Fornir fimmtudagar – Svalbarð í Þistilfirði

Mynd: Guðrún Alda Gísladóttir

Fimmtudaginn 17. júlí klukkan 17:30 býðst almenningi og ferðafólki að litast um í kirkjunni á Svalbarði þar sem Sigtryggur Þorláksson tekur á móti gestum og segir sögu kirkjunnar. Að því loknu bjóða fornleifafræðingar í heimsókn á uppgraftrarsvæðið á Svalbarði og gera grein fyrir sínum störfum og fræða um fornleifar á svæðinu Á 9. áratugnum og svo aftur frá árinu 2008 hafa fornleifafræðingar verið við störf á Svalbarði í Þistilfirði og á Svalbarðstungu. Í fyrstu var einblínt á hinn geysiþykka öskuhaug Svalbarðsbýlisins sem spannar tímabilið frá seinni hluta víkingaaldar til þeirrar 19.  Af greiningum dýrabeina úr haugnum voru svo dregnar víðtækar ályktarnir um þróun efnahags á Íslandi m.a. í samhengi við hina svokölluðu Litlu ísöld sem stóð ca. 1450-1900. Síðan þá hafa enn frekari rannsóknir verið gerðar á Svalbarðshaugnum en einnig öðrum býlum og seljum á Svalbarðstungu og þess freistað að komast að því hvenær þau voru í byggð og að finna öskuhauga sem verða svo bornir saman við Svalbarð með það fyrir augum að greina hver munurinn er á efnahagi hjáleigna og höfuðbýlis. GAG / UING

Fornir fimmtudagar – SAGA MÝVATNS

Hús Rannsóknarstöðvarinnar við Mývatn

Fimmtudagskvöldið 15. ágúst býður Hið þingeyska fornleifafélag í samstarfi við Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn, gestum og gangandi í heimsókn í húsnæði stöðvarinnar á Skútustöðum við Mývatn en þar mun Árni Einarsson forstöðumaður stöðvarinnar taka á móti gestum.

Eitt af mörgum verkefnum stöðvarinnar er að rekja sögu vatnsins frá myndun þess fyrir ríflega 2000 árum og fram á þennan dag og gestir munu kynnast tækninni sem beitt er til að ná borkjörnum úr setlögum vatnsins og aðferðum sem notaðar eru til að lesa  í söguna.  Kynntar verða niðurstöður rannsóknar á sögu lífríkis í Mývatni síðastliðin 160 ár eða svo.

 

Náttúrurannsóknarstöðin er til húsa í gamla prestsetrinu á Skútustöðum.  Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir og minnt er á að kynningin hefst kl. 19.00

 

Nánar má fræðast um fjölmargt sem tengist rannsóknum stofnunarinnar á vefsíðu hennar; www.ramy.is  

Fornir fimmtudagar – rauðablástur á Skógum í Fnjóskadal.

Fimmtudagskvöldið 8. ágúst kl. 20.00 býður Hið þingeyska fornleifafélag í samstarfi við Byggðasafn Skagfirðinga gestum og gangandi í heimsókn á fyrirhugað framkvæmdasvæði Vaðlaheiðarganga, Fnjóskadalsmegin, þar sem við fornleifarannsókn komu í ljós óvænt ummerki um umfangsmikla járnvinnslu.

Árin 2011 og 2012 unnu fornleifafræðingar á vegum Byggðasafns Skagfirðinga að fornleifauppgreftri í landi Skóga í Fnjóskadal vegna fyrirhugaðra framkvæmda við gerð Vaðlaheiðarganga. Rannsókn á staðnum hófst vorið 2011 þegar komu óvænt í ljós ummerki um járnframleiðslu undir rústum gamalla fjárhúsa, mitt í fyrirhuguðum gangamunna. Komið hefur í ljós að vinnsla járns úr mýrarauða eða svonefndur rauðablástur var stundaður á Skógum frá því fyrir 1104, en framleiðslu var hætt nokkru fyrir 1300. Ljóst er að framleiðsla járns á staðnum hefur hlaupið á tonnum og um er að ræða umfangsmikla iðnvinnslu síns tíma.

