Þriðjudaginn tuttugasta og annan júní hófust rannsóknir á Litlu Núpum á vegum Hins þingeyska fornleifafélags og er það vösk sveit frá Fornleifastofnun Íslands undir stjórn Howell Magnús Roberts sem annast rannsóknirnar og í uppgreftrinum auk hans taka þátt: Lilja Björk Pálsdóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Óskar Gísli Sveinbjarnarson, Etel Colic og Seth Brewington. Opnað var stórt svæði, 16 x 4 metrar í austur frá bátskumlinu sem fannst 2007 og gröf manns og hests sem grafin var upp 2007 – 2008. Uppgraftrarsvæðið er mjög blásið og hreyft af frostlyftingum og ekkert var að finna í suðurhluta þess. Í norðurhlutanum, norðaustur frá bátskumlinu fannst hins vegar gröf. Hún virðist vera um 1,8 metra löng í norður suður og ca 60 cm breið. Þetta lag er hefðbundið fyrir mannskuml en til þessa hafa aðeins fundist bein úr hrossi, kjálki, tennur, lærleggur og herðablað og beinin hafa varðveist vel. Ekki er að sjá að kumlinu hafi verið raskað og þegar gröfinni var lokað á sínum tíma hafa verið settir nokkrir hnefastórir steinar í fyllinguna og steinadreif ásamt torfi er að finna vestan við kumlið. Forvitnilegt verður að vita hvort mannsbein koma í ljós en fornleifafræðingar eru ekki óvanir að finna óvenjulega hluti á Litlu Núpum. Þar fannst bátskumlárið 2007 eins og áður sagði, það fyrsta í nær hálfa öld og einnig komu þar í ljós stoðarholur umhverfis mannskuml (holur þar sem stoðir hafa staðið en fúnað úr eða verið fjarlægðar) og ekki er vitað um slíkan umbúnað við önnur kuml, a.m.k. ekki enn sem komið er. Haldið verður áfram að grafa upp hrossbeinin og annað sem koma kann í ljós í kumlinu, auk þess sem kortlagning og taka borkjarna-sýna hefst við meintan bæjarhól á Litlu Núpum. Áhugasömum gefst kostur á að heimsækja fornleifafræðinga í Litlu Núpa næstkomandi fimmtudag, 1. júlí og verður það nánar auglýst síðar. UIng.
Kvöldganga um Láfsgerði
Í gærkveldi, fimmtudagskvöldið 24. júní gekk 28 manna hópur í fallegri kvöldsól og svalri golu um bæjarstæði Láfsgerðis í mynni Seljadals, undir leiðsögn þeirra Elínar Hreiðarsdóttur og Birnu Lárusdóttur, fornleifafræðinga hjá Fornleifastofnun Íslands. Gestir fræddust um fyrirkomulag og verkskipulag fornleifaskráningar á
vettvangi auk þess að skoða áhugaverðar tóftir Láfsgerðisbæjarins. Láfsgerðistúnið er orðið verulega stórþýft og talsvert erfitt yfirferðar og væntanlega hafa bæjarhúsin fengið breytta notkun eftir að bússkapur lagðist þar af. Ekki er ólíklegt að eldhúsið þar sem húsfreyjan sauð rjúpuna handa svöngum börnum sínum, eins og segir í ljóði Jónasar Hallgrímssonar, hafi breyst í beitarhús á einhverjum tímapunkti. Að minnsta kosti er ekki svo auðvelt að ætla hvaða hóll hafi verið bæjarhóllinn án nánari rannsókna. Margt er því hægt að spá og spekúlera í Láfsgerði. Nokkuð myndarlegur túngarður umlykur heimatúnið en utan garðsins eru nokkuð fornlegar tóftir sem enginn veit hvaða tilgangi hafa þjónað. Sumir sáu víkingaaldarskála í þeim tóftum og aðrir sáu heystæði og enn aðrir örugglega enn annað, en enginn veit. Sagt er að það hafi verið