Fornir fimmtudagar – Leiðarnes í ljósaskiptum

Fimmtudagskvöldið 28. júlí býður Hið þingeyska fornleifafélag í heimsókn á Leiðarnes í Fnjóskadal.

Teikning Daniels Bruun af þingstaðnum á Leiðarnesi.
Loftmynd af Leiðarnesi, tekin af Google Earth

Um Ljósvetningaleið er getið í Ljósvetningasögu, Reykdælu og Njálu en ekki er þar sagt hvar hún var haldin en fullvíst er talið að leiðarþingið hafi verið haldið á svonefndu Leiðarnesi sem er í landi Háls, vestur við Fnjóská, skammt sunnan brúarinnar.

Orðið „Þing“ kemur úr fornnorrænu þar sem það merkti samkoma en þing til forna voru vettvangur dómstóla og löggjafar.  Auk Alþingis voru háð þrennskonar þing: Fjórðungsþing, vorþing (sóknar- og skuldaþing) og leiðarþing (haustþing).  Leiðarþing eða leiðir voru haldin að loknu alþingi og var tilgangurinn sá að gefa íbúum hvers héraðs nokkurs konar skýrslu um það sem fram hafði farið á Öxarárþingi.  Goðar héldu leiðarþingin en síðar féll það í hlut sýslumanna að halda leiðarþingin sem síðan liðu undir lok á 18. öld ogmanntalsþing tóku við hlutverkum þeirra.

Fátt er vitað með vissu um þingstaðina en talið er að vorþingsstaðirnir hafi verið 13 talsins á landinu öllu, þrjú í hverjum fjórðungi nema Norðlendingafjórðungi þar sem þau voru fjögur, að sögn Ara fróða sökum þess að Norðlendingar gátu ekki komið sér saman um annað.  Á norðurlandi er talið með vissu að þeir hafi verið Í Hegranesi og í Þingey en ekki er um ábyggilegar heimildir að ræða varðandi Leiðarnes og Skuldaþingsey, svo dæmi sé tekið, heldur er fyrst og fremst byggt á nöfnum þessara tveggja staða sem og búðatóftunum sem þar er að finna.

Mæting í gönguferðina er við austari Vaglaskógarveg, ekið upp klaufina og stoppað þar.  þaðan verður gengið að Leiðarnesi.  Leiðsögumaður er Davíð Herbertsson frá Hrísgerði og áætlað er að gönguferðin taki 1,5 til 2 klukkustundir.  Unnst.Ing.