Framvinduskýrslur komnar á vefinn

Framvinduskýrslur um verkefni Hins þingeyska fornleifafélags árin 2007, 2008, 2009 og 2010 eru komnar á vefinn og kennir þar margra grasa.  Fræðast má um rannsóknir á bátskumlinu og kumlateignum á Litlu Núpum, um rannsóknir á Ingiríðarstöðum og Einarsstöðum í Þegjandadal, kumlateig á Lyngbrekku, rannsóknir í Narfastaðaseli og Þórutóftum, um gerð minjakorts af Seljadal og mælingar í Skuldaþingsey í Skjálfandafljóti.

Skýrslurnar er að finna undir Framvinduskýrslur og verkefnaskrár og einnig með því að smella á tenglana hér að neðan.

Framvinduskýrsla HÞF 2007

Framvinduskýrsla HÞF 2008

Framvinduskýrsla HÞF 2009

Framvinduskýrsla HÞF 2010

Skýrslurnar eru allar á pdf formi og 3-4 mb. að stærð og því getur tekið nokkra stund að sækja skyrsluna.

Miðaldir á miðvikudegi

Miðvikudaginn 21. júlí býður Hið þingeyska fornleifafélag og Fornleifastofnun Íslands gestum og gangandi að heimsækja fornleifafræðinga að störfum á Ingiríðarstöðum í Þegjandadal í Aðaldal.  Mæting er á bílastæðinu við Grenjaðarstað kl. 13.00 þar sem safnast verður í bíla og ekið inn eftir Þegjandadal að austanverðu þar til komið er á móts við Ingiríðarstaði.  þaðan er gengið þvert yfir dalinn í vestur og tekur gangan a.m.k. hálfa klukkustund og farið er yfir votlendi svo betra er að era vel skóaður.  Á Ingiríðarstöðum munu fornleifafræðingar Fornleifastofnunar Íslands fræða gesti um uppgröft sumarsins en margt skrýtið og skemmtilegt  hefur komið í ljós á kumlateignum á Ingiríðarstöðum. Aætluð tímalengd ferðar er 4. klst.  Fararstjóri er Sif Jóhannesdóttir.  Uing.

Fornir fimmtudagar á Hofsstöðum

Horft yfir kirkjugarðinn á Hofsstöðum. Mynd Hildur Gestsdóttir

Fimmtudagskvöldið 15. júlí kl. 20.30 býður Hið þingeyska fornleifafélag og Fornleifastofnun íslands gestum og gangandi að heimsækja fornleifafræðinga að störfum á Hofsstöðum í Mývatnssveit.  Hildur Gestsdóttir mannabeinasérfræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands og hennar fólk hefur unnið að rannsóknum í sunnanverðum gamla kirkjugarðinn á Hofsstöðum undanfarnar vikur en í þeim hluta eru grafir mun þéttari en í öðrum hluta garðsins.  Búið er að grafa upp 14 grafir og eru 12 þeirra grafir barna og í flestum tilvikum nýbura og allar eru grafirnar frá því fyrir þrettánhundruð.  Gamall kirkjugarður sem þessi geymir mikla og margvíslega sögu sem lesa má úr beinunum auk þess sem ímynda sér má sitthvað um gleði þeirra og sorgir sem bjuggu í væntanlega köldum og dimmum húsakosti miðalda á Hofsstöðum.  Gleði yfir barnsfæðingum og sorg þegar nýburum, sem og öðrum sem í garðinum hvíla, var fylgt til grafar í litlum garði.

 

Einnig er verið að grafa í gegnum ruslalög frá bæjarhólnum, mestmegnis 18-20 aldar rusl sem var að finna í tveggja metra djúpri gryfju á svæðinu en nú eru fornleifafræðingar komnir niður að gjóskunni 1477 og farið er að móta fyrir kirkjugarðsveggnum þó veggurinn sjálfur sé ekki orðinn sýnilegur.

 

Mæting er á bílastæði heima við Hofsstaði næstkomandi fimmtudagskvöld kl. 20.30 og allir áhugasamir eru boðnir velkomnir.