Sigurjón Jónsson, barnabarn Jóns Sigurðssonar „Lamba“ á Breiðumýri sem staddur var sjö ára gamall í Láfsgerði þegar rjúpa flaug þar inn um ljórann á flótta undan val og endaði í kjöltu húsfreyjunnar. Í gönguferðinni í gærkveldi voru tvö barna-barna-barna-barna-barnabörn Sigurjóns einmitt staddar í Láfsgerði, þær Erla Ingileif og Gerður Björg Harðardætur og Olgu Mörtu frá Einarsstöðum og hugsanlega var karrinn sem ropaði hátt og flögraði í kring, afkomandi nefndar rjúpu, hver veit? hver veit?. Gerður á Einarsstöðum var einmitt yngst þátttakenda í göngunni, 9 ára gömul og elstur var Ingi Tryggvason á Narfastöðum, rétt um áttatíu árum eldri. Hið þingeyska fornleifafélag þakkar öllum gestum félagsskapinn þessa kvöldstund og þeim stöllum Elínu og Birnu fyrir skemmtilega og fræðandi leiðsögn. Næsta ganga í boði Hins þingeyska fornleifafélag og Fornleifastofnunar Íslands verður á Litlu Núpum í Aðaldal, fimmtudaginn 1. júlí, síðdegis, og verður nánar auglýst síðar.
Fornir fimmtudagar í Þingeyjarsýslu
Fimmtudagskvöldið 24. júní hefst fimm vikna dagskrá þar sem Hið þingeyska fornleifafélag og Fornleifastofnun Íslands bjóða gestum og gangandi að heimsækja fornleifafræðinga á vettvangi rannsókna og fræðast um þeirra störf og þau verkefni sem verið er að vinna að á vegum Hins þingeyska fornleifafélags og
Fornleifastofnunar Íslands. Mæting er kl. 20.30 við Afleggjarann að Kvígindisdal. Gæta þarf sérstaklega að frágangi ökutækja vegna umferðar um heimreiðina. Gangan að Láfsgerði er stutt og fremur létt en þátttakendur eru hvattir til að hafa með sér flugnanet ef veður er stillt. Fornleifaskráning á Seljadal er fyrsta verkefnið sem gestum er boðið að kynnast. Elín Hreiðarsdóttir og Birna Lárusdóttir munu taka á móti gestum í tóftum Láfsgerðis (Lásgerðis) sem er skammt ofan við vesturbrún Reykjadals, nálægt mynni Seljadals, sjá nánar á korti Landmælinga Íslands. „ Ekki var það talin merkisjörð, lá enda vel við ágangi búfjár stórbýlanna í dalnum. það fór í eyði 1885 þegar Haraldur Sigurjónsson, þá nýlega orðinn bóndi á Einarsstöðum, keypti jörðina til að leggja hana til bithaga Einarsstaða, en síðasti ábúandinn í Lásgerði flutti í Kvígindisdal“. Ragnar Árnason, Árbók Þingeyinga 2003. Ýmislegt dreif þó á daga Láfsgerðisbænda og nefna má kæru séra Benedikts Kristjánssonar á Helgastöðum á hendur Halldóri Jenssyni bónda í Láfsgerði vegna meints helgidagabrots. Halldór var sakaður um að hafa á sjöunda og tíunda sunnudegi eftir Trínitatis verið að snúa heyi á túni sínu. Réttarhöld fóru fram að Helgastöðum og lauk með því að settur sýslumaður, Benedikt Sveinsson, segir í dómsorði í lögreglurétti að Ljósavatni 15. febrúar 1876: „Halldór bóndi Jensson á Lásgerði á fyrir ákærum hins opinbera í þessu máli sýkn að vera. Málskostnaður greiðist úr opinberum sjóði“. Um þetta má lesa nánar í grein Ragnars Árnasonar frá Skógarseli í Árbók Þingeyinga 2003 um „Meint helgidagsbrot í Lásgerði 1875“. Fleira markvert gerðist í Láfsgerði því þegar Sigurjón Jónsson frá Einarsstöðum var um sjö ára aldur var hann staddur í Láfsgerði þegar rjúpa kom fljúgandi undan val inn um gluggaljórann og lenti í kjöltu húsfreyjunnar, sem dró hana þegar úr hálsliðnum. Síðar þegar Sigurjón var fylgdarmaður Jónasar Hallgrímssonar á rannsóknarferðum um Íslands mun hann hafa sagt honum frá þessu atviki og eftir stendur kvæðið „Óhræsið“:
