Grafið í garðana.
25. Júní 2006
Sumarið 2005 voru grafnir könnunarskurðir í þrjú garðlög í landi Narfastaða en Sparisjóður Suður Þingeyinga styrkti Hið þingeyska fornleifafélag til þátttöku í umfangsmikilli rannsókn á garðlögum í Suður-Þingeyjarsýslu.
Könnun og kortlagning á loftmyndum hefur leitt í ljós alls um 150 km af görðum. Bændur hafa veitt þessum merkilegu mannvirkjum athygli gegnum aldirnar, enda eru þau oft tilkomumikil og getur hver garður verið allt upp í 8-10 m breiður. Þó eru þeir oft svo signir og máðir að erfitt er að koma auga á þá á jörðu niðri. Á hinn bóginn hefur heildinni aldrei verið gefinn gaumur og því veit í raun enginn hvernig garðakerfið var upp byggt eða hvaða tilgangi það þjónaði. Eyður í garðamynstrinu benda til þess að 50-100 km til viðbótar hafi horfið vegna jarðvegseyðingar. Samfella garðlaganna bendir til þess að þau séu flest frá sama tíma og frumathuganir á gjóskulögum benda til þess að þau hafi verið komin úr notkun töluvert áður en gjóskulagið V-1477 féll og sum jafnvel fyrir 1300. Helsta markmið yfirstandandi rannsókna á görðunum er að kortleggja þá með bestu fáanlegu tækni, þ.e. ýmsum tegundum mismunandi loftmynda sem eru settar inn í sérhæfð kortaforrit. Einnig verða garðar aldursgreindir á völdum stöðum með uppgröftum og aðferðum gjóskulagafræði og tengsl þeirra við ýmsa minjastaði athuguð, s.s. býlisrústir. Þá verða áhrif gróðureyðingar á þá könnuð og leitað leiða til að kynna þessar merku fornminjar fyrir almenningi. Sjá nánar um garðaverkefnið á vef Fornleifastofnunar
Tekinn var skurður í gegnum garð sem umlykur Narfastaðasel á Seljadal og skv. gjóskulagagreiningu hefur hann verið byggður eftir 870 og verið fallinn úr notkun fyrir 1158.
Snið var mælt í norðurprófíl skurðsins, um 1 m norðan garðsins. Þar má sjá að gjóskulögin V-1477, H-1300 og H-1158 liggja yfir torfhruni úr garðinum. Um 4 cm eru frá torfi upp í H-1158. Landnámssyrpan og Hekla-3 eru áberandi í torfinu. Garðurinn er frá því alllöngu fyrir 1158.
Annar skurður var tekinn í gegnum „Gamla Garð“ sem liggur austur/vestur í gegnum gömlu túnin á Narfastöðum frá Reykjadalsá og upp í „Brúnadal“ og hefur hugsanlega umlukið eldra bæjarstæði á Narfastöðum en nú er þekkt, hugsanlega það sem nú er kallað Ytra-Gerði. Sá garður hefur verið byggður eftir 870 og fallinn úr notkun fyrir Heklugosið árið 1300.
Yfir garðinn liggja gjóskulögin V-1477 og H-1300. Slitra af grænleitu gjóskulagi er neðar, um 3-4 cm ofan við niðurgröft. Samkvæmt smásjárskoðun gæti verið um sama lag að ræða og fannst í sniðinu við Þverá. Sé sú raunin er um að ræða gjósku frá seinni hluta 13. aldar. Landnámssyrpan er varðveitt undir torfhleðslunni. Hún er ennfremur í torfinu ásamt Heklu-3. Garðurinn er frá því fyrir 1300 (sennilega talsvert fyrr).
Loks var tekin könnunarskurður í gegnum nýlegt rof í vallargarð sem umlykur gamla Narfastaðabæinn en sá garður, líkt og talið var, reyndist byggður eftir 1717 og stendur enn reisulegur.
Í sniði sem grafið hafði verið í gegnum garðinn, sem stendur að mestu í fullri hæð, mátti sjá allmörg gjóskulög undir honum. Þar eru m.a. gjóskulögin H-1158, H-1300, V-1477 og V-1717 næst undir torfhleðslunni. Í torfinu eru hnausar með V-1477, LNL og Heklu-3. Túngarðurinn er hlaðinn eftir árið 1717.
Forn garðlög í Suður-Þingeyjarsýslu. Fornleifastofnun Íslands 2005.