Auk járnvinnslunnar komu í ljós umtalsverð ummerki um vinnslu annarra málma, einkum kopars. Fjöldi deigla og deiglubrota fundust í ruslalagi skammt frá járnvinnslusvæðinu sem bera merki þess að þar hafi einnig verið bræddir og steyptir málmar.

Uppgröfturinn á Skógum er merkileg viðbót við iðnsögu landsins, þar sem jafn umfangsmikill járnvinnslustaður hefur ekki áður verið grafinn upp í heild sinni né heldur hafa  jafn margar deiglur og deiglubrot áður fundist á einum stað og munu niðurstöður uppgraftarins varpa ljósi á margt er varðar innlenda framleiðslu og endurvinnslu á málmum á fyrri tímum.

 

Boðið verður upp á stutta leiðsögn um járnvinnslusvæðið og að því loknu verður gerð nánari grein fyrir rannsóknunum í kaffihúsinu Uglunni í gamla barnaskólanum á Skógum.

Leiðsögumaður er Guðmundur S. Sigurðsson fornleifafræðingur hjá Byggðasafni Skagfirðinga.

Um rauðablástur má fræðast nánar á vefsíðu Ferlis með því að smella á tengilinn http://www.ferlir.is/?id=3177 

Fornir skálar að Fremri-Fjöllum?

Teikning Árna Einarssonar af „skálanum“ stóra á Fremri Fjöllum og öðrum mynni a sama stað. Mynd Ásgeir Böðvarsson
Hluti gesta við beitarhúsatóftirnar á Fremri FJöllum. Mynd Ásgeir Böðvarsson.
Ekki er alltaf auðvelt að greina forn mannvirki í landslaginu þótt stór séu. Mynd Ásgeir Böðvarsson.

Fimmtudaginn 1 ágúst var farin skoðunarferð að Fremri-Fjöllum í Kelduhverfi á vegum Hins þingeyska fornleifafélags, en félagið hefur undanfarin ár staðið fyrir kynningarferðum um áhugaverða staði undir nafninu „Fornir fimmtudagar“.   Leiðsögumenn í ferðinni voru Stefán Ólafsson fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands og Árni Einarsson forstöðumaður Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn en báðir hafa rannsakað þetta svæði talsvert auk þess sem Ólafur Jónsson bóndi á Fjöllum miðlaði þekkingu sinni af svæðinu.

Fremri-Fjöll kallast tóftasvæði eða rústir sem eru 3,5 km sunnan við býlið Fjöll í Kelduhverfi. Tóftir þessar eru afar athyglisverðar fyrir margra hluta sakir.  Í fyrsta lagi eru þær óvenju margar á ekki stærra svæði og virðist sem þarna séu leifar tveggja eða jafnvel þriggja skála/langhúsa auk nokkurra minni byggingarleifa.  Auk þess eru garðakerfi eða gerði mjög vel sjáanleg og mynda lítil hólf eða tengja saman tóftirnar.  Svipar þetta að nokkru leyti til gerða eða garðahólfa sem sjást á Ingiríðarstöðum í Þegjandadal og rannsóknir þar sýndu merki um plógför sem bent gætu til að um kornyrkju hefði verið að ræða í þessum hólfum þótt einnig hafi slík gerði hugsanlega þjónað sem hólf til að geyma skepnur. Það vekur einnig athygli að þessar tóftir eru óvenjulega vel sýnilegar allar, bæði byggingar og garðar standa talsvert hátt yfir umhverfið – sums staðar allt upp í 1 metra.  Flest bendir til að þær séu frá landnámsöld en ekki hefur verið grafið í tóftirnar til að aldursgreina þær.  Hins vegar var gerður könnunarskurður í gegnum garð þar stutt frá og reyndist sá garður hlaðinn að minnsta kosti fyrir 14. öld og líklega strax eftir landnám.  Þess má einnig geta að Sigurður Jónsson frá Garði skrifaði ýtarlega fornleifalýsingu af öllum þekktm tóftum í Kelduneshreppi og hefur sú lýsing verið rannsakendum til mikils gagns við vinnu sína.

