Í rústum Hrísheima.

Kamarinn forni fyrir miðri mynd.
Ekki er alltaf augljóst að um fornleifar geti verið að ræða.
Við
Fátt mynnir á blómlegt býli.

Fornir fimmtudagar.

Fyrsta ferð þessa sumars undir merkjum „fornra fimmtudaga“ var farin þann 18 júlí til Hrísheima undir leiðsögn fornleifafræðinganna Adolfs Fiðrikssonar og Orra Vésteinssonar.  Hrísheimar kallast rústir rétt hjá býlinu Heiði í Mývatnssveit og á árunum 2001 – 2006  fóru fram fornleifarannsóknir þar.  Eins og kom fram í máli þeirra máli Adolfs og Orra þá var meðal annars ráðist í þessar rannsóknir til að fá samanburð við rannsóknir sem þegar voru í gangi á Hofstöðum og í Sveigakoti en flest bendir til að Hofstaðir hafi verið bústaður auðugra einstaklinga  í upphafi landnámsaldar en Sveigakot (rústir suðvestan við Grænavatn) fremur dæmi um kotbúskap þeirra tíma og kenningin var sú að Hrísheimar væru hugsanlega dæmi um meðalbú á  landnámsöld.  Var hugmyndin að fá yfirlit yfir búskaparháttu og félagsstöðu í Mývatnssveit á landnámsöld.

Mikill hluti af rústum Hrísheima er horfinn vegna uppblásturs.  Heillegasta svæðið  eru leifar af ruslahaugum og skammt ofan þeirra er hóll með byggingarleifum – hugsanlega hluti af aðalbyggingunni en þar hefur enn ekki verið rannsakað að ráði.  Framan við ruslahaug þennan er mýrardrag og þar austan við eru rústir byggingar úr fornöld en norðan mýrarinnar við Selhóla eru líklega yngri leifar af seli.  Ofan og suðvestan við meinta aðalbyggingu sjást á nokkrum stöðum  gjallhrúgur eftir rauðablástur.  Uppi á einum af Selhólunum  – nokkurn veginn norðan við fyrrnefnt sel er staður sem þótti líklegur sem leifar af kumli en við rannsókn fannst þar fátt nema leifar dýrabeina.

Ljóst er að Hrísheimar eru eitt af elstu merkjum um mannabústaði í Mývatnssveit og raunar landinu öllu.  Þannig fundust mannvistarleifar rétt ofan við öskulag sem féll árið 871, hins svokallaða landnámslags og eins má sjá ummerki um að byggð hafi staðið þar um nokkurn tíma þegar gjóskulag féll árið 940.  Upphaflega virðast landnemar Hrísheima hafa byggt jarðhýsi og síðan raunar annað og urðu þau síðan grunnur að fyrrnefndum öskuhaugum þegar varanlegri bæjarhús risu.  Að sögn Orra og Adolfs má raunar sjá þetta fyrirkomulag oft í byggingu bæja á landnámsöld.  Við hlið þeirra er síðan að margra mati merkilegasti fundur Hrísheima – nefnilega kamar. Það bendir til að íbúar Hrísheima hafi verið þokkalega efnaðir að kamarinn var yfirbyggður og mátti vel sjá marka fyrir stoðarholum fyrir þak en einnig fyrir setbekk þann er sest var á þegar menn gengu örna sinna.  Þar fyrir neðan mátti síðan finna heilmiklar leifar af haughúsi/frárennsli.  Ekki er vitað til að áður hafi fundist leifar af heillegum kamri frá 10 öld á Íslandi og raunar þótt víðar væri leitað en á nokkrum stöðum hafa fundist leifar af útikömrum, m a á Hofstöðum.  Samkvæmt rannsóknum á innihaldi öskuhauganna virðist sem íbúar Hrísheima hafi haft svipaðar fæðuvenjur og samtímafólk þeirra í Sveigakoti og á Hofstöðum,  þannig má á öllum stöðum finna leifar af sjómeti  s s þorski og sjófugli en einnig egg, silung, lax, og leifar dýrabeina t d af sauðfé og geitum auk nautgripa en neysla svínakjöts var þó  mest áberandi í Hrísheimum. Ólíkt því sem var á Hofstöðum þá virðist byggð ekki hafa staðið mjög lengi að Hrísheimum en verið ósltin frá um 870 og næstu 150 – 200 ár  en á elleftu öld virðist byggðin leggjast af án þess að skýring sé á slíku. Var svo raunar um mörg býli í hásveitum Þingeyjarsýslu.

Ferð þessi var farin fyrir tilstuðlan Hins þingeyska fornleifafélags, í samvinnu við Fornleifastofnun Íslands og var hún að mati ferðafélaganna  hin fróðlegasta.  Rétt er að minna á upplýsingar um „forna fimmtudaga“ sem sendir voru á öll heimili í Þingeyjarsýslum og eins má finna upplýsingar um næstu ferðir á www.fornleifafelag.is .

Ásgeir Böðvarsson