Fornleifar í Þingeyjarsýslum

Bronsnæla frá Litlu Núpum
Uppgröftur á Litlu Núpum
Kuml á Daðastaðaleiti

Þann 20.maí 2011 verður sýningin „Fornleifar í Þingeyjarsýslum“ opnuð á jarðhæð Safnahússins.

 

Á síðustu árum hafa víðtækar og umfangsmiklar fornleifarannsóknir farið fram í Þingeyjarsýslum. Með rannsóknum þessum hefur eflst þekking á búsetu fyrr á öldum – ekki síst á söguöld og fengist skýrari mynd af því hvernig fólk lifði fyrir um 1000 árum.

 

Markmið sýningarinnar er að birta yfirlit yfir helstu fornleifarannsóknir í Þingeyjarsýslum, með sérstakri áherslu á síðustu 25 árin og efla áhuga fólks á fornminjum á svæðinu. Á sýningunni verða fornmunir sem fundist hafa við fornleifarannsóknir í héraðinu. Bátkumlið á Litlu Núpum í Aðaldal sem fannst árið 2007 er afar merkur fornleifafundur og er á sýningunni fjallað sérstaklega um hann.

 

Að sýningunni standa Menningarmiðstöð Þingeyinga, Hið þingeyska fornleifafélag og Fornleifastofnun Íslands. Sýningarstjórar eru Sigrún Kristjánsdóttir, Guðrún Alda Gísladóttir, Ásgeir Böðvarsson og Sif Jóhannesdóttir.

 

Sýningin stendur til septemberloka.

 

Frétt fengin af vef Menningarmiðstöðvar Þingeyinga www.husmus.is