Fimmtudagskvöldið 24. júní hefst fimm vikna dagskrá þar sem Hið þingeyska fornleifafélag og Fornleifastofnun Íslands bjóða gestum og gangandi að heimsækja fornleifafræðinga á vettvangi rannsókna og fræðast um þeirra störf og þau verkefni sem verið er að vinna að á vegum Hins þingeyska fornleifafélags og
Fornleifastofnunar Íslands. Mæting er kl. 20.30 við Afleggjarann að Kvígindisdal. Gæta þarf sérstaklega að frágangi ökutækja vegna umferðar um heimreiðina. Gangan að Láfsgerði er stutt og fremur létt en þátttakendur eru hvattir til að hafa með sér flugnanet ef veður er stillt. Fornleifaskráning á Seljadal er fyrsta verkefnið sem gestum er boðið að kynnast. Elín Hreiðarsdóttir og Birna Lárusdóttir munu taka á móti gestum í tóftum Láfsgerðis (Lásgerðis) sem er skammt ofan við vesturbrún Reykjadals, nálægt mynni Seljadals, sjá nánar á korti Landmælinga Íslands. „ Ekki var það talin merkisjörð, lá enda vel við ágangi búfjár stórbýlanna í dalnum. það fór í eyði 1885 þegar Haraldur Sigurjónsson, þá nýlega orðinn bóndi á Einarsstöðum, keypti jörðina til að leggja hana til bithaga Einarsstaða, en síðasti ábúandinn í Lásgerði flutti í Kvígindisdal“. Ragnar Árnason, Árbók Þingeyinga 2003. Ýmislegt dreif þó á daga Láfsgerðisbænda og nefna má kæru séra Benedikts Kristjánssonar á Helgastöðum á hendur Halldóri Jenssyni bónda í Láfsgerði vegna meints helgidagabrots. Halldór var sakaður um að hafa á sjöunda og tíunda sunnudegi eftir Trínitatis verið að snúa heyi á túni sínu. Réttarhöld fóru fram að Helgastöðum og lauk með því að settur sýslumaður, Benedikt Sveinsson, segir í dómsorði í lögreglurétti að Ljósavatni 15. febrúar 1876: „Halldór bóndi Jensson á Lásgerði á fyrir ákærum hins opinbera í þessu máli sýkn að vera. Málskostnaður greiðist úr opinberum sjóði“. Um þetta má lesa nánar í grein Ragnars Árnasonar frá Skógarseli í Árbók Þingeyinga 2003 um „Meint helgidagsbrot í Lásgerði 1875“. Fleira markvert gerðist í Láfsgerði því þegar Sigurjón Jónsson frá Einarsstöðum var um sjö ára aldur var hann staddur í Láfsgerði þegar rjúpa kom fljúgandi undan val inn um gluggaljórann og lenti í kjöltu húsfreyjunnar, sem dró hana þegar úr hálsliðnum. Síðar þegar Sigurjón var fylgdarmaður Jónasar Hallgrímssonar á rannsóknarferðum um Íslands mun hann hafa sagt honum frá þessu atviki og eftir stendur kvæðið „Óhræsið“: