdrættir gerðir og lýsingar ritaðar. Síðan eru minjarnar færðar inn á kort. Slík skráning gefur því yfirlit um allar sjáanlegar mannvistarleifar og hlýtur að teljast einhver öflugasti grunnur að frekari rannsóknum á dalnum sem völ er á.

 

Fátt er vitað um fjölda fornleifa á Þegjandadal, enda skortir heimildir um það þar sem byggðin virðist hafa lagst af svo snemma. Þó er vitað að þar er fjöldinn allur af tóftum, garðlögum og öðrum sjáanlegum minjum. Kostnaðaráætlun byggir annars vegar á stærð dalsins og hins vegar á reynslu af fornleifaskráningu á sambærilegum svæðum. Áætlað er að verkið verði unnið í júlí eða ágúst sumarið 2005 og áfangaskýrsla verði tilbúin um áramót 2005-2006. Lokaskýrslu er svo að vænta vorið 2006.

Mjög mikilvægt er að hafist verði handa við skráningu fornleifa á dalnum. Jafnhliða samdrætti í landbúnaði hefur lággróður aukist þar til mikilla muna og verður skráning erfiðari eftir því sem árin líða. Skráningin er mikilvæg, ekki aðeins í rannsóknarlegu tilliti heldur gefur kynning minja á Þegjandadal mikla möguleika fyrir ferðamenn og gæti þannig stutt við atvinnulíf í hreppnum.

Sveitarstjórn Aðaldælahrepps hefur veitt félaginu styrk að upphæð kr. 100.000.00 til að hefja fornleifaskráningu. Skráningin verður framkvæmd af Fornleifastofnun Íslands.

Forn garðlög á Narfastöðum

Með því að afla upplýsinga um aldur nokkurra valinna garðlaga á Narfastöðum mætti líkast til svara mikilvægum spurningum um sögu byggðar á staðnum. Gæti það verið góður grunnur að frekari rannsóknum á jörðinni. Fyrirhugaðir könnunarskurðir eru eftirfarandi:

1. Könnunarskurður í garð sem umlykur heimaland Narfastaðasels. Augljóst virðist að garðurinn hefur átt að marka af heimaland selsins. Með könnunarskurði ætti að vera hægt að fá hugmynd um hvenær fyrst hefur komist á byggð þar, hvort sem um hefur verið að ræða fasta búsetu eða selstöðu frá Narfastöðum eins og nafnið bendir til.

2. Könnunarskurður í Gamlagarð sem liggur allt frá Reykjadalsá og langt vestur fyrir túngarð á Narfastöðum. Ef litið er á kort (sjá viðhengi hér aftan við) sést að afstaða garðsins er sérkennileg ef miðað er við það bæjarstæði sem talið er elst á Narfastöðum ? það er utan þess svæðis sem garðurinn afmarkar. Því virðist hann tilheyra eldra byggðarskipulagi og er hugsanlegt að Narfastaðabærinn hafi áður staðið innan garðsins. Þar eru töluvert miklar rústir sem hafa ekki verið kannaðar og nefnast Ytragerði.

3. Könnunarskurður í ónefndan garð sem liggur skammt ofan við áðurnefnt Ytragerði. Hann tekur nokkuð augljósan sveig um gerðið og virðist því hafa verið byggður síðar en það. Uppgröftur í bæjarhóla og bæjarstæði þar sem hús hafa verið reist æ ofan í æ öldum saman, er bæði flókin, kostnaðarsöm og tímafrek aðgerð. Könnunarskurðir í ofangreind garðlög á Narfastöðum eru hins vegar fyrsta skrefið í þá átt að varpa ljósi á byggðina þar og þróun hennar með tiltölulega einföldum hætti og litlum tilkostnaði.