 

Hið þingeyska fornleifafélag og Fornleifastofnun Íslands.

UIng.

Margt er skrítið á Skútustöðum.

Þóra Pétursdóttir ásamt gestum. Mynd: Unnsteinn Ingason.

Tuttugu og tveir gestir nutu leiðsagnar Þóru Pétursdóttur og Dr. Thomas McGovern um uppgraftrarsvæðið á Skútustöðum á nýliðnu fimmtudagssíðdegi. Þrátt fyrir napra norðangolu áttu gestir góða og fróðlega stund í bakgarðinum hjá Gerði á Skútustöðum III og ekki spillti fyrir sjóðandi kaffibolli sem Gerður færði gestum út í garðinn í lok heimsóknar.

Fingurbjörg. Mynd. T.McGovern

Eins og áður hefur fram komið hér á síðunni er afar gjöfull ruslahaugur á Skútustöðum III sem spannar allt frá landnámi fram á tuttugustu öldina og gríðarlegt magn beina hefur komið í ljós ásamt nokkrum skemmtilegum gripum. þar má m.a. nefna ofurlítinn tappa sem nú er ljóst að er úr rostungstönn og mikið magn af brotnum krítarpípum, hnífur, fingurbjörg og fl. Á einu pípubrotinu var merki framleiðandans og eftir uppflettingu í miklum doðröntum um krítarpípuframleiðendur fyrr á öldum kom í ljós að framleiðandi þessarar krítarpípu sem reykt var úr á Skútustöðum á sautjándu öld, var

Hnífur frá miðöldum. Mynd. T.McGovern

William Sterridge í London sem framleiddi krítarpípur á árabilinu

Krítarpípuhaus framleiddur af William Sterridge í London. Mynd. T.Mcgovern

1610-1640. Einnig má nefna sautjándualdar postulínsbrot og lítinn silfur „pening“ með skrítinni ígrafinni mynd sem margar kenningar eru uppi um hvað eigi að tákna.

 

 

Hið þingeyska fornleifafélag og Fornleifastofnun Íslands þakkar gestum komuna og Þóru og Tom skemmtilega og fræðandi leiðsögn.   UIng.

Fornir fimmtudagar á Skútustöðum

Hið þingeyska fornleifafélag og Fornleifastofnun Íslands standa að gönguferðadagskrá um minjasvæði í Suður-Þingeyjarsýslu. Heimsóttir verða staðir þar sem rannsóknir eru í gangi og fornleifafræðingar taka á móti gestum.

 

Næsta heimsókn er á uppgraftrarsvæðið á Skútustöðum III í Mývatnssveit, Fimmtudaginn 8. júlí kl. 16:30 (ca 1. klst.)  Uppgraftrarsvæðið er mjög afmarkað og aðeins þarf að ganga nokkra tugi metra frá bílastæði.

 

Á Skútustöðum III hefur á síðustu árum verið unnið að rannsókn á umfangsmiklum öskuhaug. Þar hafa fundist vísbendingar um byggð allt frá landnámsöld og fram á okkar daga en í öskuhaugum leynast miklar vísbendingar um líf fólks fyrr á öldum sem varpað geta ljósi á lífsviðurværi fólks og efnahag.   Þóra Pétursdóttir, Dr. Thomas McGovern og félagar munu gægjast með gestum árhundruð aftur í tímann og gefa þeim innsýn í störf fornleifafræðinga með áherslu á beina-fornleifafræði (Zoo archaeology).  UIng.

Óflokkað rusl frá árinu eittþúsund

Etel og Frank skafa ofan af gjóskulagi. Mynd Megan Hicks.
Flöskutappi í mannsmynd. Líklega úr fílabeini og gæti hafa verið í ilmvatnsglasi. Mynd Thomas McGovern
Amanda, Frank og Tom við uppgröft á Skútustöðum. Mynd Megan Hicks.

Þeir flokkuðu ekki ruslið í endurvinnslu á Skútustöðum árið eittþúsund.  Sem betur fer, má alveg segja því um margt má af ruslinu fræðast.

