Fimmtudaginn 7. júlí kl. 14.00 og 20.30 stendur Hið þingeyska fornleifafélag í samstarfi við Fornleifastofnun íslands fyrir göngu- og fræðsluferð inn Þegjandadal þar sem fornleifafræðingar verða heimsóttir á Ingiríðarstaði og um kvöldið verða fornleifafræðingar heimsóttir á Brettingsstaði í Laxárdal þar sem unnið er að fornleifaskráningu.
Grafið hefur verið á Ingiríðarstöðum á hverju sumri undanfarin ár og margt afar forvitnilegt komið í ljós og umtalsvert hefur bæst við þekkingu vísindamanna á greftrunarsiðum forfeðra okkar í heiðnum sið. Búið er að opna svæði sem er 4×15 metrar að stærð og mögulega leynast þar undir kuml. Upp hafa komið tennur úr hrossi, járnbútar og beinaleyfar sem kunna að vera mannabein. Einnig er grafið norðanvert í kumlateiginn og komu þar í ljós stórar stoðarholur (holur eftir timburstoðir) en ekkert er vitað um tilgang þeirra enn sem komið er. Því lengur sem vísindamenn dvelja á Ingiríðarstöðum í Þegjandadal, því fleiri spurningar vakna um líf, störf og dauða forfeðra okkar á fyrstu öldum byggðar í Þingeyjarsýslu.
Lagt verður af stað í göngu inn Þegjandadal frá bílaplaninu á Grenjaðarstað kl. 14.00 fimmtudaginn 7. júlí undir fararstjórn Sifjar Jóhannesdóttur. Minnt er á góða skó og göngustafi en gangan tekur u.þ.b. 1,5 klst. hvora leið. Einnig er vissara að taka með sér vargskýlur en talsverður mývargur er í Þegjandadalnum þessa dagana.
Seinni gangan kl. 20.30 er á Brettingsstöðum í Laxárdal en þar er að finna gríðarlega miklar mannvistarleifar en jarðarinnar er fyrst getið í heimildum á 15. öld en er að líkindum mun eldri og margt bendir til að búseta hafi hafist á jörðinni, mögulega strax á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Ritaðar heimildar um jörðina eru fátæklegar en af þeim má þó ráða að bærinn hefur verið í eyði um skeið á 16. öld og hann fór í eyði í bólunni í upphafi 18. aldar. Jörðin er stór og henni tilheyra miklar heiðar sem vafalaust hafa verið skógi vaxnar á fyrri öldum og miklar kolagrafir má finna í heiðinni sem og rústir nokkurra mögulegra fornbýla. Þrátt fyrir að jörðinni hafi fylgt veiðiréttur er hún lágt metin á síðari öldum og í upphafi 20. aldar er henni lýst sem harðbalakoti og sögð lakasta jörðin í öllum Laxárdal í upphafi 20. aldar. Tóftirnar í landi Brettingsstaða eru afar fjölbreyttar, stæðileg bæjarrúst yngsta bæjarins, bænhúsaleifar, fjölmörg útihús og garðlög.
Gangan hefst á hlaðinu á Brettingsstöðum kl. 20.30 fimmtudaginn 7. júlí og ekið er vegslóða af þjóðvegi I á Mývatnsheiði, skammt austan við afleggjarann að Stöng, sjá nánar á korti. Gestir eru beðnir að aka hægt og gætilega um vegin og huga að gróðri þegar ökutækjum er lagt. Vissara er að hafa vargskýlur og vatnsbrúsa meðferðis og góðir skór og göngustafir eru æskilegir.