Fornir fimmtudagar á þriðjudagskvöldi á Hofstöðum

Þriðjudagskvöldið 14 júlí býðst gestum og gangandi að heimsækja Hildi Gestsdóttur og samstarfsfólk í kirkjugarðinn forna á Hofstöðum í Mývatnssveit.  Leiðsögumenn og kynnar verða margir og nefna má Hildi Gestsdóttur, Megan Hicks og Adolf Friðriksson.

Kort af Hofstöðum. Birt með leyfi LMI.

Með heimsókninni á Hofstaði er einnig fagnað að Hið þingeyska fornleifafélag er komið á ellefta ár og Fornleifastofnun Íslands er tuttugu ára á þessu ári og að á næstu dögum lýkur uppgreftri garðsins, uppgreftri sem hófst árið 1999 og stóð til 2004 og nú aftur frá 2010 til ársins í ár.

Á þessum árum hafa verið grafnar upp liðlega 150 grafir innan kirkjugarðsveggja og að auki ein gröf utan garðs.  Áttatíu þessara grafa eru grafir barna(nýbura og í stöku tilvikum fyrirbura) og fimmtán grafanna eru grafir barna á aldursbilinu eins árs til sautján / átján ára en tiltölulega auðvelt er að aldursgreina bein ungbarna.  Hinn hluti grafanna er í flestum tilvikum grafir fullorðinna og í nokkrum tilvikum má fullyrða að um mjög aldraða einstaklinga sé að ræða, áttatíu ár plús þótt almennt sé mun erfiðara að aldursgreina bein fullorðinna en barna. Velta má því fyrir sér hvort erfiðasti hjallinn á lífsleið þeirra er í garðinu hvíla, hafi verið þegar brjóstamjólkinni sleppti en þeim sem hafi tekist að komast yfir þann hjalla hafi beðið umtalsvert langlífi.

Gröf í garðinum á Hofstöðum. Mynd: Af Facebook síðu Hofstaðir excavation.

Gjóskulög í kirkjugarðinum á Hofstöðum gefa til kynna að í hann hafi verið grafið á árabilinu 950 til 1300 og kolefnisgreiningar á beinum styðja þá tilgátu og gefa til kynna tímabilið frá seinni hluta 10 aldar til fyrri hluta tólftu aldar.  Ekki er vitað með vissu frá hvaða bæjum grafið var á Hofstöðum en ekki er óalgengt að grafreitur hafi verið á fjórða hverjum bæ.

Beinin í garðinum á Hofstöðum segja ekki bara til um aldur þeirra sem þar liggja heldur má lesa gífurlega mikið magn upplýsinga úr beinunum.  Með ísótópamælingum geta beinin sagt til um síðustu æviár einstaklingsins, m.a. hvaða fæðu hann neytti og geta einnig gefið vísbendingar um búsetu síðustu æviárin vegna fæðuvals.  Tennurnar geta sagt til um upprunan en styrkur strontíum, sem upphaflega kemur úr drykkjarvatni, getur sagt til um hvar viðkomandi ólst upp fyrstu ár ævinnar með samanburðarrannsóknum á strontíum í bergi og íslenskt berg er ungt og gefur þ.a.l. sterkar vísbendingar um upprunann.  Þessi misserin er verið að rannsaka sýnishorn úr beinunum frá Hofstöðum víða um heim og fjölmörg doktorsverkefni snúast um þá einstaklinga sem í garðinum hvíldu.

Heimsóknin á Hofstaði hefst kl. 20.00 og í boði verða kaffi og kleinur.  Gestir eru hvattir til að klæða sig vel og vera vel skóaðir.

Nánar má lesa um rannsóknir Fornleifastofnunar Íslands á vefsíðu stofnunarinnar www.instarch.is eða með því að smella hér.
UnnstIng