Mannstönn, hrossbein, þvottaklemmur og rakbursti

Svalt var og blautt á Litlu-Núpum síðastliðið fimmtudagssíðdegi þegar hópur gesta heimsótti fornleifafræðinga við rannsóknir á Litlu Núpum í Aðaldal. Howell Magnús Roberts og Adolf Friðriksson frá Fornleifastofnun Íslands fræddu gesti um kumlateiginn á Litlu Núpum og fengu gestir að skyggnast ofan í opið kuml þar sem verið var að taka upp nokkur hrossbein. Áhöldin vöktu nokkra athygli en þarna voru fornleifafræðingar vopnaðir þvottaklemmu og rakbursta sem nýttust vel við að ná mjúkum og viðkvæmum þúsund ára gömlum beinum úr blautri moldinni. Eins og áður hefur komið fram voru einu líkamsleifarnar sem fundust í kumlinu ein tönn og því vakna spurningar um hvað hafi orðið um kumlbúann. Vel má ætla að hann hafi verið fluttur úr sínum fyrsta legustað yfir í bátinn og heygður þar að nýju ásamt öðrum látnum einstaklingi úr öðru kumli sem grafið var upp 2008 og reyndist tómt. Í bátskumlinu fundust beinaleifar úr tveimur einstaklingum þó beinin hafi verið illa varðveitt og umhverfis annað þessara tómu kumla reyndust vera stoðarholur sem benda til þess að byggt hafi verið yfir kumlið með einhverjum hætti þar sem stoðir hafa haldið uppi einhverskonar þaki. Hugsanlega hefur þeim einstaklingi verið ætluð veglegri útför og því lagður í einskonar bráðabirgðahvílu og tjaldað yfir meðan báturinn var borinn upp á holtið og honum komið fyrir og annar einstaklingur grafinn upp og lagður í bátskumlið ásamt hinum. Hver veit? Hver veit?

Að lokinni kumlaskoðun var gengið að beitarhúsunum þar sem enn standa reisulegir veggir og þaðan var gengið niður að mögulegum bæjarhól en miklar rústir eru á Litlu Núpum, garðar, gerði og tóftir og ekki er gott að segja hvar Litlu Núpa bærinn hefur staðið fyrr en tekist hefur að finna t.d. öskuhaug en að honum er m.a. leitað með töku borkjarna með skipulögðum hætti.  Grípum nú niður í uppgraftrarskýrslu frá Litlu Núpum árið 2007:

„Rannsókn á einni dokkinni leiddi í ljós óvæntan fund. Í fyrstu leit út fyrir að um rask væri að ræða sem gæti ekki verið leifar af kumli, þar sem niðurgröfturinn virtist mun stærri en venjuleg mannsgröf og lögunin ósvipuð því sem vænta mætti. Við nánari athugun kom í ljós að vissulega væru þetta leifar kumls, en að sá heygði hafi verið jarðsettur í bát. Viður bátsins var nær allur horfinn, en við fundum raðir af mörgum rónöglum, og sjálf gryfjan var bátlaga. Báturinn hefur verið u.þ.b. 7 m langur, 1,8 m breiður og um 0,6 m djúpur. Hann sneri því sem næst N-S. Það fundust 223 járnbrot, sem flest eru rónaglar. Á því svæði sem heillegast var, mátti sjá að naglarnir lágu á um 17-19 cm bili frá kili að brún, en á 10-12 cm bili frá stefni að skut. Heillegu naglarnir eru með um 25 mm langan legg, og því hafa borðin verið um 12 mm þykk. Hjalti Hafþórsson frá Akranesi, sem smíðað hefur bát eftir upplýsingum úr Vatnsdalskumlinu í Patreksfirði, skoðaði þennan fund á vettvangi. Taldi hann líklegt að Litlunúpabáturinn hafi verið sexæringur, úr þunnum og mjóum borðum, og léttur, eða mögulega um 100-120 kg.

Kumlið hafði verið rænt í fornöld. Í því fundust leifar a.m.k. tveggja einstaklinga, en beinin eru í lélegu ásigkomulagi. Gröfin var mjög röskuð en svo virðist sem fólkið hafi verið lagt hlið við hlið, með höfuð í norðurenda. Sjálfsagt hefur haugfé verið látið í gröfina en tekið við grafarránið. Þó fundust tveir góðir gripir: sörvistala, líklega úr leirsteini eða tálgukoli, um 25 mm í þvermál og lítil bjalla, sexstrend og úr bronsi. Á hliðum bjöllunnar er skraut, hringir með depil í miðju. Báðir þessir gripir eru sjaldgæfir fundir.“ Heimild: Samantekt Fornleifastofnunar Íslands um vettvangsrannsóknir fyrir Hið Þingeyska fornleifafélag árið 2007, FS 361.

Vel má vera að fleiri kuml leynist á Litlu Núpum og segja má að með hverri spurningu sem svarað er spretti fram tíu nýjar spurningar um mannlífið, lífshætti og ábúendurna á Litlu-Núpum á árunum 870 til 1000 og öldunum þar á eftir. UIng.

Tölvugerð mynd af botni bátskumlsins.
Rakbursti hefði efalaust þótt mikið þarfaþing árið þúsund og til margra hluta nytsamlegur, líkt og í dag.
Ekki er hægt að hrópa húrra yfir vinnuaðstöðunni við að beita hálfri þvottaklemmu
Howell og hluti hópsins og mannlaust kumlið í forgrunni.