Í gærkveldi, fimmtudagskvöldið 24. júní gekk 28 manna hópur í fallegri kvöldsól og svalri golu um bæjarstæði Láfsgerðis í mynni Seljadals, undir leiðsögn þeirra Elínar Hreiðarsdóttur og Birnu Lárusdóttur, fornleifafræðinga hjá Fornleifastofnun Íslands. Gestir fræddust um fyrirkomulag og verkskipulag fornleifaskráningar á
vettvangi auk þess að skoða áhugaverðar tóftir Láfsgerðisbæjarins. Láfsgerðistúnið er orðið verulega stórþýft og talsvert erfitt yfirferðar og væntanlega hafa bæjarhúsin fengið breytta notkun eftir að bússkapur lagðist þar af. Ekki er ólíklegt að eldhúsið þar sem húsfreyjan sauð rjúpuna handa svöngum börnum sínum, eins og segir í ljóði Jónasar Hallgrímssonar, hafi breyst í beitarhús á einhverjum tímapunkti. Að minnsta kosti er ekki svo auðvelt að ætla hvaða hóll hafi verið bæjarhóllinn án nánari rannsókna. Margt er því hægt að spá og spekúlera í Láfsgerði. Nokkuð myndarlegur túngarður umlykur heimatúnið en utan garðsins eru nokkuð fornlegar tóftir sem enginn veit hvaða tilgangi hafa þjónað. Sumir sáu víkingaaldarskála í þeim tóftum og aðrir sáu heystæði og enn aðrir örugglega enn annað, en enginn veit. Sagt er að það hafi verið Sigurjón Jónsson, barnabarn Jóns Sigurðssonar „Lamba“ á Breiðumýri sem staddur var sjö ára gamall í Láfsgerði þegar rjúpa flaug þar inn um ljórann á flótta undan val og endaði í kjöltu húsfreyjunnar. Í gönguferðinni í gærkveldi voru tvö barna-barna-barna-barna-barnabörn Sigurjóns einmitt staddar í Láfsgerði, þær Erla Ingileif og Gerður Björg Harðardætur og Olgu Mörtu frá Einarsstöðum og hugsanlega var karrinn sem ropaði hátt og flögraði í kring, afkomandi nefndar rjúpu, hver veit? hver veit?. Gerður á Einarsstöðum var einmitt yngst þátttakenda í göngunni, 9 ára gömul og elstur var Ingi Tryggvason á Narfastöðum, rétt um áttatíu árum eldri. Hið þingeyska fornleifafélag þakkar öllum gestum félagsskapinn þessa kvöldstund og þeim stöllum Elínu og Birnu fyrir skemmtilega og fræðandi leiðsögn. Næsta ganga í boði Hins þingeyska fornleifafélag og Fornleifastofnunar Íslands verður á Litlu Núpum í Aðaldal, fimmtudaginn 1. júlí, síðdegis, og verður nánar auglýst síðar.