Uppgreftri lokið í Skuldaþingsey

Nýverið lauk rannsóknum á vegum Hins þingeyska fornleifafélags í Skuldaþingsey. Í samtali við Howell M. Roberts sem stjórnaði uppgreftrinum fyrir hönd Fornleifastofnunar Íslands kom fram að grafinir voru tveir fjórðungar af einni búðatóft sem reyndist vera aflöng bygging, u.þ.b. 11 metra löng og 5 metra breið með veggjum úr torfi, allt að eins metra þykkum. Veggirnir reyndust mis vel varðveittir og greinileg merki eru um einfaldan inngang í suð-vestur horni byggingarinnar. Við innganginn fannst einnig þunnt gólflag sem eyddist eftir því sem innar dró. Glöggt mátti sjá að gólfið búðarinnar var niðurgrafið, u.þ.b. 15 cm. frá upprunalegu jarðvegsyfirborði og uppgröfturinn notaður í veggina. Greinilega mátti sjá spaðaför í óhreyfðum jarðvegi þegar hreinsað hafði verið vandlega ofan af gólfinu. Grá-græna gjósku var að finna í torfi í veggjum sem og í jarðlögum umhverfis og því ljóst að byggingin var reist eftir að sú gjóska féll og bráðabirgðaniðurstöður vísa á ártalið ca 950. Gert var við búðaveggina a.m.k. einu sinni og byggingarlagið og hrun í veggjunum benda til þess að byggingin hafi verið komin úr notkun talsvert áður en grófgert gjóskulag, sennilega úr Veiðivötnum 1477, féll yfir svæðið. Engir munir fundust við uppgröftinn ef frá eru talin nokkur dýrabein. Uppgraftrarsvæðinu hefur verið lokað og framundan er greining og úrvinnsla gagna. Uing.

För eftir forna reku í Skuldaþingsey. Mynd: HMR
Búðatóft í Skuldaþingey. Inngangurinn neðst til hægri. Mynd: HMR