Þeir flokkuðu ekki ruslið í endurvinnslu á Skútustöðum árið eittþúsund. Sem betur fer, má alveg segja því um margt má af ruslinu fræðast.
Uppgröftur á Skútustöðum gengur vel og opnuð hafa verið tvö svæði sem segja má að séu í bakgarðinum hjá Gerði Benediktsdóttur á Skútustöðum III. Uppgröftur hófst þar sumarið 2008 en fundist hefur ríkulegur öskuhaugur á bæjarhólnum, sem spannar tímabilið frá 18. öld og allt aftur til víkingaaldar. Nú þegar hefur uppgröfturinn leitt ýmislegt forvitnilegt í ljós.
Á uppgraftarsvæði „E“, sem liggur vestan og sunnan íbúðarhússins að Skútustöðum III,var torf fjarlægt sem og yfirborðsjarðvegur, allt niður að gjóskulagi frá 1717 (Veiðivötn). Þá var mokstri haldið áfram og jarðvegi flett ofanaf þykku gjóskulagi frá 1477 (einnig úr Veiðivötnum).. Lítið var um beinaleifar eða annað markvert á milli þessara gjóskulaga og fyrir vikið er talið öskuhaugur bæjarins hafi verið á öðrum stað á þessu tímabili. Öðru máli gegnir um jarðlög undir 1477, og þegar komið er niður á gjósku úr Heklu frá 1300 eru jarðlögin orðin stútfull af beinum og stöku gripum. Þannig virðast þau svo haldast allt niður að Landnámssyrpunni, gjóskulagasyrpu sem dregur nafn af því að hún fellur á sama tíma og landið er numið. Til þess að tryggja að ekkert fari framhjá mönnum er allur jarðvegur sigtaður og hver einasta beinflís þannig endurheimt. Á uppgraftarsvæði“ H“, sem er syðst á hólnum, hófst uppgröftur síðasta sumar og er nú haldið áfram þar sem frá var horfið. Þar eru fornleifafræðingar staddir í öskuhaug sem er umtalsvert nær okkur í tíma. Hann er afar ríkur af beinum og kann því að skýra hve lítið fannst af beinum og öðrum úrgangi frá síðari öldum á fyrri staðnum. Þegar þetta er skrifað eru fornleifafræðingar að grafa sig niður í gegnum sautjándu öldina. Mikið hefur komið upp af beinum af ýmsu tagi, og auk þess nokkuð af gripum. Krítar-reykjarpípur eru algengar en þær geta gefið ágæta tímasetningu þar sem vitað er að notkun tóbaks og krítarpípa hófst á Íslandi á sautjándu öld. Aðrir munir sem fundist hafa eru t.d. koparbrot, gler, brot úr leirílátum ýmiskonar, járnnaglar í miklu magni, fingurbjörg og fallegur beinteningur.
Einhverjir hljóta að velta vöngum yfir því að hópur innlendra og erlendra vísindamanna eyði miklum tíma og fé í að grafa upp gamla ruslahauga í stað þess að grafa upp kuml eins og á Litlu-Núpum, fornar kirkjugrafir líkt og á Hofstöðum eða fornar skálarústir. Góðir öskuhaugar eru hins vegar ekki síður athygli verðir og eru m.a. gullsígildi fyrir dýrabeina-fornleifafræðinga (Zoo archaeology) því í þeim er að finna mikið magn af dýrabeinum, enda fór allur úrgangur bæjarins á hauginn. Bæjaröskuhaugur líkt og sá á Skútustöðum ber því vitni um daglegt líf fólks, efnahag og lífsafkomu. Þar sem haugurinn spannar svo langt tímabil getur hann auk þess veit mikilvægar upplýsingar um breytingar á þessum þáttum frá landnámi til nútíma. Næstu þrjár vikurnar verður uppgrefti haldið áfram, og skref fyrir skref munu fornleifafræðingar færa sig nær því yfirborðslandslagi sem fyrir var þegar fyrstu landnemar stigu fæti á Skútustöðum. Vonast er til þess að beina- og gripasafnið haldi áfram að stækka eftir því sem neðar dregur og haldi þannig áfram að varpa skýrara ljósi á líf og störf Skútustaðabænda á miðöldum og víkingaöld. Þóra, Tom, Megan, Frank,Aaron, Seth, og Amanda og félagar bjóða fólk velkomið á uppgraftrarsvæðið á Skútustöðum hvenær sem er og benda má á bloggsíðu Aarons Kendall þar sem fylgjast má með framvindu mála á rannsóknarstað; http://turfwalls.commons.gc.cuny.edu/
Á fimmtudaginn næsta, 8. júlí, býður Hið þingeyska fornleifafélag, Fornleifastofnun Íslands og City University of New York (CUNY) gestum og gangandi að líta við á uppgraftrarsvæðinu kl. 16.30 þar sem Þóra Pétursdóttir og Dr. Thomas McGovern og fleiri munu taka á móti gestum og fræða um fornleifarannsóknir á Skútustöðum og víðar í Mývatnssveit. Nánar auglýst síðar. UIng/ÞPét/MHic