Þingey

Rannsóknir í Þingey 2005. Bráðabirgðaskýrsla

Forn garðlög í S-Þingeyjarsýslu
Um þessar mundir fer fram umfangsmikil rannsókn á garðlögum í Suður-Þingeyjarsýslu. Þar finnast víða miklir og fornlegir garðar sem liggja bæði á heiðum uppi og niðri í byggð. Könnun og kortlagning á loftmyndum hefur leitt í ljós alls um 150 km af görðum. Bændur hafa veitt þessum merkilegu mannvirkjum athygli gegnum aldirnar, enda eru þau oft tilkomumikil og getur hver garður verið allt upp í 8-10 m breiður. Þó eru þeir oft svo signir og máðir að erfitt er að koma auga á þá á jörðu niðri. Á hinn bóginn hefur heildinni aldrei verið gefinn gaumur og því veit í raun enginn hvernig garðakerfið var upp byggt eða hvaða tilgangi það þjónaði.

Eyður í garðamynstrinu benda til þess að 50-100 km til viðbótar hafi horfið vegna jarðvegseyðingar. Samfella garðlaganna bendir til þess að þau séu flest frá sama tíma og frumathuganir á gjóskulögum benda til þess að þau hafi verið komin úr notkun töluvert áður en gjóskulagið V-1477 féll og sum jafnvel fyrir 1300.

Garðlögin ná yfir mjög stórt svæði og umfang þeirra sýnir að óhemju mikil vinna hefur verið lögð í hleðsluna og hefur til þess þurft mikið vinnuafl. Þannig geta þau ekki einungis gefið vísbendingu um beitarstjórnun og landnýtingu til forna heldur einnig verið ómetanleg heimild um samfélagsgerð og samvinnu manna á milli.

Helsta markmið yfirstandandi rannsókna á görðunum er að kortleggja þá með bestu fáanlegu tækni, þ.e. ýmsum tegundum mismunandi loftmynda sem eru settar inn í sérhæfð kortaforrit. Einnig verða garðar aldursgreindir á völdum stöðum með uppgröftum og aðferðum gjóskulagafræði og tengsl þeirra við ýmsa minjastaði athuguð, s.s. býlisrústir. Þá verða áhrif gróðureyðingar á þá könnuð og leitað leiða til að kynna þessar merku fornminjar fyrir almenningi.

Verkefnishópur

Dr Árni Einarsson

Professor Christian Keller

Dr Orri Vésteinsson

Birna Lárusdóttir

Elín Ósk Hreiðarsdóttir

Oscar Aldred

Tekið af vef Fornleifastofnunar Íslands

sjá forneif.is

 

Ferðalangar við forna tóft.
Þingað um þingstað.
Gantast yfir garðlagi
Og ennþá fleiri gestir á leið í Þingey.
Fleiri góðir gestir í Þingey
Gestir í Þingey
Könnunarskurður í garðlag umhverfis búðirnar
Veggur þingbúðarinnar að koma í ljós
Fyrsta skóflustungan í þingbúðartóftina.
Í miðri Bjúgeyjarkvísl
Rannsóknarhópur veður af stað út í Þingey