Uppgröftur á Skútustöðum gengur vel og opnuð hafa verið tvö svæði sem segja má að séu í bakgarðinum hjá Gerði Benediktsdóttur á Skútustöðum III.  Uppgröftur hófst þar sumarið 2008 en  fundist hefur ríkulegur öskuhaugur á bæjarhólnum, sem spannar tímabilið frá 18. öld og allt aftur til víkingaaldar. Nú þegar hefur  uppgröfturinn leitt ýmislegt forvitnilegt í ljós.

Á uppgraftarsvæði „E“, sem liggur vestan og sunnan íbúðarhússins að Skútustöðum III,var torf fjarlægt sem og yfirborðsjarðvegur, allt niður að gjóskulagi frá 1717 (Veiðivötn).  Þá var mokstri haldið áfram og jarðvegi flett ofanaf þykku gjóskulagi frá 1477 (einnig úr Veiðivötnum)..  Lítið var um beinaleifar eða annað markvert á milli þessara gjóskulaga og fyrir vikið er talið öskuhaugur bæjarins hafi verið á öðrum stað á þessu tímabili. Öðru máli gegnir um jarðlög undir 1477, og þegar komið er niður á gjósku úr Heklu frá 1300 eru jarðlögin orðin stútfull af beinum og stöku gripum. Þannig virðast þau svo haldast allt niður að Landnámssyrpunni, gjóskulagasyrpu sem dregur nafn af því að hún fellur á sama tíma og landið er numið.  Til þess að tryggja að ekkert fari framhjá mönnum er allur jarðvegur sigtaður og hver einasta beinflís þannig endurheimt. Á uppgraftarsvæði“ H“, sem er syðst á hólnum, hófst uppgröftur síðasta sumar og er nú haldið áfram þar sem frá var horfið. Þar eru fornleifafræðingar staddir í öskuhaug sem er umtalsvert nær okkur í tíma.  Hann er afar ríkur af beinum og kann því að skýra hve lítið fannst af beinum og öðrum úrgangi frá síðari öldum á fyrri staðnum.  Þegar þetta er skrifað eru fornleifafræðingar að grafa sig niður í gegnum sautjándu öldina. Mikið hefur komið upp af beinum af ýmsu tagi, og auk þess nokkuð af gripum. Krítar-reykjarpípur eru algengar en þær geta gefið ágæta tímasetningu þar sem vitað er að notkun tóbaks og krítarpípa hófst á Íslandi á sautjándu öld.  Aðrir munir sem fundist hafa eru t.d. koparbrot, gler, brot úr leirílátum ýmiskonar, járnnaglar í miklu magni, fingurbjörg og fallegur beinteningur.

Einhverjir hljóta að velta vöngum yfir því að hópur innlendra og erlendra vísindamanna eyði miklum tíma og fé  í að grafa upp gamla ruslahauga í stað þess að grafa upp kuml eins og á Litlu-Núpum,  fornar kirkjugrafir líkt og á Hofstöðum eða fornar skálarústir.  Góðir  öskuhaugar eru hins vegar ekki síður athygli verðir og eru m.a. gullsígildi fyrir dýrabeina-fornleifafræðinga (Zoo archaeology) því í þeim er að finna mikið magn af dýrabeinum, enda fór allur úrgangur bæjarins á hauginn.  Bæjaröskuhaugur líkt og sá á Skútustöðum  ber því vitni um daglegt líf fólks, efnahag og lífsafkomu.  Þar sem haugurinn spannar svo langt tímabil getur hann auk þess veit mikilvægar upplýsingar um breytingar á þessum þáttum frá landnámi til nútíma. Næstu þrjár vikurnar verður uppgrefti haldið áfram, og skref fyrir skref munu fornleifafræðingar færa sig nær því  yfirborðslandslagi sem fyrir var þegar fyrstu landnemar stigu fæti á Skútustöðum. Vonast er til þess að beina- og gripasafnið haldi áfram að stækka eftir því sem neðar dregur og haldi þannig áfram að varpa skýrara ljósi á líf og störf Skútustaðabænda á miðöldum og víkingaöld.  Þóra, Tom, Megan, Frank,Aaron, Seth,  og Amanda og félagar bjóða fólk velkomið á uppgraftrarsvæðið á Skútustöðum hvenær sem  er og benda má á bloggsíðu  Aarons Kendall þar sem fylgjast má með framvindu mála á rannsóknarstað; http://turfwalls.commons.gc.cuny.edu/

