Saltvík á sumarkvöldi.

Fimmtudagskvöldið 4. ágúst býður Hið þingeyska fornleifafélag í samstarfi við Fornleifastofnun Íslands ses. í heimsókn í Saltvík skammt sunnan Húsavíkur.

Í framhaldi af fornleifaskráningu í Reykjahverfi sumarið 2002 fundust m.a. tvær rúsaþyrpingar sunnan við túnið í Saltvík.  Engar heimildir eru til um þessar rústir svo vitað sé og ekki fundust aðilar á þeim tíma sem könnuðust við þessi tóftabrot eða þekktu sögu þeirra.  Tóftirnar eru ágætlega skýrar og liggur framhjá þeim reiðleið.  Við forrannsókn á þessum tóftum þá um sumarið fundust einnig tvö kuml sem báðum hafði verið raskað, báðum á fimmtándu öld skv. gjóskulögum en sjá mátti uppgröft skammt undir gjóskunni sem féll árið 1477.

Á netinu má finna m.a. tvær greinargóðar skýrslur um rannsóknirnar í Saltvík,  hér og hér.

Mæting er í gönguferðina við stóra hesthúsið í Saltvík kl. 18.30 og áætlað er að gönguferðin taki eina til eina og hálfa klukkustund.  Leiðsögumaður er Dr. Adolf Friðriksson forstöðumaður Fornleifastofnunar Íslands.

Fornir fimmtudagar – Leiðarnes í ljósaskiptum

Fimmtudagskvöldið 28. júlí býður Hið þingeyska fornleifafélag í heimsókn á Leiðarnes í Fnjóskadal.

Teikning Daniels Bruun af þingstaðnum á Leiðarnesi.
Loftmynd af Leiðarnesi, tekin af Google Earth

Um Ljósvetningaleið er getið í Ljósvetningasögu, Reykdælu og Njálu en ekki er þar sagt hvar hún var haldin en fullvíst er talið að leiðarþingið hafi verið haldið á svonefndu Leiðarnesi sem er í landi Háls, vestur við Fnjóská, skammt sunnan brúarinnar.

Orðið „Þing“ kemur úr fornnorrænu þar sem það merkti samkoma en þing til forna voru vettvangur dómstóla og löggjafar.  Auk Alþingis voru háð þrennskonar þing: Fjórðungsþing, vorþing (sóknar- og skuldaþing) og leiðarþing (haustþing).  Leiðarþing eða leiðir voru haldin að loknu alþingi og var tilgangurinn sá að gefa íbúum hvers héraðs nokkurs konar skýrslu um það sem fram hafði farið á Öxarárþingi.  Goðar héldu leiðarþingin en síðar féll það í hlut sýslumanna að halda leiðarþingin sem síðan liðu undir lok á 18. öld ogmanntalsþing tóku við hlutverkum þeirra.

Fátt er vitað með vissu um þingstaðina en talið er að vorþingsstaðirnir hafi verið 13 talsins á landinu öllu, þrjú í hverjum fjórðungi nema Norðlendingafjórðungi þar sem þau voru fjögur, að sögn Ara fróða sökum þess að Norðlendingar gátu ekki komið sér saman um annað.  Á norðurlandi er talið með vissu að þeir hafi verið Í Hegranesi og í Þingey en ekki er um ábyggilegar heimildir að ræða varðandi Leiðarnes og Skuldaþingsey, svo dæmi sé tekið, heldur er fyrst og fremst byggt á nöfnum þessara tveggja staða sem og búðatóftunum sem þar er að finna.

Mæting í gönguferðina er við austari Vaglaskógarveg, ekið upp klaufina og stoppað þar.  þaðan verður gengið að Leiðarnesi.  Leiðsögumaður er Davíð Herbertsson frá Hrísgerði og áætlað er að gönguferðin taki 1,5 til 2 klukkustundir.  Unnst.Ing.

Fornir fimmtudagar – Kuml og gröf að kveldi fimmtudags

Fimmtudagskvöldið 13. ágúst býður Hið þingeyska fornleifafélag og Fornleifastofnun íslands í heimsókn á kumlateiginn á Ingiríðarstöðum í Þegjandadal.

Það hefði mátt halda að nú myndi fátt koma fornleifafræðingum að óvart á Ingiríðarstöðum í Þegjandadal eftir áralangar rannsóknir á kumlateignum þar.  Stoðarholur umhverfis kumlin eru ekki lengur nýlunda né heldur veggur í miðjum kumlateignum sem kom í ljós sumarið 2010.  Í honum var að finna mikla holu með manna- og dýrabeinum og utanvert í torfveggnum var litla gröf ungabarns að finna.  Steinkraga var að finna umhverfis eitt kumlanna og áfram mætti telja.

