Miðheiðargarðurinn mikli á laugardag
Hið þingeyska fornleifafélag í samstarfi við Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn og Fornleifastofnun Íslands stendur fyrir gönguferð laugardaginn 20. ágúst kl. 10.00 þar sem Miðheiðargarðurinn mikli á Fljótsheiði verður skoðaður með leiðsögn ásamt fleiri fornum mannvirkjum á heiðinni. Safnast verður saman við afleggjarann að Mýlaugsstöðum í Aðaldal og þar verður sameinast í bíla og ekið upp á heiðina en þaðan verður gengið í suður, mestmegnis á garðinum sjálfum. Miðheiðargarðurinn kann að vera eitt mesta mannvirki Íslandssögunnar áður en vélaöld hófst. Garðurinn er talinn frá þjóðveldisöld eins og flest önnur garðlög í Þingeyjarsýslu og er greinilegur á um 15. km.
Garðakerfið í Þingeyjarsýslu er gríðarmikið og hafa öll sýnileg garðlög verðið kortlögð að Náttúrurannsóknarstöðinni við Mývatn (RAMY) og Fornleifastofnun Íslands (FSI) og heildarlengd sýnilegra garða er ríflega 400 km. Rannsóknir hafa verið framkvæmdar á 27 mismunandi stöðum í garðakerfinu og gefa vísbendingar um fyrstu framkvæmdir við garðlögin og síðustu endurbyggingar. Samkvæmt þeim hefur meirihluti garðanna verið byggður og notaður á tíundu og elleftu öld en flestir eru þeir hrundir á tólftu öld þótt sumum hafi verið viðhaldið lengur en nær allir eru þeir hrundir löngu áður en gjóskan úr Veiðivötnum féll árið 1477.
Megnið af görðunum sjást nú aðeins sem einskonar upphækkun í landslaginu en beggja vegna má sums staðar enn sjá dældirnar þaðan sem efnið í garðinn var tekið. Á nokkrum stöðum hefur uppblástur og rigningar / leysingavatn haldið rofinu áfram og allur jarðvegur horfið en annars staðar hefur fok safnast að garðrústinni í gegnum aldirnar og aukið hana til muna og því má sjá allt að 6-8 metra breiðar hækkanir sem minna mest á vegi og hafa efalaust verið notaðir sem slíkir í gegnum aldirnar af gangandi fólki og ríðandi.
Á fljótsheiðinni má einnig finna fjölda annarra minja og má þar nefna „stóru-tóft“ sem sjá má á mynd hér að neðan en þar má einnig sjá greinileg garðlög og fornar reiðgötur og kolagrafir er að finna víða um heiðina. Nánar má lesa um garðarannsóknirnar í grein eftir Árna Einarsson og Oscar Alred með því að smella hér: The archaeological landscape of northeast Iceland:… Ath. greinin er nokkuð þung (8 mb) og er á ensku.
Þátttakendur eru hvattir til að klæða sig eftir veðri og góðir skór og stafir eru æskilegir sem og vatnsflaska og nestisbiti sem snæða má á heiðinni. Tvær ágætar niðurgöngur eru af heiðinni og sú fyrri er niður hjá Höskuldsstöðum en gangan þangað er u.þ.b. 5 km. og sú seinni er niður hjá Hömrum og er samtals u.þ.b. 9 km. Þátttakendur verða selfluttir til bíla sinna við Mýlaugsstaði eftir þörfum.
Leiðsögumaður er Árni Einarsson forstöðumaður Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn. HÞF / UIng