Hnitsetning örnefna á vegum Fornleifaskóla barnanna

Þóra Fríður við skráningu
Frank Feeley og Óðinn að fleyta
Fjóla, Eydís, Harpa, Megan,Gunnar og Óðinn að rannsaka beinaleifar.

Nýverið hófst vinna á vegum Fornleifaskóla barnanna í Þingeyjarsveit við skráningu Örnefnaskráa á tölvutækt form. Fornleifaskólinn hefur fengið styrk frá Vinnumálastofnun til verkefnisins og hefur Þóra Fríður Björnsdóttir verið ráðin til þriggja mánaða til að yfirfæra prentaðar örnefnaskrár yfir á tölvutækt form. Örefnaskrár eru til yfir flestar jarðir landsins en þeim einstaklingum fækkar sífellt sem þekkja nákvæma staðsetningu þessara örnefna enda hefur gildi þeirra í daglegu lífi fólks farið þverrandi með breytingum á bússkaparháttum. Fjölmargir aðilar hafa unnið að örnefnasöfnun í gegnum tíðina og prentaðar örnefnaskrár eru afrakstur þeirrar vinnu. Örnefnin eru hins vegar partur af menningu okkar og sögu og með því að staðsetja þau með gps tækni, þ.e. lengdar- og breiddargráður í íslensku hnitakerfi, er hægt að varðveita þau um ókomna tíð. Á mörgum jörðum hafa örnefni verið staðsett á kortum og / eða ljósmyndum og á stöku jörðum hafa örnefni verið hnitsett í heild sinni, s.s. á Narfastöðum í Reykjadal þar sem 230 örnefni hafa verið hnitsett með GPS á síðustu árum. Fornleifaskóli barnanna hefur í hyggju á næstu mánuðum og árum að virkja og hvetja ungmenni sem taka þátt í Fornleifaskólanum til að staðsetja örnefni með GPS handtækjum með hjálp annarra eldri fjölskyldumeðlima og/eða annarra sem þekkja staðsetningu skráðra örnefna á jörðum í Reykjadal og vonandi Þingeyjarsveit allri þegar fram líða stundir. Verkefnið sem nú er hafið um hnitsetningu örnefna í Þingeyjarsýslu er fyrsta skrefið í samstarfsverkefni Fornleifaskóla barnanna og Litlulaugaskóla, Ferðaþjónustunnar á Narfastöðum, Fornleifastofnunar Íslands, örnefnasviðs Stofnunar Árna Magnússonar í Íslenskum fræðum, Hnit verkfræðistofu, Garmin á Íslandi, Hunter college og Brooklyn college í New York. Örnefnasvið Stofnunar Árna Magnússonar hefur verið Fornleifaskólanum innan handar við að útbúa verklagsreglur um skráninguna og mun ásamt Hnit verkfræðistofu annast varðveislu upplýsinganna sem safnað verður og lætur Fornleifaskólanum jafnframt í té þær örnefnaskrár sem notaðar verða við hnitsetningu. Hnit verkfræðistofa mun útbúa kortavefsjá þar sem almenningi verður gert kleyft að skoða staðsetningu þeirra örnefna sem safnað verður og Garmin Ísland leggur Fornleifaskólanum til Íslandskort í GPS tækin og mun nýta hnitsetningu örnefna til að bæta Íslandskort sem notuð eru í GPS tækjum hér á landi. Fornleifastofnun Íslands hefur lagt verkefninu til ýmiskonar sérfræðiráðgjöf og Hunter College og Brooklyn college færðu Fornleifaskólanum síðastliðið haust nokkur fullkomin GPS handtæki að gjöf ásamt starfrænum myndavélum en þessi búnaður er grundvöllur verkefnisins. Nánari upplýsingar um verkefnið gefa Sif Jóhannesdóttir, Þjóðfræðingur og kennari sem er jafnframt starfsmaður Fornleifaskólans og verkefnisstjóri skráningarverkefnisins og Unnsteinn Ingason formaður stjórnar Fornleifaskóla barnanna.