Vinnuaðstæður fornleifafræðinga geta verið misjafnar.

Nú í liðinni viku brá svo við að það sem virðist vera kristin gröf kom í ljós í kumlateignum. Gröfin snýr austur – vestur andstætt kumlunum sem liggja norður – suður og gröfin var bein og vel afmörkuð.  Hins vegar brá svo við að alls ekkert var að finna í gröfinni og því með öllu óljóst hvað þarna hefur átt sér stað á sínum tíma.

Að öllum líkindum lýkur rannsóknum á kumlateignum nú í sumar, nema eitthvað óvænt eigi eftir að koma í ljós á næstu dögum.

Gangan í Ingiríðarstaði hefst kl. 18.00 á bílaplaninu við Grenjaðarstað og tekur samtals 3-4 klukkustundir.  Æskilegt er að vera vel skóaður því blautt kann að vera á leiðinni.  Á Ingiríðarstöðum er það Howell Magnús Roberts stjórnandi rannsóknarinnar ásamt samstarfsfólki sem tekur á móti hópnum. Uing.

Hin meinta gröf liggur austur vestur og reyndist tóm.

Fornir fimmtudagar á þriðjudagskvöldi á Hofstöðum

Þriðjudagskvöldið 14 júlí býðst gestum og gangandi að heimsækja Hildi Gestsdóttur og samstarfsfólk í kirkjugarðinn forna á Hofstöðum í Mývatnssveit.  Leiðsögumenn og kynnar verða margir og nefna má Hildi Gestsdóttur, Megan Hicks og Adolf Friðriksson.

Kort af Hofstöðum. Birt með leyfi LMI.

Með heimsókninni á Hofstaði er einnig fagnað að Hið þingeyska fornleifafélag er komið á ellefta ár og Fornleifastofnun Íslands er tuttugu ára á þessu ári og að á næstu dögum lýkur uppgreftri garðsins, uppgreftri sem hófst árið 1999 og stóð til 2004 og nú aftur frá 2010 til ársins í ár.

Á þessum árum hafa verið grafnar upp liðlega 150 grafir innan kirkjugarðsveggja og að auki ein gröf utan garðs.  Áttatíu þessara grafa eru grafir barna(nýbura og í stöku tilvikum fyrirbura) og fimmtán grafanna eru grafir barna á aldursbilinu eins árs til sautján / átján ára en tiltölulega auðvelt er að aldursgreina bein ungbarna.  Hinn hluti grafanna er í flestum tilvikum grafir fullorðinna og í nokkrum tilvikum má fullyrða að um mjög aldraða einstaklinga sé að ræða, áttatíu ár plús þótt almennt sé mun erfiðara að aldursgreina bein fullorðinna en barna. Velta má því fyrir sér hvort erfiðasti hjallinn á lífsleið þeirra er í garðinu hvíla, hafi verið þegar brjóstamjólkinni sleppti en þeim sem hafi tekist að komast yfir þann hjalla hafi beðið umtalsvert langlífi.

Gröf í garðinum á Hofstöðum. Mynd: Af Facebook síðu Hofstaðir excavation.

Gjóskulög í kirkjugarðinum á Hofstöðum gefa til kynna að í hann hafi verið grafið á árabilinu 950 til 1300 og kolefnisgreiningar á beinum styðja þá tilgátu og gefa til kynna tímabilið frá seinni hluta 10 aldar til fyrri hluta tólftu aldar.  Ekki er vitað með vissu frá hvaða bæjum grafið var á Hofstöðum en ekki er óalgengt að grafreitur hafi verið á fjórða hverjum bæ.

Beinin í garðinum á Hofstöðum segja ekki bara til um aldur þeirra sem þar liggja heldur má lesa gífurlega mikið magn upplýsinga úr beinunum.  Með ísótópamælingum geta beinin sagt til um síðustu æviár einstaklingsins, m.a. hvaða fæðu hann neytti og geta einnig gefið vísbendingar um búsetu síðustu æviárin vegna fæðuvals.  Tennurnar geta sagt til um upprunan en styrkur strontíum, sem upphaflega kemur úr drykkjarvatni, getur sagt til um hvar viðkomandi ólst upp fyrstu ár ævinnar með samanburðarrannsóknum á strontíum í bergi og íslenskt berg er ungt og gefur þ.a.l. sterkar vísbendingar um upprunann.  Þessi misserin er verið að rannsaka sýnishorn úr beinunum frá Hofstöðum víða um heim og fjölmörg doktorsverkefni snúast um þá einstaklinga sem í garðinum hvíldu.