Tóftasvæði Fremri-Fjalla er 360 x 600 metrar að stærð og er afmarkað af görðum auk þess sem svæðið sjálft er skipt upp í reiti af görðum eða gerðum  eins og áður var minnst á.  Ekki er alltaf auðvelt að sjá hvort um tóft eða lítið gerði er að ræða en innnan þessa svæðis eru a m k 11 tóftir vel sjáanlegar og 8 gerði. Fyrir miðju er ein tóftin greinilegust enda leifar af beitarhúsi sem var í notkun á 19. og 20. öld og sker sig algerlega úr meðal hinna eldri tóftanna.

Miklar umræður urðu meðal ferðalanga og ýmsar hugmyndir á lofti.  Flestir voru á þeirri skoðun að hér væru leifar af bæ Böðólfs landnámsmanns á Fjöllum og að minnsta kosti líklegt að fyrstu Fjalla-bændur hefðu þar búið enda eru það forn munnmæli sem getið er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1712;  „Fremre Fioll kallast fornar girðíngar fram með fjöllum í Fjallalandi, og rómast að þar hafi Fjöll í fyrndinni staðið, er ekki er þess getið hvar fyrir að bærinn hafi verið fluttur“.  Ekki er sem sé vitað hvers vegna byggð lagðist þarna af eða hvort bærinn var fluttur á núverandi stað Fjalla og þá hvers vegna. Voru ýmsar kenningar þar um á lofti í okkar hópi.  Einnig varð mönnum tíðrætt um þennan fjölda og ekki síst stærð þeirra tófta sem í útliti svipar til skálabygginga landnámsaldar en stærsta tóftin er 44 x 15 metrar að stærð.  Sé um skála að ræða þá er þetta með allra stærstu þekktu skálum hérlendis. Fjöldi tóftanna á ekki stærra svæði kemur manni fyrir sjónir eins og hér hafi verið eins konar þorp – nema að hér hafi byggingar ekki allar verið í notkun á sama tíma, sem vel getur verið.

Góð þátttaka var í ferð þessari, um 30 manns og voru leiðsögumenn fullir fróðleiks og fúsir til miðlunar á honum.  Einnig naut hópurinn góðs af vitneskju heimamanna á Fjöllum um ýmsar sögusagnir af svæðinu  – bæði í nútíð og allt aftur til landnámsaldar.

Næsta ferð undir merkjum „Fornra Fimmtudaga“ verður farin fimmtudaginn 8 ágúst kl: 20.00 að Skógum í Fnjóskadal þar sem skoðaðar verða menjar um járnvinnslu eða svokallaðan rauðablástur í fornöld.

Ásgeir Böðvarsson

Fornir fimmtudagar – Fremri Fjöll í Kelduhverfi, 1. ágúst kl. 20.00

Fremri Fjöll í Kelduhverfi. Mynd: Árni Einarsson

Fimmtudagskvöldið 1. ágúst kl. 20.00 býðst almenningi og ferðafólki að litast um á Fremri Fjöllum í Kelduhverfi.  Fremri Fjöll eru 3,5 km sunnan við bæinn Fjöll í Kelduhverfi og voru notuð sem beitarhús á 19. og 20. öld.

 

Fremri Fjöll er tóftasvæði sem er um 360x600m að stærð og þar má finna tvær skálalaga tóftir og stórt og flókið garðakerfi. Ef stærri tóftin sem hefur þetta skálalag er skáli í raun mun hann vera með stærri skálum á Íslandi, stærri en Hofstaðaskálinn.  Byrjað verður á að skoða minni skálann og síðan þann stærri, litið yfir garðakerfið og jafnvel á útihúsin.

Ekið er að bænum Fjöllum, sjá kort hér að neðan, og safnast verður þar í bíla og ekið að Fremri Fjöllum.  Leiðsögumenn eru Stefán Ólafsson fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands og Árni Einarsson forstöðumaður Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn.

 

Gestir eru hvattir til að vera vel klæddir og vel skóaðir.

 

Hið þingeyska fornleifafélag. Uing.

Í rústum Hrísheima.

Kamarinn forni fyrir miðri mynd.
Ekki er alltaf augljóst að um fornleifar geti verið að ræða.
Við
Fátt mynnir á blómlegt býli.

Fornir fimmtudagar.