Á fimmtudaginn næsta, 8. júlí, býður Hið þingeyska fornleifafélag, Fornleifastofnun Íslands og City University  of New York (CUNY) gestum og gangandi að líta við á uppgraftrarsvæðinu kl. 16.30 þar sem Þóra Pétursdóttir og Dr. Thomas McGovern og fleiri munu taka á móti gestum og fræða um fornleifarannsóknir á Skútustöðum og víðar í Mývatnssveit.  Nánar auglýst síðar.  UIng/ÞPét/MHic

Mannstönn, hrossbein, þvottaklemmur og rakbursti

Svalt var og blautt á Litlu-Núpum síðastliðið fimmtudagssíðdegi þegar hópur gesta heimsótti fornleifafræðinga við rannsóknir á Litlu Núpum í Aðaldal. Howell Magnús Roberts og Adolf Friðriksson frá Fornleifastofnun Íslands fræddu gesti um kumlateiginn á Litlu Núpum og fengu gestir að skyggnast ofan í opið kuml þar sem verið var að taka upp nokkur hrossbein. Áhöldin vöktu nokkra athygli en þarna voru fornleifafræðingar vopnaðir þvottaklemmu og rakbursta sem nýttust vel við að ná mjúkum og viðkvæmum þúsund ára gömlum beinum úr blautri moldinni. Eins og áður hefur komið fram voru einu líkamsleifarnar sem fundust í kumlinu ein tönn og því vakna spurningar um hvað hafi orðið um kumlbúann. Vel má ætla að hann hafi verið fluttur úr sínum fyrsta legustað yfir í bátinn og heygður þar að nýju ásamt öðrum látnum einstaklingi úr öðru kumli sem grafið var upp 2008 og reyndist tómt. Í bátskumlinu fundust beinaleifar úr tveimur einstaklingum þó beinin hafi verið illa varðveitt og umhverfis annað þessara tómu kumla reyndust vera stoðarholur sem benda til þess að byggt hafi verið yfir kumlið með einhverjum hætti þar sem stoðir hafa haldið uppi einhverskonar þaki. Hugsanlega hefur þeim einstaklingi verið ætluð veglegri útför og því lagður í einskonar bráðabirgðahvílu og tjaldað yfir meðan báturinn var borinn upp á holtið og honum komið fyrir og annar einstaklingur grafinn upp og lagður í bátskumlið ásamt hinum. Hver veit? Hver veit?

Að lokinni kumlaskoðun var gengið að beitarhúsunum þar sem enn standa reisulegir veggir og þaðan var gengið niður að mögulegum bæjarhól en miklar rústir eru á Litlu Núpum, garðar, gerði og tóftir og ekki er gott að segja hvar Litlu Núpa bærinn hefur staðið fyrr en tekist hefur að finna t.d. öskuhaug en að honum er m.a. leitað með töku borkjarna með skipulögðum hætti.  Grípum nú niður í uppgraftrarskýrslu frá Litlu Núpum árið 2007:

