Nú hafa fornleifafræðingar á vegum Hins þingeyska fornleifafélags og Fornleifastofnunar Íslands að mestu lokið rannsóknum í Skuldaþingsey og eru komnir í Litlu Núpa sem er fornt býli og tilheyrir nú Laxamýri. Litlu Núpar eru í grösugum hvammi á austurbakka Laxár, gengt flugvellinum í Aðaldalshrauni og vel má sjá tóftirnar ef keyrt er til suðurs flugvallarafleggjara. Rústirnar á
Litlu-Núpum eru fyrir margra hluta sakir merkilegar. Þær eru umluktar tveimur, miklum garðlögum og svæðið sem ytri garðurinn afmarkar er óvenju stórt eða u.þ.b. 24 ha að stærð. Á því svæði er að finna a.m.k. 13 tóftir og þrjú stór gerði og allar eru tóftirnar fornlegar og signar að undanskilinni beitarhúsatóftinni en beitarhúsin voru í notkun til ársins 1913. Kuml fundust á Litlu Núpum
fyrir tilviljun árið 1915, þegar drengur einn var að elta hunangsflugu og sá hana fljúga inn í þúfu. Rótaði hann í þúfunni og vildi finna búið. Fann hann þar hauskúpu og var flugnabúið inni í henni. Matthías Þórðarson þáv. þjóðminjavörður rannsakaði kumlið árið 1915 og í ljós kom að þar hafði verið heygð fullorðin kona, með höfuð til norðurs. Skammt frá kumlinu voru uppblásin bein úr
tveimur hrossum. Adolf Friðriksson, fornleifafræðingur kom á Litlu Núpa sumarið 2004 og tókst að staðsetja kumlið frá 1915 og auk þess var grafið þar nærri og fundust þar tvö kuml. Ekki gafst þó tími það sumar til að rannsaka nánar umhverfi kumlanna. Þær rannsóknir sem nú standa yfir miða að því að aldurssetja minjarnar og í því skyni verður grafinn könnunarskurður 2×5 metrar í forna tóft sem liggur norðarlega í landinu og að auki
verða grafnir nokkrir minni könnunarskurðir í garðlögin sem liggja umhverfis Litlu Núpa. Uing.