Framvinduskýrslur og verkefnaskrár

Til framtíðar
Verkefnaskrá Hins þingeyska fornleifafélags.

1. Ferðaþjónusta og fornleifar. Það er nýjung á Íslandi að nýta fornar mannvistarleifar í þágu ferðaþjónustunnar. Í Þingeyjarsýslum eru rúmlega 10.000 fornleifar, og meðal þeirra leynast án efa allmargir staðir sem gætu orðið að nýjum áningarstöðum ferðamanna, ef vel er staðið að rannsóknum og kynningu sem og nauðsynlegum framkvæmdum við að gera þessa staði aðgengilega.
Verkefni: Vettvangur þessa málefnis er víðtækur og snertir mörg ólík svið. Það er því mikilvægt að félagið stuðli að farsælu samstarfi ferðaþjónustuaðila, ábúenda, fræðimanna, menningarstofnana í héraði og stjórnvalda.

2. Þingstaðir. Á Íslandi eru rúmlega 100.000 fornleifar. Algengustu minjaflokkarnir eru bæjarleifar og hverskyns minjar tengdar landbúnaði eða sjósókn. Einn fágætasti flokkurinn er þingminjar frá þjóðveldisöld. Auk Alþingis við Öxará voru haldin héraðsþing að vori og hausti. Vorþingin voru 13. Héraðsþingin féllu úr notkun á miðöldum og minjar þeirra týndust. Á 19. öld var þeirra leitað skipulega, og fundust flestir þingstaðirnir, aðrir höfðu eyðilagst eða hafa ekki fundist enn. Þingvellir eru einn vinsælasti ferðamannastaðurinn á landinu, en sjaldgæft er að ferðamenn leggi leið sína um héraðsþingin, enda þekkir almenningur þá ekki, erlendir ferðamenn hafa ekki aðgang að upplýsingum um þá, og engin aðstaða fyrir gesti er fyrir hendi á þessum stöðum. Þingey er sá þingstaður sem óaðgengilegastur er á landinu, og örfáir ferðamenn þekkja til Leiðarness, þótt tóftir þar séu einungis 500 metra frá þjóðvegi 1. Verkefni:
a) að gera rannsóknir í Þingey, Skuldaþingsey, Leiðarnesi og öðrum þingminjum í héraðinu,
b) kynna þingminjar héraðsins, auðvelda aðgang ferðalanga að þeim, og gera Þingey að grundvallarþætti í uppbyggingu menningartendrar ferðaþjónustu.
c) Stuðla að því að haldið verði ?Þingeyjarþing? á hverju ári, sem væri e.k. sumarhátíð héraðsins með fjölbreyttri dagskrá.

3. Landnám. Fornleifarannsóknir á fornum bæjarleifum í S- og N-Þingeyjarsýslum voru mjög takmarkaðar fram til 1990, er uppgröftur hófst á Hofstöðum í Mývatnssveit. Síðan þá hafa verið gerðar rannsóknir á fleiri stöðum í Mývatnssveit, Reykjahverfi og Aðaldal. Markmið þessara rannsókna er að rekja framvindu landnáms í héraðinu. Rannsóknirnar hafa verið kostaðar af ýmsum aðilum og verður þeim haldið áfram næstu ár.
Verkefni:
a) gera rannsóknarstaðina aðgengilega og kynna þá ferðafólki,
b) gefa ferðamönnum kost á að sjá fornleifafræðinga að störfum við rannsóknir,
c) leita leiða til að nýta nýja þekkingu á sögunni og þá gripi sem fundist hafa, s.s. með sérsýningum á söfnum eða öðrum stöðum í héraðinu.

4. Kuml. Á Íslandi hafa kuml, þ.e. heiðnar grafir frá víkingaöld, fundist á 160 stöðum, alls um 320 grafir. Í Þingeyjarsýslum, fram til vorsins 2003, voru þekktir 21 staður, alls um 32 grafir. Í þeirra hópi eru nokkur mjög athyglisverð kuml, t.a.m. Baldursheimskumlið og Daðastaðakuml (í Núpasveit), en þau voru óvenjuauðug af haugfé. Eins fannst sérkennileg hrossagröf við Grímsstaði í Mývatnssveit. Þar höfðu 2 hestar verið heygðir, þ.e.a.s. frampartur af öðrum, og afturpartur af hinum. Ekki eru þekkt önnur dæmi um slíkan greftrunarbúnað á menningarsvæði víkinga.
Um 40% kumla í Þingeyjarsýslum fundust vegna uppblásturs, 20% vegna vegagerðar, 10% við ræktun, 5% við byggingar, en um fundaratvik í öðrum tilfellum er ekki vitað. Athyglisvert er að engin þessara kumla fundust við fornleifarannsókn. Flest fundust fyrir árið 1960, en afar fá eftir það. Á síðasta ári varð breyting þar á, en þá hófst lítilsháttar tilraun til að staðsetja kuml með skipulagðri leit. Árangurinn varð sá að kuml fundust í Saltvík (með 2 gröfum) og Lyngbrekku (með a.m.k. 4 gröfum), og á Litlu-Núpum, þar sem áður hafði fundist kuml, þar reyndist vera kumlateigur (með a.m.k. 5 gröfum).
Fornir greftrunarstaðir eru fáum kunnir, og engin dæmi um það á landinu að þeir séu kynntir ferðafólki.
Verkefni:
a) Halda áfram rannsóknum á kumlum, og leita áður óþekktra kumla.
b) Rannsaka til hlítar kumlateiga, t.a.m. á Litlu-Núpum og í Lyngbrekku.
c) Velja heppilega staði, hlaða þar upp nokkur forn leiði á kumlateig og gera aðgengileg almenningi.

5. Eyðibýli, sel, fornar leiðir og garðlög. Vel varðveittar leifar eyðibýla eru óvenjumargar í héraðinu. Voldugt kerfi garðlaga á heiðum hafa vakið athygli fræðimanna og almennings. Eyðibýli hafa sum verið skráð af ýmsum aðilum síðustu áratugi, en skipuleg skráning þeirra hófst við almenna fornleifaskráningu 1996. Nýlegar athuganir á garðlögum sýna að þau eru frá miðöldum. Jafnframt eru vel varðveittar leifar selja. Engar fornleifarannsóknir hafa verið gerðar á seltóftum, seljabúskapur er orðinn fjarlægur landsmönnum, og erlendir gestir hafa fá tækifæri til að kynnast þessum þætti íslenskrar menningarsögu.
Verkefni:
a) Gera rannsóknir á fornum garðlögum á Fljótsheiði, Hvammsheiði, Tjörnesi og víðar í héraðinu.
b) Vinna að skráningu og uppgrefti á fornbýlum, s.s. Saltvík, Litlu-Núpum, Narfastaðaseli, Ytri-Tungu, Hrísheimum, Hólakoti, Þrælagerði, Oddakofa, byggðaminjum á Þegjandadal og ýmsum lítt þekktum eyðibýlum og tóftum.
c) Skrá fornar leiðir um héraðið.
d) Hefja uppgröft á vel varðveittum seltóftum, t.a.m. í Seljadal og á Fljótsheiði.
e) Rannsaka minjar um útgerð á Flateyjardal og Tjörnesi.
f) Rannsaka kirkjutóftir og grafreiti úr kristni, s.s. í Saltvík, á Hofstöðum og Bakka.
g) Gera garðaskoðun mögulega og áhugaverða fyrir ferðamenn, og auðvelda aðgang að seltóftum.

6. Fornleifaskráning.
Í S- og N- Þingeyjarsýslum eru a.m.k. 10.000 fornleifar. Þar af hafa um 9.500 verið svæðisskráðar (eftir fyrirliggjandi ritheimildum), og 2200 aðalskráðar (skráning á vettvangi).
Að ljúka svæðisskráningu fornleifa fyrir allt svæðið væri verk sem tæki um 4-5 mannmánuði. Að ljúka aðalskráningu fornleifa tæki um 50 mannmánuði.
Fornleifaskráning þjónar skipulagsvinnu, og stuðlar að verndun minja, en hún er jafnframt besti grundvöllurinn að markvissri uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu. Við fornleifaskráningu eru minjar m.a. kortlagðar, lagt mat á ástand þeirra, og gildi.
Verkefni: að stuðla að áframhaldandi skráningu og veita viðleitni sveitarfélaga á svæðinu stuðning.

Þannig samþykkt á stofnfundi Hins þingeyska fornleifafélags, 2. október 2004.