Aðalfundur Hin þingeyska fornleifafélags var haldinn mánudagskvöldið 14. Júní síðastliðinn kl. 20.00 í Menningarmiðstöð Þingeyinga á Húavík og var ágætlega sóttur. Aðalfundarstörf voru hefðbundin og lagði stjórn fyrir fundinn tillögu um framkvæmdaáætlun sumarsins sem var samþykkt eftirfarandi: Litlu –Núpar. Opnað verður svæði milli bátsgrafar og rofabarðs en mögulegt er að þar leynist kuml. Einnig verða tekin borkjarnasýni umhverfis meintan bæjarhól og leitað að ruslahaug. 50 manndagar verða nýttir á vettvangi og 15 dagar í úrvinnslu. (50 manndagar er t.d. 5 manns að störfum í 10 daga). Þegjandadalur, Ingiríðarstaðir. Rannsökuð verða 1-2 möguleg kuml í hinum afar stóra kumlateig á Ingíríðarstöðum og tekin verða borkjarnasýni auk prufuskurða í og við meintan víkingaaldarskála. 59 manndagar á vettvangi og 12 dagar í úrvinnslu. Seljadalur, grunnur að minjakorti. Lokið verður við skráningu minja sem er undanfari minjakorts af dalnum. 20 manndagar á vettvangi og 18 manndagar í úrvinnslu. Þórutóftir á sunnanverðum Seljadal. Þórutóftir eru áður óþekktar tóftir sem fundust árið 2008 í grennd við svonefnt Hólakot og eru nefndar eftir finnandanum, Þóru Pétursdóttur fornleifafræðingi. 4 manndagar á vettvangi og 2 í úrvinnslu munu verða nýttir til töku prufuskurðar í gegnum langvegg auk þess sem leitað verður að gjóskulögum og mögulegu gólflagi eða gólfskán til að aldursgreina tóftirnar og geta til um notkun þeirra. Þingey, uppmæling – myndataka. 7 manndagar á vettvangi og 3 manndagar í úrvinnslu verða nýttir í Þingey við uppmælingu. Ákveðið hefur verið að gera tilraun til mælinga með myndatöku úr lofti og beita tölvutækni við að sameina myndir og leitast við að búa til þrívíddarmynd á tölvutæku formi af minjunum sem þar eru. Verkefnið er tilraunaverkefni . Áætlaður kostnaður við ofangreind verkefni er u.þ.b. fimm miljónir króna. Jafnframt er unnið að drögum að upplýsingaskilti um Þegjandadalinn, vefbæklingum, minjagöngum og fl. og fl. Auk þess sem áhersla verður lögð á virkari heimasíðu en verið hefur. Gert er ráð fyrir ríflega einni miljón til þessara verkefna. Nýja stjórn Hins þingeyska fornleifafélags skipa: Unnsteinn Ingason, Tryggvi Finnsson og Ásgeir Böðvarsson. Varamaður í stjórn er Halldór Valdimarsson.