Laugardaginn 24. apríl var framtíð og fortíð Hofstaða rædd á Málþingi á Narfastöðum í Reykjadal á vegum Hins þingeyska fornleifafélags og Fornleifastofnunar Íslands. Málþingið var afar vel sótt en tæplega 50 manns hlýddu á margvísleg erindi er tengdust fortíð og framtíð Hofstaða sem og fornleifafræði, náttúrufræði og þjóðfræði á víðum grundvelli. Tilefni málþingsins var útgáfa afar vandaðs rannsóknarrits um Hofstaðarannsóknirnar í ritstjórn Gavins Lucas. Adolf Friðriksson forstöðumaður Fornleifastofnunar Íslands reifaði forsögu rannsóknanna á Hofstöðum og Gavin Lucas fornleifafræðingur stiklaði á stóru í rannsóknarniðurstöðunum. Hildur Gestsdóttir mannabeinafræðingur fjallaði um rannsóknir á mannabeinum úr kirkjugarðinum á Hofstöðum og Árni Einarsson Líffræðingur greindi frá nytjum villta dýra sem öskuhaugarnir á Hofstöðum leiddu í ljós. Ingunn Ásdísardóttir Þjóðfræðingur velti fyrir sér heiðnum átrúnaði og nautshauskúpunum á Hofstöðum. Unnsteinn Ingason greindi frá tilurð hins Þingeyska fornleifafélags og Fornleifaskóla barnanna og tengslum þessara félaga við Hofstaðarannsóknina og Sif Jóhannesdóttir Þjóðfræðingur ræddi möguleika á hagnýtingu rannsókna og tengingu vísindamanna við almenning og ferðafólk. Orri Vésteinsson fornleifafræðingur ræddi að lokum um landnám á Norðausturlandi og hvernig Hofstaðarannsóknin hefur breytt sýn vísindamanna á landnám Íslands og jafnframt vakið upp fleiri spurningar heldur en rannsóknin hefur svarað. Skipuleggendur málþingsins voru þær Sif Jóhannesdóttir f.h. Hins þingeyska fornleifafélags og Þóra Pétursdóttir f.h. Fornleifastofnunar Íslands. Málþingið þótti takast afar vel og lokið var miklu lofsorði á fyrirlesara sem og skipuleggendur málþingsins. Á næstu vikum munu hér á vefsíðu Hins þingeyska fornleifafélags birtast stuttir útdrættir úr fyrirlestrunum er fluttir voru á málþinginu.