„Rannsókn á einni dokkinni leiddi í ljós óvæntan fund. Í fyrstu leit út fyrir að um rask væri að ræða sem gæti ekki verið leifar af kumli, þar sem niðurgröfturinn virtist mun stærri en venjuleg mannsgröf og lögunin ósvipuð því sem vænta mætti. Við nánari athugun kom í ljós að vissulega væru þetta leifar kumls, en að sá heygði hafi verið jarðsettur í bát. Viður bátsins var nær allur horfinn, en við fundum raðir af mörgum rónöglum, og sjálf gryfjan var bátlaga. Báturinn hefur verið u.þ.b. 7 m langur, 1,8 m breiður og um 0,6 m djúpur. Hann sneri því sem næst N-S. Það fundust 223 járnbrot, sem flest eru rónaglar. Á því svæði sem heillegast var, mátti sjá að naglarnir lágu á um 17-19 cm bili frá kili að brún, en á 10-12 cm bili frá stefni að skut. Heillegu naglarnir eru með um 25 mm langan legg, og því hafa borðin verið um 12 mm þykk. Hjalti Hafþórsson frá Akranesi, sem smíðað hefur bát eftir upplýsingum úr Vatnsdalskumlinu í Patreksfirði, skoðaði þennan fund á vettvangi. Taldi hann líklegt að Litlunúpabáturinn hafi verið sexæringur, úr þunnum og mjóum borðum, og léttur, eða mögulega um 100-120 kg.

Kumlið hafði verið rænt í fornöld. Í því fundust leifar a.m.k. tveggja einstaklinga, en beinin eru í lélegu ásigkomulagi. Gröfin var mjög röskuð en svo virðist sem fólkið hafi verið lagt hlið við hlið, með höfuð í norðurenda. Sjálfsagt hefur haugfé verið látið í gröfina en tekið við grafarránið. Þó fundust tveir góðir gripir: sörvistala, líklega úr leirsteini eða tálgukoli, um 25 mm í þvermál og lítil bjalla, sexstrend og úr bronsi. Á hliðum bjöllunnar er skraut, hringir með depil í miðju. Báðir þessir gripir eru sjaldgæfir fundir.“ Heimild: Samantekt Fornleifastofnunar Íslands um vettvangsrannsóknir fyrir Hið Þingeyska fornleifafélag árið 2007, FS 361.

Vel má vera að fleiri kuml leynist á Litlu Núpum og segja má að með hverri spurningu sem svarað er spretti fram tíu nýjar spurningar um mannlífið, lífshætti og ábúendurna á Litlu-Núpum á árunum 870 til 1000 og öldunum þar á eftir. UIng.

Tölvugerð mynd af botni bátskumlsins.
Rakbursti hefði efalaust þótt mikið þarfaþing árið þúsund og til margra hluta nytsamlegur, líkt og í dag.
Ekki er hægt að hrópa húrra yfir vinnuaðstöðunni við að beita hálfri þvottaklemmu
Howell og hluti hópsins og mannlaust kumlið í forgrunni.

Fornir fimmtudagar – Aftur um þúsund ár á Litlu Núpum

Litlu Núpar í rauðum hring. Afleggjari að L N í grænum hring. © LMI.

Fimmtudaginn 1. júlí á „fornum fimmtudegi“ bjóða Hið þingeyska fornleifafélag og Fornleifastofnun Íslands, gestum í heimsókn á Litlu Núpa í Aðaldal til að kynnast þeim rannsóknum sem þar fara fram og hafa farið fram á vegum HÞF undanfarin ár. Howell Magnús Roberts fornleifafræðingur hjá

Kumlateigurinn í rauðum hring og fjölmargt fleira má sjá á myndinni. Loftmynd: Árni Einarsson

Fornleifastofnun Íslands tekur á móti gestum ásamt félögum sínum og leiðir fólk um uppgraftrarsvæðið ásamt því að gengið verður um gamla bæjarhólinn á Litlu Núpum. Rannsóknir hafa verið stundaðar á Litlu Núpum undanfarin ár og m.a. fannst þar bátskuml árið 2007, hið fyrsta í rétt um hálfa öld og tvær manneskjur virðast hafa verið heygðar í bátnum þótt afar lítið hafi varðveist af beinum þeirra.