Fornleifarannsóknir hafnar á Skútustöðum
Fornleifarannsóknir hafa verið stundaðar á Skútustöðum í Mývatnssveit síðan 2007 af hópi íslenskra og erlendra fornleifafræðinga. Fyrir hópnum í ár fara Þóra Pétursdóttir frá Fornleifastofnun Íslands og Dr. Thomas McGovern frá Hunter College í NY en Tom hefur nærri þriggja áratuga reynslu af fornleifarannsóknum á Norður Atlantshafs-svæðinu. Með þeim starfa hópur doktorsnema frá C.U.N.Y (Citi University of New York) en flest sérhæfa þau sig í beinafornleifaræði (Zoo archaeology) og má þar nefna: Frank Feeley, Megan Hicks, Amanda Schreiner, Aaron Kendall (sem sérhæfir sig í munum) og Celine DuPont sem er mastersnemi frá University of Laval. Allir CUNY nemarnir þáðu ferðastyrk frá NABO en styrkurinn er veittur í nafni Hreiðars Karlssonar, „Hreiðar Karlsson Memorial Award“ . Fyrsta verk hópsins á Skútustöðum var að fletta torfi ofan af uppgraftrarsvæðinu sem verður stækkað frá því sem var síðasta sumar og áherslan er lögð á að finna fleiri öskuhauga. Í öskuhaugum finnast bein og aðrar vísbendingar um líf fólks fyrr á öldum sem varpað geta ljósi á lífsviðurværi fólks og efnahag, rétt eins og öskutunnur dagsins í dag segja til um neysluhætti okkar nú á tímum.
Nemendastyrkir helgaðir nafni Hreiðars Karlssonar (Hreiðar Karlsson Memorial Award)
Stofnað hefur verið til ferðastyrks til erlendra stúdenta í fornleifafræði í nafni Hreiðars Karlssonar, f.1944, d.2009. Styrkurinn er veittur af NABO (North Atlantic Biocultural Organisation), sem eru alþjþóðleg samtök fornleifafræðinga og fornvistfræðinga sem fást við rannsóknir í Norður-Atlantshafi. Hefur NABO verið einn af helstu samstarfsaðilum Hins þingeyska fornleifafélags síðustu ár og veitt félaginu og öðrum aðilum margvíslegan stuðning við uppbyggingu vísindastarfs í héraðinu. Hlutverk styrkjanna verður að greiða götu námsmanna er halda til Íslands í vettvangsnám. Hreiðar Karlsson var einn af stofnendum Hins þingeyska fornleifafélags og sat í stjórn félagsins frá upphafi til dauðadags. Hreiðar lést í ágúst 2009. Sjá nánar á vefsíðu NABO www.nabohome.org
Verkefnaáætlun 2010
Aðalfundur Hin þingeyska fornleifafélags var haldinn mánudagskvöldið 14. Júní síðastliðinn kl. 20.00 í Menningarmiðstöð Þingeyinga á Húavík og var ágætlega sóttur. Aðalfundarstörf voru hefðbundin og lagði stjórn fyrir fundinn tillögu um framkvæmdaáætlun sumarsins sem var samþykkt eftirfarandi: Litlu –Núpar. Opnað verður svæði milli bátsgrafar og rofabarðs en mögulegt er að þar leynist kuml. Einnig verða tekin borkjarnasýni umhverfis meintan bæjarhól og leitað að ruslahaug. 50 manndagar verða nýttir á vettvangi og 15 dagar í úrvinnslu. (50 manndagar er t.d. 5 manns að störfum í 10 daga). Þegjandadalur, Ingiríðarstaðir. Rannsökuð verða 1-2 möguleg kuml í hinum afar stóra kumlateig á Ingíríðarstöðum og tekin verða borkjarnasýni auk prufuskurða í og við meintan víkingaaldarskála. 