Fimmtudaginn 7. ágúst klukkan 20.00 býðst almenningi og ferðafólki að litast um í Skuldaþingsey í Skjálfandafljóti. Skuldaþingsey liggur við norðurenda Þingeyjar að austanverðu. Í Skuldaþingsey eru minjar um mikla tóftaþyrpingu sem talið er að séu leifar af þinghaldi í eynni. Til að komast að vísbendingu um aldur minjanna var grafið í eina tóftina sumarið 2006 á vegum Hins þingeyska fornleifafélags og Fornleifastofnunar Ísland og stjórnaði Howell Magnús Roberts uppgreftrinum. Tóftin sem grafið var í er ferhyrnd og aflöng um 11×5 metrar að stærð. Grafnir voru tveir andstæðir fjórðungar og í ljós komu torfveggir allt að 1 metra þykkir. Við dyr fundust þunnt og slitrótt gólflag og sjá mátti að veggir höfðu verið við gerðir. Ljóst er að byggingin var reist etir að gjóskan frá 950 féll og var löngu komin úr notkun þegar gjóskan féll árið 1477. Að öðru leiti var ekki hægt að skera nánar úr um aldur byggingarinnar né notkun hennar nema ljóst er að aðeins hefur verið um tímabundna viðveru að ræða samanber þunnt og slitrótt gólflag. Tímasetning minjanna fellur að því skeiði er vorþing voru haldin hér á landi og yfirbragð tóftarinnar og ummerki minna á tóftir sem grafnar hafa verið upp á þingstöðum.
Tiltölulega auðvelt er að ganga upp í Skuldaþingsey og gengið er yfir kvíslina á mjórri steinsteyptri stíflu. Mæting er á hlaðinu á Vaði kl. 20.00 og verður þar safnast í bíla og ekið niður að Skipapolli þaðan sem gengið er upp á Þingey.
Leiðsögumaður er Howell Magnús Roberts, fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands. UI.