Fyrsta ferð þessa sumars undir merkjum „fornra fimmtudaga“ var farin þann 18 júlí til Hrísheima undir leiðsögn fornleifafræðinganna Adolfs Fiðrikssonar og Orra Vésteinssonar.  Hrísheimar kallast rústir rétt hjá býlinu Heiði í Mývatnssveit og á árunum 2001 – 2006  fóru fram fornleifarannsóknir þar.  Eins og kom fram í máli þeirra máli Adolfs og Orra þá var meðal annars ráðist í þessar rannsóknir til að fá samanburð við rannsóknir sem þegar voru í gangi á Hofstöðum og í Sveigakoti en flest bendir til að Hofstaðir hafi verið bústaður auðugra einstaklinga  í upphafi landnámsaldar en Sveigakot (rústir suðvestan við Grænavatn) fremur dæmi um kotbúskap þeirra tíma og kenningin var sú að Hrísheimar væru hugsanlega dæmi um meðalbú á  landnámsöld.  Var hugmyndin að fá yfirlit yfir búskaparháttu og félagsstöðu í Mývatnssveit á landnámsöld.

Mikill hluti af rústum Hrísheima er horfinn vegna uppblásturs.  Heillegasta svæðið  eru leifar af ruslahaugum og skammt ofan þeirra er hóll með byggingarleifum – hugsanlega hluti af aðalbyggingunni en þar hefur enn ekki verið rannsakað að ráði.  Framan við ruslahaug þennan er mýrardrag og þar austan við eru rústir byggingar úr fornöld en norðan mýrarinnar við Selhóla eru líklega yngri leifar af seli.  Ofan og suðvestan við meinta aðalbyggingu sjást á nokkrum stöðum  gjallhrúgur eftir rauðablástur.  Uppi á einum af Selhólunum  – nokkurn veginn norðan við fyrrnefnt sel er staður sem þótti líklegur sem leifar af kumli en við rannsókn fannst þar fátt nema leifar dýrabeina.

Ljóst er að Hrísheimar eru eitt af elstu merkjum um mannabústaði í Mývatnssveit og raunar landinu öllu.  Þannig fundust mannvistarleifar rétt ofan við öskulag sem féll árið 871, hins svokallaða landnámslags og eins má sjá ummerki um að byggð hafi staðið þar um nokkurn tíma þegar gjóskulag féll árið 940.  Upphaflega virðast landnemar Hrísheima hafa byggt jarðhýsi og síðan raunar annað og urðu þau síðan grunnur að fyrrnefndum öskuhaugum þegar varanlegri bæjarhús risu.  Að sögn Orra og Adolfs má raunar sjá þetta fyrirkomulag oft í byggingu bæja á landnámsöld.  Við hlið þeirra er síðan að margra mati merkilegasti fundur Hrísheima – nefnilega kamar. Það bendir til að íbúar Hrísheima hafi verið þokkalega efnaðir að kamarinn var yfirbyggður og mátti vel sjá marka fyrir stoðarholum fyrir þak en einnig fyrir setbekk þann er sest var á þegar menn gengu örna sinna.  Þar fyrir neðan mátti síðan finna heilmiklar leifar af haughúsi/frárennsli.  Ekki er vitað til að áður hafi fundist leifar af heillegum kamri frá 10 öld á Íslandi og raunar þótt víðar væri leitað en á nokkrum stöðum hafa fundist leifar af útikömrum, m a á Hofstöðum.  Samkvæmt rannsóknum á innihaldi öskuhauganna virðist sem íbúar Hrísheima hafi haft svipaðar fæðuvenjur og samtímafólk þeirra í Sveigakoti og á Hofstöðum,  þannig má á öllum stöðum finna leifar af sjómeti  s s þorski og sjófugli en einnig egg, silung, lax, og leifar dýrabeina t d af sauðfé og geitum auk nautgripa en neysla svínakjöts var þó  mest áberandi í Hrísheimum. Ólíkt því sem var á Hofstöðum þá virðist byggð ekki hafa staðið mjög lengi að Hrísheimum en verið ósltin frá um 870 og næstu 150 – 200 ár  en á elleftu öld virðist byggðin leggjast af án þess að skýring sé á slíku. Var svo raunar um mörg býli í hásveitum Þingeyjarsýslu.