59 manndagar á vettvangi og 12 dagar í úrvinnslu. Seljadalur, grunnur að minjakorti. Lokið verður við skráningu minja sem er undanfari minjakorts af dalnum. 20 manndagar á vettvangi og 18 manndagar í úrvinnslu. Þórutóftir á sunnanverðum Seljadal. Þórutóftir eru áður óþekktar tóftir sem fundust árið 2008 í grennd við svonefnt Hólakot og eru nefndar eftir finnandanum, Þóru Pétursdóttur fornleifafræðingi. 4 manndagar á vettvangi og 2 í úrvinnslu munu verða nýttir til töku prufuskurðar í gegnum langvegg auk þess sem leitað verður að gjóskulögum og mögulegu gólflagi eða gólfskán til að aldursgreina tóftirnar og geta til um notkun þeirra. Þingey, uppmæling – myndataka. 7 manndagar á vettvangi og 3 manndagar í úrvinnslu verða nýttir í Þingey við uppmælingu. Ákveðið hefur verið að gera tilraun til mælinga með myndatöku úr lofti og beita tölvutækni við að sameina myndir og leitast við að búa til þrívíddarmynd á tölvutæku formi af minjunum sem þar eru. Verkefnið er tilraunaverkefni . Áætlaður kostnaður við ofangreind verkefni er u.þ.b. fimm miljónir króna. Jafnframt er unnið að drögum að upplýsingaskilti um Þegjandadalinn, vefbæklingum, minjagöngum og fl. og fl. Auk þess sem áhersla verður lögð á virkari heimasíðu en verið hefur. Gert er ráð fyrir ríflega einni miljón til þessara verkefna. Nýja stjórn Hins þingeyska fornleifafélags skipa: Unnsteinn Ingason, Tryggvi Finnsson og Ásgeir Böðvarsson. Varamaður í stjórn er Halldór Valdimarsson.
Aðalfundur Hins þingeyska fornleifafélags
Aðalfundur Hins þingeyska fornleifafélags verður haldinn mánudagskvöldið 14. Júní næstkomandi kl. 20.00 í Menningarmiðstöð Þingeyinga á Húsavík (Safnahúsinu) á jarðhæð. Dagskrá aðalfundarins er eftirfarandi skv. Samþykktum félagsins: a) Skýrsla stjórnar félagsins um starfssemi þess s.l. starfsár. b) Rekstrar- og efnahagsreikningur félagsins fyrir liðið starfsár lagður fram til samþykktar. c) Rekstar og starfsáætlun lögð fram til samþykktar. c) Kosning stjórnar. d) Þóknun stjórnar. e) Kosning endurskoðanda. f) Tillögur til breytinga á samþykktum félagsins. g) Önnur mál. Kynning á verkefnum sumarsins: kl. 21.00 að loknum aðalfundi, munu þau Howell Magnús Roberts og Þóra Pétursdóttir frá Fornleifastofnun Íslands og Sif Jóhannesdóttir starfsmaður Urðarbrunns og Hins þingeyska fornleifafélags, gera grein fyrir rannsóknum og verkefnum liðins starfsárs. Allt áhugafólk er hjartanlega velkomið. Stjórn Hins þingeyska fornleifafélags. Unnsteinn Ingason Tryggvi Finnsson
Örnefni – tilurð og gildi – Fornleifaskóli barnanna
