Föstudaginn 14 maí síðastliðinn hélt Sif Jóhannesdóttir, einn af verkefnisstjórum Fornleifaskóla barnanna, námskeið fyrir nemendur 6, 7, 9 og 10 bekkjar Litlulaugaskóla í Reykjadal um örnefni, tilurð þeirra og gildi. Markmið námskeiðsins var að nemendur áttuðu sig á því hvað hugtakið örnefni þýðir, þekki mismunandi uppruna örnefna og hvernig þau öðlast sess ásamt því hvernig önnur örnefndi falla í gleymsku og dá. Einnig að nemendur áttuðu sig á gildi örnefna út frá öryggissjónarmiðum og gagnsemi þeirra fyrir þá sem vinna úti í náttúrunni og ferðast um landið. Jafnframt var áhersla lögð á heimildagildi örnefna, hlutverki Örnefnasafns og starfssemi nafnfræðisviðs Stofnunar Árna Magnússonar í Íslenskum fræðum. Námskeiðið hófst með innlögn þar sem fjallað var um eðli og tilurð örnefnanna, þ.e. staðarheiti í öllum myndum og fjallað var um hvernig örnefni yrðu til vegna legu í landi, byggðasögu, atburða, gróðurs, dýralífs o.s.frv. Einnig var fjallað gildi örnefna m.t.t. öryggis þ.e. staðsetningu út frá örnefnum og gildi örnefna í vinnu og leik, s.s. í landbúnaði, við póstúrburð, stangveiðar og strætónotkun svo dæmi séu tekin. Þá var rætt um réttmæti örnefna og mismunandi útbreiðslu þeirra, hvernig ný myndast og önnur tapa gildi sínu. Að lokum var fjallað um hlutverk Nafnfræðisviðs Stofnunar Árna Magnússonar í Íslenskum fræðum, gildi örnefnasafnsins sem þar er vistað og ráðgjöf sem almenningur og stofnanir geta leitað eftir þar. Námskeiðinu lauk með bráðskemmtilegum Örnefnaleik þar sem þátttakendum var ætlað að búa til mögulega staðsetningu og skýringu fyrir nokkur vel valin örnefni. Námskeiðið er hluti af Örnefnaverkefni Fornleifaskóla barnanna.