Ferð þessi var farin fyrir tilstuðlan Hins þingeyska fornleifafélags, í samvinnu við Fornleifastofnun Íslands og var hún að mati ferðafélaganna  hin fróðlegasta.  Rétt er að minna á upplýsingar um „forna fimmtudaga“ sem sendir voru á öll heimili í Þingeyjarsýslum og eins má finna upplýsingar um næstu ferðir á www.fornleifafelag.is .

Ásgeir Böðvarsson

Fornir fimmtudagar í Hrísheimum í Mývatnssveit, fimmtudagskvöld 18. júlí 2013 kl. 20.00

Smellið á kortið til að stækka.

Kl. 20:00 (1-1,5 klst.) Adolf Friðriksson og Orri Vésteinsson.

Á árunum 2001-2006 fóru fram fornleifarannsóknir á eyðibýlinu Hrísheimum í Mývatnssveit. Í ljós komu leifar bæjar frá fyrstu öld byggðar í landinu. Fundust þar m.a. jarðhús sem líklega hafa verið
fyrstu húsakynni landnemanna, sem og leifar bæjarhúsa og minja um allumfangsmikla járngerð.
Skammt frá bænum fannst dys sem gæti verið leifar af grafreit þessa merka fornbýlis. Farið verður með gesti á staðinn, sagt frá árangri uppgraftarins og gengið um örfoka tún hinna fornu Hrísheima.
Mæting við afleggjara til vinstri að lítilli námu alveg við veginn rétt áður en komið er að brúnni yfir Gautlandalæk á leiðinni að Heiði, þaðan gengið á staðinn u.þ.b. 5-10 mín. gangur.  Sjá nánar á meðfylgjandi korti.
Nánar má lesa um Hrísheima á vefsvæði NABO (North Atlantic Biocultural Organisation) á slóðinni http://www.nabohome.org/cgi-bin/explore.pl?seq=104
Dagskrá Fornra fimmtudaga 2013 á vegum Hins þingeyska fornleifafélags og samstarfsaðila má sjá hér vinstra megin á síðunni.

Fornir fimmtudagar á Ljótsstöðum

Fimmtudagskvöldið 16. ágúst kl. 20.00 taka fornleifafræðingarnir Birna Lárusdóttir og Elín Hreiðarsdóttir frá Fornleifastofnun Íslands á móti gestum á Ljótsstöðum í Laxárdal og fræða gesti um fornleifaskráningu sem stendur yfir á jörðinni sem og ýmsar þær minjar sem sem þar er að finna.  Ekið er inn Laxárdal að vestanverðu og mæting er heima við hlið á Ljótsstöðum.  Frá Laxárvirkjun tekur u.þ.b. 20 mínútur að aka suður í Ljótsstaði.

Fornir fimmtudagar í kirkjugarðinum á Hofstöðum

Unnið að uppgreftri á barnsgröf sem fannst undir vegg utan kirkjugarðsins.
Horft til austurs yfir uppgraftrarsvæðið.

Fimmtudaginn 9. ágúst kl. 20.00 munu Oddgeir Ísaksen og félagar frá Fornleifastofnun Íslands taka á móti gestum á Hofstöðum í Mývatnssveit þar sem unnið er að uppgreftri á kirkjugarði sem talinn er hafa farið úr notkun fyrir árið 1300.  Meginmarkmið rannsóknarinnar á kirkjugarðinum á Hofstöðum í Mývatnssveit er að gera heildstæða rannsókn á kirkju og kirkjugarði frá miðöldum.  Þetta er gert með það fyrir augum að auka bæði þekkingu á byggingatækni og notkun kirkna á miðöldum, og á greftrunarsiðum á sama tíma.