Heimsóknin á Hofstaði hefst kl. 20.00 og í boði verða kaffi og kleinur.  Gestir eru hvattir til að klæða sig vel og vera vel skóaðir.

Nánar má lesa um rannsóknir Fornleifastofnunar Íslands á vefsíðu stofnunarinnar www.instarch.is eða með því að smella hér.
UnnstIng

Fornir fimmtudagar – Skuldaþingsey í Skjálfandafljóti

Ein búðanna
Þúsund ára gömul spaðaför
Uppgröftur í Skuldaþingsey
Minjasvæðið í Skuldaþingsey

Fimmtudaginn  7. ágúst klukkan 20.00 býðst almenningi og ferðafólki að litast um í Skuldaþingsey í Skjálfandafljóti.  Skuldaþingsey liggur við norðurenda Þingeyjar að austanverðu.  Í Skuldaþingsey eru minjar um mikla tóftaþyrpingu sem talið er að séu leifar af þinghaldi í eynni.  Til að komast að vísbendingu um aldur minjanna var grafið í eina tóftina sumarið 2006 á vegum Hins þingeyska fornleifafélags og Fornleifastofnunar Ísland og stjórnaði Howell Magnús Roberts uppgreftrinum.  Tóftin sem grafið var í er ferhyrnd og aflöng um 11×5 metrar að stærð.  Grafnir voru tveir andstæðir fjórðungar og í ljós komu torfveggir allt að 1 metra þykkir.  Við dyr fundust þunnt og slitrótt gólflag og sjá mátti að veggir höfðu verið við gerðir.  Ljóst er að byggingin var reist etir að gjóskan frá 950 féll og var löngu komin úr notkun þegar gjóskan féll árið 1477.  Að öðru leiti var ekki hægt að skera nánar úr um aldur byggingarinnar né notkun hennar nema ljóst er að aðeins hefur verið um tímabundna viðveru að ræða samanber þunnt og slitrótt gólflag.  Tímasetning minjanna fellur að því skeiði er vorþing voru haldin hér á landi og yfirbragð tóftarinnar og ummerki minna á tóftir sem grafnar hafa verið upp á þingstöðum.

 

Tiltölulega auðvelt er að ganga upp í Skuldaþingsey og gengið er yfir kvíslina á mjórri steinsteyptri stíflu.  Mæting er á hlaðinu á Vaði kl. 20.00 og verður þar safnast í bíla og ekið niður að Skipapolli þaðan sem gengið er upp á Þingey.

Leiðsögumaður er Howell Magnús Roberts, fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands.  UI.

Fornir fimmtudagar – Bakki norðan Húsavíkur

Fimmtudagskvöldið 31. júlí kl. 20.00 býður Hið þingeyska fornleifafélag og Fornleifastofnun Íslands, gestum og gangandi í heimsókn á iðnaðarlóðina á Bakka norðan Húsavíkur. Síðan 2001 hafa fornleifafræðingar frá Fornleifastofnun Íslands stundað rannsóknir í landi Bakka, fyrir norðan Húsavík, vegna iðnaðarlóða sem þar hafa verið skipulagðar.  Er ljóst af niðurstöðum úr þessum rannsóknum að búseta hefur varað lengi á Bakka og hafa fundist minjar sem ná allt aftur á landnámsöld.  Fimmtudaginn 31. júlí  mun Oddgeir Isaksen fornleifafræðingur taka á móti gestum á Bakka þar sem hann mun greina frá helstu niðurstöðum rannsóknanna.   Mæting er kl 20:00 við fjárréttina á Bakka. OI/UI

