Heimsókn á „kuml“ á Narfastöðum í Reykjadal
Miðvikudaginn 25. júlí býður HIð þingeyska fornleifafélag gestum að heimsækja vísindamenn á „kuml“ á Narfastöðum í Reykjadal í samstarfi við Fornleifastofnun Íslands og Ferðaþjónustuna á Narfastöðum. Kumlið er spölkorn norðan og ofan bæjar á Narfastöðum, létt ganga í lyngmóa. Mæting heima á hlaði á Narfastöðum kl. 20.00
Dagana 24. til 27. júlí verður gerð fornleifarannsókn á meintum legstað frá heiðni í landi Narfastaða. Staðurinn fannst við vettvangsathuganir s.l. vor og er utan og ofan við bæinn. Að sögn Adolfs Friðrikssonar fornleifafræðings og stjórnanda verksins er rannsóknin liður í leitinni að kumlum frá heiðni á landsvísu. Engar vísbendingar voru um mannabeinafundi eða annað sem benti á staðinn.
Hinsvegar hefur hann yfirbragð hins dæmigerða kumls, sem raskað hefur verið eftir lok heiðninnar: aflangar, djúpar holur, á lágum hól, með stefnu inn og út dalinn, skammt utan gamla heimatúnsins og við forna leið sem lá með heiðarrótum ofan við bæjarröðina í Reykjadal vestanverðum. Að sögn Adolfs er ómögulegt að fullyrða að ónefndi hóllinn á Narfastöðum geymi heiðin kuml, enda verði aðeins úr því skorið með uppgrefti. Hinsvegar hefur gengið vel að finna áður óþekkt kuml í S-Þingeyjarsýslu. Á síðustu árum hafa slíkir greftrunarstaðir fundist við Saltvík, hjá eyðibýlinu Litlu-Núpum, á Þegjandadal, við Lyngbrekku í Reykjadal og á Geirastöðum í Mývatnssveit.
Rannsóknin er kostuð af ferðaþjónustunni á Narfastöðum og Fornleifastofnun Íslands, auk stuðnings frá Rannsóknarráði Íslands og NABO – samtökum fornleifafræðinga við N-Atlantshaf.
Allir eru velkomnir. UIng.