Þriðjudaginn 25 maí hélt vaskur hópur nemenda í 6 og 7 bekk Litlulaugaskóla af stað til að hefja formlega hnitsetningu örnefna á vegum Fornleifaskóla barnanna og hafist var handa í landi Hóla og Lauta sem er í nágrenni skólans. Fyrr um morguninn fengu börnin fræðslu um GPS staðsetningakerfið og notkun á GPS handtækjum auk þess sem farið var yfir skráningarformið sem notað er við hnitsetninguna. Leiðsögumaður í þessari fyrstu ferð var Sverrir Haraldsson í Hólum auk þess sem Pétur Ingólfsson, Sif Jóhannesdóttir og Unnsteinn Ingason gengu með hópnum og leiðbeindu við notkun tækja og eyðublaða. Hópurinn hitti Sverri á göngubrúnni yfir Reykjadalsá og þar var Reykjadalsáin að sjálfsögðu hnitsett og er á: 65° 43.282 norður og 17° 21.705 vestur. Frá brúnni var haldið í norður vestan ár á Bæjareyri, yfir á Myllueyri og áfram á Krókeyri. Þaðan var gengið á Barð og í Stekkjarlaut en þaðan lá leiðin í aðra laut sem ber nafnið: Lautin austan við Stekkjarlaut og áfram var haldið yfir á Austureyri og fram hjá Réttarhúsvaði. Þaðan lá leiðin í Austurhóla, að Stórulaugapolli, á Vestureyri og í Krók og verkefninu lauk með því að Pétur hljóp fyrir hönd hópsins upp á Langahrygg þar sem síðasta hnitið var tekið enda göngufólki tekið að kólna. Af Langahrygg var haldið rakleiðis upp í Litlulaugaskóla þar sem hnitin í GPS tækjunum voru færð yfir í tölvu og afraksturinn af þessari gönguferð má sjá á meðfylgjandi mynd. Nemendur stóðu sig afar vel og unnu verkefnið af samviskusemi og áhuga og Sverrir var ótæmandi brunnur af ýmsum fróðleik og kunnum við honum bestu þakkir fyrir fróðlega og skemmtilega leiðsögn. Eins og sést vel á kortamyndinni sem fylgir þessari frétt og er byggð á íslandskortum í GPS tækjunum, er ýmislegt ekki á réttum stað á kortinu s.s. Litlulaugaskóli þar sem ferðin endaði en þar segir að sé Heilsugæslustöð og sama gildir um flest önnur mannvirki á Laugatorfunni. Einn af samstarfsaðilum Fornleifaskóla barnanna við hnitsetningu örnefna er einmitt verkfræðistofan Samsýn og Garmin Ísland en þeir aðilar gefa út Íslandskort í GPS tæki og þegar fram líða stundir munu hnit úr örnefnaverkefni Fornleifaskóla barnanna leiða til þess að íslandskort í GPS handtækjum landsmanna verða réttari og áreiðanlegri og vonandi fróðlegri og skemmtilegri á þeim landsvæðum sem Fornleifaskólinn lætur til sín taka við hnitsetningu örnefna. Uing.