Hofstaðarannsóknir og minjaskráning á Seljadal

Gömlu beitarhús í landi Breiðumýrar
Myndarlegar kolagrafir í Mýraröxlinni
Mögulegur stekkur skammt frá Seljadalsá
Gamli kirkjugarðurinn á Hofstöðum. Mynd Hildur Gestsdóttir

Nú eru rannsóknir hafnar að nýju í kirkjugarðinum á Hofstöðum í Mývatnssveit en þar hefur ekki verið grafið síðan 2004. Hildur Gestsdóttir hjá Fornleifastofnun Íslands stjórnar uppgreftrinum og ásamt henni vinna þau Stefán Ólafsson og Oddgeir Isaksen frá Fornleifastofnun, Marianne Robson frá háskólanum í Bradford og Celine Dupont-Hébert frá háskólanum í Laval í Quebec að rannsóknunum. Nú hefur verið opnað 310 fermetra svæði norðan og austan við gamla uppgraftrarsvæðið auk þess sem hluti af „gamla“ uppgraftrarsvæðinu hefur verið opnað að nýju þar sem ekki tókst að ljúka þar rannsóknum 2004. Vonast er til að kirkjugarðsveggur sem sást á jarðsjármælingum frá 1999 finnist og einnig er verið að grafa upp öskuhaug frá gamla bæjarstæðinu á Hofstöðum. Jafnframt er verið að grafa upp fjórar fornar grafir og stefnt er að því að klára það verkefni í sumar. Öskuhaugur gamla Hofstaðabæjarins mun án efa gefa margvíslegar upplýsingar um líf og lífsviðurværi Hofstaðbænda líkt og ruslahaugurinn við hinn forna Hofstaðabæ (skálann mikla) hefur nú þegar gefið. Rannsóknir á mannabeinum gefa ekki síður mikilvægar upplýsingar um líf og hagi fólks og af þeim má m.a. ráða margvíslegar upplýsingar um heilsufar, aldur, mataræði og annað slíkt. Rannsóknirnar á Hofstöðum eru styrktar af Fornleifasjóði og CUNY (City University of New York). Skráning minja á Seljadal. Ljómandi vel gengur að skrá minjar á Seljadal og stefnt er að því að ljúka skráningunni í ár en hún hófst sumarið 2007 á vegum Hins þingeyska fornleifafélags og er framkvæmd af Fornleifastofnun Íslands. Fornleifafræðingarnir Birna Lárusdóttir og Elín Ósk Hreiðarsdóttir annast skráninguna og vinna nú á nyrsta hluta dalsins en göngu- og kynningarverkefni Hins þingeyska fornleifafélags og Fornleifastofnunar Íslands, „Fornir fimmtudagar“ hófst einmitt með heimsókn til Birnu og Elínar í tóftirnar í Láfsgerði sem eru á norðurmörkum dalsins. Markmið skráningarinnar er að afla upplýsinga um upphaf og eðli byggðar á Seljadal og nýtingu hans og jafnframt að leggja drög og þróa leiðir til að kynna dalinn og minjar hans fyrir heimamönnum sem og ferðafólki í framtíðinni. Margt nýtt skemmtilegt hefur komið í ljós við skráninguna og má þar nefna mögulega skálarúst, skammt frá Brenniseli, andspænis Kvígindisdal en dalurinn er ríkur af fornlegum minjum sem mörgum hverjum hefur ekki verið raskað svo neinu nemi auk margvíslegra minja um yngri mannanna verk s.s. byggð á 19 og 20 öld. UIng.