Fornir fimmtudagar – Svalbarð í Þistilfirði

Mynd: Guðrún Alda Gísladóttir

Fimmtudaginn 17. júlí klukkan 17:30 býðst almenningi og ferðafólki að litast um í kirkjunni á Svalbarði þar sem Sigtryggur Þorláksson tekur á móti gestum og segir sögu kirkjunnar. Að því loknu bjóða fornleifafræðingar í heimsókn á uppgraftrarsvæðið á Svalbarði og gera grein fyrir sínum störfum og fræða um fornleifar á svæðinu Á 9. áratugnum og svo aftur frá árinu 2008 hafa fornleifafræðingar verið við störf á Svalbarði í Þistilfirði og á Svalbarðstungu. Í fyrstu var einblínt á hinn geysiþykka öskuhaug Svalbarðsbýlisins sem spannar tímabilið frá seinni hluta víkingaaldar til þeirrar 19.  Af greiningum dýrabeina úr haugnum voru svo dregnar víðtækar ályktarnir um þróun efnahags á Íslandi m.a. í samhengi við hina svokölluðu Litlu ísöld sem stóð ca. 1450-1900. Síðan þá hafa enn frekari rannsóknir verið gerðar á Svalbarðshaugnum en einnig öðrum býlum og seljum á Svalbarðstungu og þess freistað að komast að því hvenær þau voru í byggð og að finna öskuhauga sem verða svo bornir saman við Svalbarð með það fyrir augum að greina hver munurinn er á efnahagi hjáleigna og höfuðbýlis. GAG / UING

Fornir fimmtudagar – SAGA MÝVATNS

Hús Rannsóknarstöðvarinnar við Mývatn

Fimmtudagskvöldið 15. ágúst býður Hið þingeyska fornleifafélag í samstarfi við Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn, gestum og gangandi í heimsókn í húsnæði stöðvarinnar á Skútustöðum við Mývatn en þar mun Árni Einarsson forstöðumaður stöðvarinnar taka á móti gestum.

Eitt af mörgum verkefnum stöðvarinnar er að rekja sögu vatnsins frá myndun þess fyrir ríflega 2000 árum og fram á þennan dag og gestir munu kynnast tækninni sem beitt er til að ná borkjörnum úr setlögum vatnsins og aðferðum sem notaðar eru til að lesa  í söguna.  Kynntar verða niðurstöður rannsóknar á sögu lífríkis í Mývatni síðastliðin 160 ár eða svo.

 

Náttúrurannsóknarstöðin er til húsa í gamla prestsetrinu á Skútustöðum.  Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir og minnt er á að kynningin hefst kl. 19.00

 

Nánar má fræðast um fjölmargt sem tengist rannsóknum stofnunarinnar á vefsíðu hennar; www.ramy.is  

Fornir fimmtudagar – rauðablástur á Skógum í Fnjóskadal.

Fimmtudagskvöldið 8. ágúst kl. 20.00 býður Hið þingeyska fornleifafélag í samstarfi við Byggðasafn Skagfirðinga gestum og gangandi í heimsókn á fyrirhugað framkvæmdasvæði Vaðlaheiðarganga, Fnjóskadalsmegin, þar sem við fornleifarannsókn komu í ljós óvænt ummerki um umfangsmikla járnvinnslu.

Árin 2011 og 2012 unnu fornleifafræðingar á vegum Byggðasafns Skagfirðinga að fornleifauppgreftri í landi Skóga í Fnjóskadal vegna fyrirhugaðra framkvæmda við gerð Vaðlaheiðarganga. Rannsókn á staðnum hófst vorið 2011 þegar komu óvænt í ljós ummerki um járnframleiðslu undir rústum gamalla fjárhúsa, mitt í fyrirhuguðum gangamunna. Komið hefur í ljós að vinnsla járns úr mýrarauða eða svonefndur rauðablástur var stundaður á Skógum frá því fyrir 1104, en framleiðslu var hætt nokkru fyrir 1300. Ljóst er að framleiðsla járns á staðnum hefur hlaupið á tonnum og um er að ræða umfangsmikla iðnvinnslu síns tíma.

Auk járnvinnslunnar komu í ljós umtalsverð ummerki um vinnslu annarra málma, einkum kopars. Fjöldi deigla og deiglubrota fundust í ruslalagi skammt frá járnvinnslusvæðinu sem bera merki þess að þar hafi einnig verið bræddir og steyptir málmar.

Uppgröfturinn á Skógum er merkileg viðbót við iðnsögu landsins, þar sem jafn umfangsmikill járnvinnslustaður hefur ekki áður verið grafinn upp í heild sinni né heldur hafa  jafn margar deiglur og deiglubrot áður fundist á einum stað og munu niðurstöður uppgraftarins varpa ljósi á margt er varðar innlenda framleiðslu og endurvinnslu á málmum á fyrri tímum.

 

Boðið verður upp á stutta leiðsögn um járnvinnslusvæðið og að því loknu verður gerð nánari grein fyrir rannsóknunum í kaffihúsinu Uglunni í gamla barnaskólanum á Skógum.

Leiðsögumaður er Guðmundur S. Sigurðsson fornleifafræðingur hjá Byggðasafni Skagfirðinga.

Um rauðablástur má fræðast nánar á vefsíðu Ferlis með því að smella á tengilinn http://www.ferlir.is/?id=3177