Föstudaginn 14 maí síðastliðinn hélt Sif Jóhannesdóttir, einn af verkefnisstjórum Fornleifaskóla barnanna, námskeið fyrir nemendur 6, 7, 9 og 10 bekkjar Litlulaugaskóla í Reykjadal um örnefni, tilurð þeirra og gildi. Markmið námskeiðsins var að nemendur áttuðu sig á því hvað hugtakið örnefni þýðir, þekki mismunandi uppruna örnefna og hvernig þau öðlast sess ásamt því hvernig önnur örnefndi falla í gleymsku og dá. Einnig að nemendur áttuðu sig á gildi örnefna út frá öryggissjónarmiðum og gagnsemi þeirra fyrir þá sem vinna úti í náttúrunni og ferðast um landið. Jafnframt var áhersla lögð á heimildagildi örnefna, hlutverki Örnefnasafns og starfssemi nafnfræðisviðs Stofnunar Árna Magnússonar í Íslenskum fræðum. Námskeiðið hófst með innlögn þar sem fjallað var um eðli og tilurð örnefnanna, þ.e. staðarheiti í öllum myndum og fjallað var um hvernig örnefni yrðu til vegna legu í landi, byggðasögu, atburða, gróðurs, dýralífs o.s.frv. Einnig var fjallað gildi örnefna m.t.t. öryggis þ.e. staðsetningu út frá örnefnum og gildi örnefna í vinnu og leik, s.s. í landbúnaði, við póstúrburð, stangveiðar og strætónotkun svo dæmi séu tekin. Þá var rætt um réttmæti örnefna og mismunandi útbreiðslu þeirra, hvernig ný myndast og önnur tapa gildi sínu. Að lokum var fjallað um hlutverk Nafnfræðisviðs Stofnunar Árna Magnússonar í Íslenskum fræðum, gildi örnefnasafnsins sem þar er vistað og ráðgjöf sem almenningur og stofnanir geta leitað eftir þar. Námskeiðinu lauk með bráðskemmtilegum Örnefnaleik þar sem þátttakendum var ætlað að búa til mögulega staðsetningu og skýringu fyrir nokkur vel valin örnefni. Námskeiðið er hluti af Örnefnaverkefni Fornleifaskóla barnanna.
Hnitsetning örnefna á vegum Fornleifaskóla barnanna
Nýverið hófst vinna á vegum Fornleifaskóla barnanna í Þingeyjarsveit við skráningu Örnefnaskráa á tölvutækt form. Fornleifaskólinn hefur fengið styrk frá Vinnumálastofnun til verkefnisins og hefur Þóra Fríður Björnsdóttir verið ráðin til þriggja mánaða til að yfirfæra prentaðar örnefnaskrár yfir á tölvutækt form. Örefnaskrár eru til yfir flestar jarðir landsins en þeim einstaklingum fækkar sífellt sem þekkja nákvæma staðsetningu þessara örnefna enda hefur gildi þeirra í daglegu lífi fólks farið þverrandi með breytingum á bússkaparháttum. Fjölmargir aðilar hafa unnið að örnefnasöfnun í gegnum tíðina og prentaðar örnefnaskrár eru afrakstur þeirrar vinnu. Örnefnin eru hins vegar partur af menningu okkar og sögu og með því að staðsetja þau með gps tækni, þ.e. lengdar- og breiddargráður í íslensku hnitakerfi, er hægt að varðveita þau um ókomna tíð. Á mörgum jörðum hafa örnefni verið staðsett á kortum og / eða ljósmyndum og á stöku jörðum hafa örnefni verið hnitsett í heild sinni, s.s. á Narfastöðum í Reykjadal þar sem 230 örnefni hafa verið hnitsett með GPS á síðustu árum. Fornleifaskóli barnanna hefur í hyggju á næstu mánuðum og árum að virkja og hvetja ungmenni sem taka þátt í Fornleifaskólanum til að staðsetja örnefni með GPS handtækjum með hjálp annarra eldri fjölskyldumeðlima og/eða annarra sem þekkja staðsetningu skráðra örnefna á jörðum í Reykjadal og vonandi Þingeyjarsveit allri þegar fram líða stundir. Verkefnið sem nú er hafið um hnitsetningu örnefna í Þingeyjarsýslu er fyrsta skrefið í samstarfsverkefni Fornleifaskóla barnanna og Litlulaugaskóla, Ferðaþjónustunnar á Narfastöðum, Fornleifastofnunar Íslands, örnefnasviðs Stofnunar Árna Magnússonar í Íslenskum fræðum, Hnit verkfræðistofu, Garmin á