Fimmtudagskvöldið 13. ágúst býður Hið þingeyska fornleifafélag og Fornleifastofnun íslands í heimsókn á kumlateiginn á Ingiríðarstöðum í Þegjandadal.
Það hefði mátt halda að nú myndi fátt koma fornleifafræðingum að óvart á Ingiríðarstöðum í Þegjandadal eftir áralangar rannsóknir á kumlateignum þar. Stoðarholur umhverfis kumlin eru ekki lengur nýlunda né heldur veggur í miðjum kumlateignum sem kom í ljós sumarið 2010. Í honum var að finna mikla holu með manna- og dýrabeinum og utanvert í torfveggnum var litla gröf ungabarns að finna. Steinkraga var að finna umhverfis eitt kumlanna og áfram mætti telja.
Nú í liðinni viku brá svo við að það sem virðist vera kristin gröf kom í ljós í kumlateignum. Gröfin snýr austur – vestur andstætt kumlunum sem liggja norður – suður og gröfin var bein og vel afmörkuð. Hins vegar brá svo við að alls ekkert var að finna í gröfinni og því með öllu óljóst hvað þarna hefur átt sér stað á sínum tíma.
Að öllum líkindum lýkur rannsóknum á kumlateignum nú í sumar, nema eitthvað óvænt eigi eftir að koma í ljós á næstu dögum.
Gangan í Ingiríðarstaði hefst kl. 18.00 á bílaplaninu við Grenjaðarstað og tekur samtals 3-4 klukkustundir. Æskilegt er að vera vel skóaður því blautt kann að vera á leiðinni. Á Ingiríðarstöðum er það Howell Magnús Roberts stjórnandi rannsóknarinnar ásamt samstarfsfólki sem tekur á móti hópnum. Uing.