Þriðjudaginn tuttugasta og annan júní hófust rannsóknir á Litlu Núpum á vegum Hins þingeyska fornleifafélags og er það vösk sveit frá Fornleifastofnun Íslands undir stjórn Howell Magnús Roberts sem annast rannsóknirnar og í uppgreftrinum auk hans taka þátt: Lilja Björk Pálsdóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Óskar Gísli Sveinbjarnarson, Etel Colic og Seth Brewington. Opnað var stórt svæði, 16 x 4 metrar í austur frá bátskumlinu sem fannst 2007 og gröf manns og hests sem grafin var upp 2007 – 2008. Uppgraftrarsvæðið er mjög blásið og hreyft af frostlyftingum og ekkert var að finna í suðurhluta þess. Í norðurhlutanum, norðaustur frá bátskumlinu fannst hins vegar gröf. Hún virðist vera um 1,8 metra löng í norður suður og ca 60 cm breið. Þetta lag er hefðbundið fyrir mannskuml en til þessa hafa aðeins fundist bein úr hrossi, kjálki, tennur, lærleggur og herðablað og beinin hafa varðveist vel. Ekki er að sjá að kumlinu hafi verið raskað og þegar gröfinni var lokað á sínum tíma hafa verið settir nokkrir hnefastórir steinar í fyllinguna og steinadreif ásamt torfi er að finna vestan við kumlið. Forvitnilegt verður að vita hvort mannsbein koma í ljós en fornleifafræðingar eru ekki óvanir að finna óvenjulega hluti á Litlu Núpum. Þar fannst bátskumlárið 2007 eins og áður sagði, það fyrsta í nær hálfa öld og einnig komu þar í ljós stoðarholur umhverfis mannskuml (holur þar sem stoðir hafa staðið en fúnað úr eða verið fjarlægðar) og ekki er vitað um slíkan umbúnað við önnur kuml, a.m.k. ekki enn sem komið er. Haldið verður áfram að grafa upp hrossbeinin og annað sem koma kann í ljós í kumlinu, auk þess sem kortlagning og taka borkjarna-sýna hefst við meintan bæjarhól á Litlu Núpum. Áhugasömum gefst kostur á að heimsækja fornleifafræðinga í Litlu Núpa næstkomandi fimmtudag, 1. júlí og verður það nánar auglýst síðar. UIng.