Á þriðja hundrað rónagla fundust í kumlinu

Umhverfis önnur kuml fundust stoðarholur sem ekki hafa fundist áður við kuml hérlendis og benda til að með einhverjum hætti hafi á einhverjum tímapunkti verið tjaldað yfir kumlin eða þau hulin með hjálp stoða þótt ekki sé ljóst hver tilgangurinn með slíku kynni að hafa verið. Þessa dagana er verið að grafa upp eitt kuml til viðbótar en í því reyndist fyrst og fremst vera hrossbein en ein tönn úr manneskju leyndist í moldinni. Ekki er að sjá að kumlið hafi verið rænt og því vakna hugmyndir um hvort fyrrum kumlbúi

Bátskumlið á Litlu Núpum 2007 Mynd Howell Roberts

kunni að hafa verið sá sem heygður var í bátnum en beinin ekki flutt fyrr en það löngu eftir lát kumlbúans að ofurlitlar líkamsleifar, þ.e. tönnin, hafi orðið eftir í upphaflegu kumli hans, hver veit? hver veit? Upphafsstaður ferðar er við hliðið á vegarslóðanum að Litlu Núpum sem er á bakka Mýrarkvíslar að vestanverðu og þar verður safnast í bíla kl. 16.30 og ekið áleiðis að Kumlateignum. Gangan að kumlateignum er nokkur hundruð metrar niður í móti og fremur auðveld þó landið sé þýft en gangan að bæjarhólnum er talsvert lengri. Allt áhugafólk er hjartanlega velkomið og nánari upplýsingar gefa Unnsteinn Ingason í síma 894 4594 og Sif Jóhannesdóttir í síma 848 3586.

Falleg bronsnæla fanns á Litlu Núpum 2008

Hnitsetning örnefna hafin – Fornleifaskóli barnanna

Þriðjudaginn 25 maí hélt vaskur hópur nemenda í 6 og 7 bekk Litlulaugaskóla af stað til að hefja formlega hnitsetningu örnefna á vegum Fornleifaskóla barnanna og hafist var handa í landi Hóla og Lauta sem er í nágrenni skólans. Fyrr um morguninn fengu börnin fræðslu um GPS staðsetningakerfið og notkun á GPS handtækjum auk þess sem farið var yfir skráningarformið sem notað er við hnitsetninguna. Leiðsögumaður í þessari fyrstu ferð var Sverrir Haraldsson í Hólum auk þess sem Pétur Ingólfsson, Sif Jóhannesdóttir og Unnsteinn Ingason gengu með hópnum og leiðbeindu við notkun tækja og eyðublaða. Hópurinn hitti Sverri á göngubrúnni yfir Reykjadalsá og þar var Reykjadalsáin að sjálfsögðu hnitsett og er á: 65° 43.282 norður og 17° 21.705 vestur. Frá brúnni var haldið í norður vestan ár á Bæjareyri, yfir á Myllueyri og áfram á Krókeyri. Þaðan var gengið á Barð og í Stekkjarlaut en þaðan lá leiðin í aðra laut sem ber nafnið: Lautin austan við Stekkjarlaut og áfram var haldið yfir á Austureyri og fram hjá Réttarhúsvaði. Þaðan lá leiðin í Austurhóla, að Stórulaugapolli, á Vestureyri og í Krók og verkefninu lauk með því að Pétur hljóp fyrir hönd hópsins upp á Langahrygg þar sem síðasta hnitið var tekið enda göngufólki tekið að kólna. Af Langahrygg var haldið rakleiðis upp í Litlulaugaskóla þar sem hnitin í GPS tækjunum voru færð yfir í tölvu og afraksturinn af þessari gönguferð má sjá á meðfylgjandi mynd. Nemendur stóðu sig afar vel og unnu verkefnið af samviskusemi og áhuga og Sverrir var ótæmandi brunnur af ýmsum fróðleik og kunnum við honum bestu þakkir fyrir fróðlega og skemmtilega leiðsögn. Eins og sést vel á kortamyndinni sem fylgir þessari frétt og er byggð á íslandskortum í GPS tækjunum, er ýmislegt ekki á réttum stað á kortinu s.s. Litlulaugaskóli þar sem ferðin endaði en þar segir að sé Heilsugæslustöð og sama gildir um flest önnur mannvirki á Laugatorfunni. Einn af samstarfsaðilum Fornleifaskóla barnanna við hnitsetningu örnefna er einmitt verkfræðistofan Samsýn og Garmin Ísland en þeir aðilar gefa út Íslandskort í GPS tæki og þegar fram líða stundir munu hnit úr örnefnaverkefni Fornleifaskóla barnanna leiða til þess að íslandskort í GPS handtækjum landsmanna verða réttari og áreiðanlegri og vonandi fróðlegri og skemmtilegri á þeim landsvæðum sem Fornleifaskólinn lætur til sín taka við hnitsetningu örnefna. Uing.