Íslandi, Hunter college og Brooklyn college í New York. Örnefnasvið Stofnunar Árna Magnússonar hefur verið Fornleifaskólanum innan handar við að útbúa verklagsreglur um skráninguna og mun ásamt Hnit verkfræðistofu annast varðveislu upplýsinganna sem safnað verður og lætur Fornleifaskólanum jafnframt í té þær örnefnaskrár sem notaðar verða við hnitsetningu. Hnit verkfræðistofa mun útbúa kortavefsjá þar sem almenningi verður gert kleyft að skoða staðsetningu þeirra örnefna sem safnað verður og Garmin Ísland leggur Fornleifaskólanum til Íslandskort í GPS tækin og mun nýta hnitsetningu örnefna til að bæta Íslandskort sem notuð eru í GPS tækjum hér á landi. Fornleifastofnun Íslands hefur lagt verkefninu til ýmiskonar sérfræðiráðgjöf og Hunter College og Brooklyn college færðu Fornleifaskólanum síðastliðið haust nokkur fullkomin GPS handtæki að gjöf ásamt starfrænum myndavélum en þessi búnaður er grundvöllur verkefnisins. Nánari upplýsingar um verkefnið gefa Sif Jóhannesdóttir, Þjóðfræðingur og kennari sem er jafnframt starfsmaður Fornleifaskólans og verkefnisstjóri skráningarverkefnisins og Unnsteinn Ingason formaður stjórnar Fornleifaskóla barnanna.
Vel heppnað málþing um Hofstaði
Laugardaginn 24. apríl var framtíð og fortíð Hofstaða rædd á Málþingi á Narfastöðum í Reykjadal á vegum Hins þingeyska fornleifafélags og Fornleifastofnunar Íslands. Málþingið var afar vel sótt en tæplega 50 manns hlýddu á margvísleg erindi er tengdust fortíð og framtíð Hofstaða sem og fornleifafræði, náttúrufræði og þjóðfræði á víðum grundvelli. Tilefni málþingsins var útgáfa afar vandaðs rannsóknarrits um Hofstaðarannsóknirnar í ritstjórn Gavins Lucas. Adolf Friðriksson forstöðumaður Fornleifastofnunar Íslands reifaði forsögu rannsóknanna á Hofstöðum og Gavin Lucas fornleifafræðingur stiklaði á stóru í rannsóknarniðurstöðunum. Hildur Gestsdóttir mannabeinafræðingur fjallaði um rannsóknir á mannabeinum úr kirkjugarðinum á Hofstöðum og Árni Einarsson Líffræðingur greindi frá nytjum villta dýra sem öskuhaugarnir á Hofstöðum leiddu í ljós. Ingunn Ásdísardóttir Þjóðfræðingur velti fyrir sér heiðnum átrúnaði og nautshauskúpunum á Hofstöðum. Unnsteinn Ingason greindi frá tilurð hins Þingeyska fornleifafélags og Fornleifaskóla barnanna og tengslum þessara félaga við Hofstaðarannsóknina og Sif Jóhannesdóttir Þjóðfræðingur ræddi möguleika á hagnýtingu rannsókna og tengingu vísindamanna við almenning og ferðafólk. Orri Vésteinsson fornleifafræðingur ræddi að lokum um landnám á Norðausturlandi og hvernig Hofstaðarannsóknin hefur breytt sýn vísindamanna á landnám Íslands og jafnframt vakið upp fleiri spurningar heldur en rannsóknin hefur svarað. Skipuleggendur málþingsins voru þær Sif Jóhannesdóttir f.h. Hins þingeyska fornleifafélags og Þóra Pétursdóttir f.h. Fornleifastofnunar Íslands. Málþingið þótti takast afar vel og lokið var miklu lofsorði á fyrirlesara sem og skipuleggendur málþingsins. Á næstu vikum munu hér á vefsíðu Hins þingeyska fornleifafélags birtast stuttir útdrættir úr fyrirlestrunum er fluttir voru á málþinginu.