Rannsóknir hófust á garðinum árið 1999 og stóðu yfir fram til 2004.  Á þeim tíma voru grafnar upp leifar tveggja timburkirna og 76 grafir umhverfis þær.  Er eldri kirkjan talin hafa verið byggð seint á 10. öld en sú yngri, er talin byggð einhvern tíma fyrir 1300 og var að öllum líkindum um stafkirkju að ræða, hugsanlega að norskri fyrirmynd.  Eftir 2004 lágu rannsóknir niðri um árabil en hófust svo aftur árið 2010 og er markmiðið að grafa kirkjugarðinn upp í heild sinni.  Árið 2010 fundust 34 grafir til viðbótar og 2011 bættust við 7 grafir.  Hafa nú alls verið grafnar upp 117 grafir í kirkjugarðinum síðan 1999.  Flestar grafanna innihéldu fullorðna einstaklinga voru austan við eldri kirkjuna.  Voru grafirnar í skipulögðum röðum og var almennareglan sú að konur virðast hafa verið grafnar norðanvert garðinum og karlmenn sunnanvert.  Börnin, sem flest voru hvítvoðungar, virtust flest (alls 41) hafa verið grafin sunnan við kirkjuna og var þétt grafið og mikið um að grafir skæru hver aðra.

Samhliða uppgreftri á kirkjugarðinum hafa farið fram ýmsar rannsóknir á beinagrindunum sem fundist hafa, meðal annars á ýmsum sjúkdómum sem greinanlegir eru á beinunum.  Þó að mannabeinasafn Þjóðminjasafns Íslands sé stórt, er það mjög dreift í tíma, og eru aðeins tólf kirkjugarðar þar sem grafnar hafa verið upp fleiri en tíu beinagrindur. Nú á dögum eru flestar beinafræðilegar rannsóknir byggðar á tölfræðilegri greiningu, og því er mikilvægt að hafa sem flestar beinagrindur frá hverjum stað til að niðurstöður rannsókna verði tölfræðilega marktækar. Því mun það hafa mikið gildi fyrir mannabeinarannsóknir á Íslandi að heildstæður uppgröftur á kirkjugarði eins og á Hofstöðum, hafi farið fram.

Uppgreftri innan kirkjugarðsins á því svæði sem þegar hefur verið opnað, lauk að mestu árið 2011.  Í ár er ætlunin að ljúka við að afhjúpa kirkjugarðsvegginn sem kom í ljós 2010 og leggja jafnframt áherslu á svæðið utan garðsins til að kanna hvort þar er að finna mannvirki tengd notkun hans og ekki síst hvort þar er að finna grafir þeirra sem ekki hafa átt lægt innan garðs, í helgri jörð, af einhverjum orsökum. Má geta þess hér að þegar hafa fundist tvær barnsgrafir utan við garðinn og er unnið að greftri á þeim þegar þetta er ritað.  Á næstu árum er svo ætlunin að stækka uppgraftarsvæðið enn frekar í þeim tilgangi að afhjúpa kirkjugarðinn að fullu.

Kuml í kvöld á Þegjandadal

Steinkragi umhverfis kumlið kominn í ljós

Halda mætti að á Ingiríðarstöðum í Þegjandadal væri flesta það markverðasta komið í ljós eftir margra ára rannsóknir á vegum Hins þingeyska fornleifafélags og Fornleifastofnunar Íslands.  Veggur í miðjum kumlateig kom í ljós árið 2010 og í veggnum var stór hola með manna- og dýrabeinum og við hlið veggsins var gröf ungabarns.  Tóftir mikils skála er að finna á Ingiríðarstöðum og áfram mætti telja.

Nú er hópur fornleifafræðinga að störfum enn á ný á Ingiríðarstöðum í Þegjandadal og enn kemur dalurinn að óvart.  Þegar flett hafði verið ofan af meintu kumli fór að koma í ljós einskonar umgjörð úr grjóti svo helst minnir á hlaðna kistu eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.  Þegar þetta er skrifað að morgni miðvikudags 1. ágúst er ekki ljóst hvað í gröfinni leynist en það mun skýrast í dag og þeir sem heimsækja Ingiríðarstaði í kvöld í gönguferð Hins þingeyska fornleifafélags munu vonandi fá að vita meira kumlbúann á Ingiríðarstöðum og grafarumbúnað hans.

Mæting er á bílaplani á Grenjaðarstað kl. 19.00

Gangan er um mólendi og tekur ríflega eina klst hvora leið.  Gott er að hafa göngustafi.  UnnstIng.