Fimmtudaginn 1. júlí á „fornum fimmtudegi“ bjóða Hið þingeyska fornleifafélag og Fornleifastofnun Íslands, gestum í heimsókn á Litlu Núpa í Aðaldal til að kynnast þeim rannsóknum sem þar fara fram og hafa farið fram á vegum HÞF undanfarin ár. Howell Magnús Roberts fornleifafræðingur hjá
Fornleifastofnun Íslands tekur á móti gestum ásamt félögum sínum og leiðir fólk um uppgraftrarsvæðið ásamt því að gengið verður um gamla bæjarhólinn á Litlu Núpum. Rannsóknir hafa verið stundaðar á Litlu Núpum undanfarin ár og m.a. fannst þar bátskuml árið 2007, hið fyrsta í rétt um hálfa öld og tvær manneskjur virðast hafa verið heygðar í bátnum þótt afar lítið hafi varðveist af beinum þeirra.
Umhverfis önnur kuml fundust stoðarholur sem ekki hafa fundist áður við kuml hérlendis og benda til að með einhverjum hætti hafi á einhverjum tímapunkti verið tjaldað yfir kumlin eða þau hulin með hjálp stoða þótt ekki sé ljóst hver tilgangurinn með slíku kynni að hafa verið. Þessa dagana er verið að grafa upp eitt kuml til viðbótar en í því reyndist fyrst og fremst vera hrossbein en ein tönn úr manneskju leyndist í moldinni. Ekki er að sjá að kumlið hafi verið rænt og því vakna hugmyndir um hvort fyrrum kumlbúi
kunni að hafa verið sá sem heygður var í bátnum en beinin ekki flutt fyrr en það löngu eftir lát kumlbúans að ofurlitlar líkamsleifar, þ.e. tönnin, hafi orðið eftir í upphaflegu kumli hans, hver veit? hver veit? Upphafsstaður ferðar er við hliðið á vegarslóðanum að Litlu Núpum sem er á bakka Mýrarkvíslar að vestanverðu og þar verður safnast í bíla kl. 16.30 og ekið áleiðis að Kumlateignum. Gangan að kumlateignum er nokkur hundruð metrar niður í móti og fremur auðveld þó landið sé þýft en gangan að bæjarhólnum er talsvert lengri. Allt áhugafólk er hjartanlega velkomið og nánari upplýsingar gefa Unnsteinn Ingason í síma 894 4594 og Sif Jóhannesdóttir í síma 848 3586.