Fimmtudagskvöldið 8. ágúst kl. 20.00 býður Hið þingeyska fornleifafélag í samstarfi við Byggðasafn Skagfirðinga gestum og gangandi í heimsókn á fyrirhugað framkvæmdasvæði Vaðlaheiðarganga, Fnjóskadalsmegin, þar sem við fornleifarannsókn komu í ljós óvænt ummerki um umfangsmikla járnvinnslu.
Árin 2011 og 2012 unnu fornleifafræðingar á vegum Byggðasafns Skagfirðinga að fornleifauppgreftri í landi Skóga í Fnjóskadal vegna fyrirhugaðra framkvæmda við gerð Vaðlaheiðarganga. Rannsókn á staðnum hófst vorið 2011 þegar komu óvænt í ljós ummerki um járnframleiðslu undir rústum gamalla fjárhúsa, mitt í fyrirhuguðum gangamunna. Komið hefur í ljós að vinnsla járns úr mýrarauða eða svonefndur rauðablástur var stundaður á Skógum frá því fyrir 1104, en framleiðslu var hætt nokkru fyrir 1300. Ljóst er að framleiðsla járns á staðnum hefur hlaupið á tonnum og um er að ræða umfangsmikla iðnvinnslu síns tíma.
Auk járnvinnslunnar komu í ljós umtalsverð ummerki um vinnslu annarra málma, einkum kopars. Fjöldi deigla og deiglubrota fundust í ruslalagi skammt frá járnvinnslusvæðinu sem bera merki þess að þar hafi einnig verið bræddir og steyptir málmar.
Uppgröfturinn á Skógum er merkileg viðbót við iðnsögu landsins, þar sem jafn umfangsmikill járnvinnslustaður hefur ekki áður verið grafinn upp í heild sinni né heldur hafa jafn margar deiglur og deiglubrot áður fundist á einum stað og munu niðurstöður uppgraftarins varpa ljósi á margt er varðar innlenda framleiðslu og endurvinnslu á málmum á fyrri tímum.
Boðið verður upp á stutta leiðsögn um járnvinnslusvæðið og að því loknu verður gerð nánari grein fyrir rannsóknunum í kaffihúsinu Uglunni í gamla barnaskólanum á Skógum.
Leiðsögumaður er Guðmundur S. Sigurðsson fornleifafræðingur hjá Byggðasafni Skagfirðinga.
Um rauðablástur má fræðast nánar á vefsíðu Ferlis með því að smella á tengilinn http://www.ferlir.is/?id=3177