Fornir fimmtudagar á Hofsstöðum

Horft yfir kirkjugarðinn á Hofsstöðum. Mynd Hildur Gestsdóttir

Fimmtudagskvöldið 15. júlí kl. 20.30 býður Hið þingeyska fornleifafélag og Fornleifastofnun íslands gestum og gangandi að heimsækja fornleifafræðinga að störfum á Hofsstöðum í Mývatnssveit.  Hildur Gestsdóttir mannabeinasérfræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands og hennar fólk hefur unnið að rannsóknum í sunnanverðum gamla kirkjugarðinn á Hofsstöðum undanfarnar vikur en í þeim hluta eru grafir mun þéttari en í öðrum hluta garðsins.  Búið er að grafa upp 14 grafir og eru 12 þeirra grafir barna og í flestum tilvikum nýbura og allar eru grafirnar frá því fyrir þrettánhundruð.  Gamall kirkjugarður sem þessi geymir mikla og margvíslega sögu sem lesa má úr beinunum auk þess sem ímynda sér má sitthvað um gleði þeirra og sorgir sem bjuggu í væntanlega köldum og dimmum húsakosti miðalda á Hofsstöðum.  Gleði yfir barnsfæðingum og sorg þegar nýburum, sem og öðrum sem í garðinum hvíla, var fylgt til grafar í litlum garði.

 

Einnig er verið að grafa í gegnum ruslalög frá bæjarhólnum, mestmegnis 18-20 aldar rusl sem var að finna í tveggja metra djúpri gryfju á svæðinu en nú eru fornleifafræðingar komnir niður að gjóskunni 1477 og farið er að móta fyrir kirkjugarðsveggnum þó veggurinn sjálfur sé ekki orðinn sýnilegur.

 

Mæting er á bílastæði heima við Hofsstaði næstkomandi fimmtudagskvöld kl. 20.30 og allir áhugasamir eru boðnir velkomnir.

 

Hið þingeyska fornleifafélag og Fornleifastofnun Íslands.

UIng.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *