Mánudaginn 14. ágúst hófst fornleifarannsókn á vegum Hins þingeyska fornleifafélags og Fornleifastofnunar Íslands á minjum í Skuldaþingsey í Skjálfandafljóti. Howell M. Roberts frá Fornleifastofnun Íslands stjórnar uppgreftrinum en ásamt honum eru það James S. Taylor, Freya Sadarangani og Ramona Harrison sem vinna að uppgreftrinum. Í Skuldaþingsey er þyrping af óvenju mörgum, og mjög fornum tóftum, sem kunna að vera leifar af fornum þingstað. Í eynni eru a.m.k. 30 forn mannvirki, búðatóftir, sem til þessa hafa verið mjög lítt kannaðar, enda hefur athygli fræðimanna einkum beinst að minjum í Þingey. Árið 2001 var gerð lítilsháttar athugun með grefti í Skuldaþingsey og fundust þá allnokkur gjóskulög í samhengi við mannvistarleifarnar. Tóftirnar eru a.m.k. frá miðöldum, en nákvæmari aldursákvörðun fékkst ekki við þá athugun. Fjölmörgum spurningum er ósvarað, m.a. hver séu tengslin milli búðanna í Þingey og Skuldaþingsey.
Vonir standa til að sú rannsókn sem nú stendur yfir varpi frekara ljósi á hlutverk Skuldaþingseyjar. Uing.