Kuml í kvöld á Þegjandadal

Steinkragi umhverfis kumlið kominn í ljós

Halda mætti að á Ingiríðarstöðum í Þegjandadal væri flesta það markverðasta komið í ljós eftir margra ára rannsóknir á vegum Hins þingeyska fornleifafélags og Fornleifastofnunar Íslands.  Veggur í miðjum kumlateig kom í ljós árið 2010 og í veggnum var stór hola með manna- og dýrabeinum og við hlið veggsins var gröf ungabarns.  Tóftir mikils skála er að finna á Ingiríðarstöðum og áfram mætti telja.

Nú er hópur fornleifafræðinga að störfum enn á ný á Ingiríðarstöðum í Þegjandadal og enn kemur dalurinn að óvart.  Þegar flett hafði verið ofan af meintu kumli fór að koma í ljós einskonar umgjörð úr grjóti svo helst minnir á hlaðna kistu eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.  Þegar þetta er skrifað að morgni miðvikudags 1. ágúst er ekki ljóst hvað í gröfinni leynist en það mun skýrast í dag og þeir sem heimsækja Ingiríðarstaði í kvöld í gönguferð Hins þingeyska fornleifafélags munu vonandi fá að vita meira kumlbúann á Ingiríðarstöðum og grafarumbúnað hans.

Mæting er á bílaplani á Grenjaðarstað kl. 19.00

Gangan er um mólendi og tekur ríflega eina klst hvora leið.  Gott er að hafa göngustafi.  UnnstIng.