Fimmtudaginn 9. ágúst kl. 20.00 munu Oddgeir Ísaksen og félagar frá Fornleifastofnun Íslands taka á móti gestum á Hofstöðum í Mývatnssveit þar sem unnið er að uppgreftri á kirkjugarði sem talinn er hafa farið úr notkun fyrir árið 1300. Meginmarkmið rannsóknarinnar á kirkjugarðinum á Hofstöðum í Mývatnssveit er að gera heildstæða rannsókn á kirkju og kirkjugarði frá miðöldum. Þetta er gert með það fyrir augum að auka bæði þekkingu á byggingatækni og notkun kirkna á miðöldum, og á greftrunarsiðum á sama tíma.
Rannsóknir hófust á garðinum árið 1999 og stóðu yfir fram til 2004. Á þeim tíma voru grafnar upp leifar tveggja timburkirna og 76 grafir umhverfis þær. Er eldri kirkjan talin hafa verið byggð seint á 10. öld en sú yngri, er talin byggð einhvern tíma fyrir 1300 og var að öllum líkindum um stafkirkju að ræða, hugsanlega að norskri fyrirmynd. Eftir 2004 lágu rannsóknir niðri um árabil en hófust svo aftur árið 2010 og er markmiðið að grafa kirkjugarðinn upp í heild sinni. Árið 2010 fundust 34 grafir til viðbótar og 2011 bættust við 7 grafir. Hafa nú alls verið grafnar upp 117 grafir í kirkjugarðinum síðan 1999. Flestar grafanna innihéldu fullorðna einstaklinga voru austan við eldri kirkjuna. Voru grafirnar í skipulögðum röðum og var almennareglan sú að konur virðast hafa verið grafnar norðanvert garðinum og karlmenn sunnanvert. Börnin, sem flest voru hvítvoðungar, virtust flest (alls 41) hafa verið grafin sunnan við kirkjuna og var þétt grafið og mikið um að grafir skæru hver aðra.
Samhliða uppgreftri á kirkjugarðinum hafa farið fram ýmsar rannsóknir á beinagrindunum sem fundist hafa, meðal annars á ýmsum sjúkdómum sem greinanlegir eru á beinunum. Þó að mannabeinasafn Þjóðminjasafns Íslands sé stórt, er það mjög dreift í tíma, og eru aðeins tólf kirkjugarðar þar sem grafnar hafa verið upp fleiri en tíu beinagrindur. Nú á dögum eru flestar beinafræðilegar rannsóknir byggðar á tölfræðilegri greiningu, og því er mikilvægt að hafa sem flestar beinagrindur frá hverjum stað til að niðurstöður rannsókna verði tölfræðilega marktækar. Því mun það hafa mikið gildi fyrir mannabeinarannsóknir á Íslandi að heildstæður uppgröftur á kirkjugarði eins og á Hofstöðum, hafi farið fram.
Uppgreftri innan kirkjugarðsins á því svæði sem þegar hefur verið opnað, lauk að mestu árið 2011. Í ár er ætlunin að ljúka við að afhjúpa kirkjugarðsvegginn sem kom í ljós 2010 og leggja jafnframt áherslu á svæðið utan garðsins til að kanna hvort þar er að finna mannvirki tengd notkun hans og ekki síst hvort þar er að finna grafir þeirra sem ekki hafa átt lægt innan garðs, í helgri jörð, af einhverjum orsökum. Má geta þess hér að þegar hafa fundist tvær barnsgrafir utan við garðinn og er unnið að greftri á þeim þegar þetta er ritað. Á næstu árum er svo ætlunin að stækka uppgraftarsvæðið enn frekar í þeim tilgangi að afhjúpa kirkjugarðinn að fullu.