Gönguleið hópsins og hnitsett örnefni í gönguferðinni.
Hópurinn í Stekkjarlaut.

Hofstaðarannsóknir og minjaskráning á Seljadal

Gömlu beitarhús í landi Breiðumýrar
Myndarlegar kolagrafir í Mýraröxlinni
Mögulegur stekkur skammt frá Seljadalsá
Gamli kirkjugarðurinn á Hofstöðum. Mynd Hildur Gestsdóttir

Nú eru rannsóknir hafnar að nýju í kirkjugarðinum á Hofstöðum í Mývatnssveit en þar hefur ekki verið grafið síðan 2004. Hildur Gestsdóttir hjá Fornleifastofnun Íslands stjórnar uppgreftrinum og ásamt henni vinna þau Stefán Ólafsson og Oddgeir Isaksen frá Fornleifastofnun, Marianne Robson frá háskólanum í Bradford og Celine Dupont-Hébert frá háskólanum í Laval í Quebec að rannsóknunum. Nú hefur verið opnað 310 fermetra svæði norðan og austan við gamla uppgraftrarsvæðið auk þess sem hluti af „gamla“ uppgraftrarsvæðinu hefur verið opnað að nýju þar sem ekki tókst að ljúka þar rannsóknum 2004. Vonast er til að kirkjugarðsveggur sem sást á jarðsjármælingum frá 1999 finnist og einnig er verið að grafa upp öskuhaug frá gamla bæjarstæðinu á Hofstöðum. Jafnframt er verið að grafa upp fjórar fornar grafir og stefnt er að því að klára það verkefni í sumar. Öskuhaugur gamla Hofstaðabæjarins mun án efa gefa margvíslegar upplýsingar um líf og lífsviðurværi Hofstaðbænda líkt og ruslahaugurinn við hinn forna Hofstaðabæ (skálann mikla) hefur nú þegar gefið. Rannsóknir á mannabeinum gefa ekki síður mikilvægar upplýsingar um líf og hagi fólks og af þeim má m.a. ráða margvíslegar upplýsingar um heilsufar, aldur, mataræði og annað slíkt. Rannsóknirnar á Hofstöðum eru styrktar af Fornleifasjóði og CUNY (City University of New York). Skráning minja á Seljadal. Ljómandi vel gengur að skrá minjar á Seljadal og stefnt er að því að ljúka skráningunni í ár en hún hófst sumarið 2007 á vegum Hins þingeyska fornleifafélags og er framkvæmd af Fornleifastofnun Íslands. Fornleifafræðingarnir Birna Lárusdóttir og Elín Ósk Hreiðarsdóttir annast skráninguna og vinna nú á nyrsta hluta dalsins en göngu- og kynningarverkefni Hins þingeyska fornleifafélags og Fornleifastofnunar Íslands, „Fornir fimmtudagar“ hófst einmitt með heimsókn til Birnu og Elínar í tóftirnar í Láfsgerði sem eru á norðurmörkum dalsins. Markmið skráningarinnar er að afla upplýsinga um upphaf og eðli byggðar á Seljadal og nýtingu hans og jafnframt að leggja drög og þróa leiðir til að kynna dalinn og minjar hans fyrir heimamönnum sem og ferðafólki í framtíðinni. Margt nýtt skemmtilegt hefur komið í ljós við skráninguna og má þar nefna mögulega skálarúst, skammt frá Brenniseli, andspænis Kvígindisdal en dalurinn er ríkur af fornlegum minjum sem mörgum hverjum hefur ekki verið raskað svo neinu nemi auk margvíslegra minja um yngri mannanna verk s.s. byggð á 19 og 20 öld. UIng.