Fornleifarannsóknir á Litlu Núpum í Aðaldal

Hið Þingeyska fornleifafélag stóð að fornleifarannsóknum á Litlu Núpum í Aðaldal nú í sumar og lauk þeim rannsóknum fyrir skömmu. Þegar keyrt er til Húsavíkur úr suðri, fram hjá flugvellinum í Aðaldalshrauni reka glöggir ferðalangar gjarnan augun í fornlegar rústir í grösugum hvammi austan megin við Laxá, gegnt flugvellinum. Rústirnar fanga augað, ekki síst vegna þess hve mikil garðlög umlykja staðinn og þar er gróska meiri en í móunum umhverfis. Umræddur staður hefur á seinni öldum gengið undir nafninu Litlu-Núpar, enda voru rústirnar upphaflega í landi Núpa og jafnvel talinn landnámsbyggð norðarlega í Hvammsheiðinni vestanverðri. Nú tilheyra rústirnar hins vegar Laxamýri. Rústirnar á Litlu-Núpum eru fyrir margra hluta sakir merkilegar. Þær eru umluktar tveimur, miklum garðlögum og túnin sem garðarnir afmarka eru óvenjustór. Innan túngirðingar er að finna fjölmargar tóftir og gerði sem eru að mestu leyti óhreyfð þó að beitarhús hafi verið byggð upp á tóftunum á síðari öldum en þau voru í notkun til 1913. Rústa eyðibýlisins er fyrst getið í rituðum heimildum um aldamótin 1700, í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Þar segir: „Litlunupar kallast fornt eyðiból hjer í landinu ut frá heimajörðinni, sem rómast að þar hafi í fyrndinni staðið, þo menn viti þess engin sannyndi. Sýnileg byggíngamerki eru hjer tóft og girðínga. Á því eru munnmæli að þessi jörð hafi eyðilagst fyrir reimleika. Ekki má hjer aftur byggja fyrir heyskaparleysi, þó er túnstæði nokkuð“. 1915 fannst kuml við ytri túngarðinn á Litlu Núpum og Matthías Þórðarson, þáverandi þjóðminjavörður rannsakaði kumlið sama ár og í ljós kom að þar hafði verið heygð fullorðin kona, með höfuð til norðurs. Skammt frá kumlinu voru uppblásin bein úr tveimur hrossum. Adolf Friðriksson fornleifafræðingur kom á Litlu Núpa árið 2004 og tókst að staðsetja kumlið frá 1915 að nýju og frekari athuganir leiddu í ljós tvö önnur kuml, fast við mikla götuslóða sem liggja út úr túninu. Staðsetningin kemur að heim og saman við rannsóknir sem gerðar hafa verið undanfarin ár á staðsetningu kumla sem hafa sýnt að algengast hefur verið að forfeður okkar hafa verið heygðir við leiðir (reiðleiðir/götur), ýmist í túnjaðri eða í jaðri landareigna. Því má leiða að því líkum að bæði vallargarður og götuslóðarnir hafi þegar verið fyrir hendi þegar kumlin voru sett niður og það bendir til þess að á Litlu Núpum sé að finna búsetuleifar frá fyrstu öldum byggðar. Fornleifaskráning var gerð á Litlu Núpum sumarið 2003 og leiddi í ljós að ytri túngarðurinn afmarkar svæði sem er allt að 24 ha að stærð. Innan garðsins eru a.m.k. 13 tóftir og þrjú stór gerði og allar eru tóftirnar fornlegar og signar að undanskilinni beitarhúsatóftinni en beitarhúsin voru byggð um aldamótin 1900. Rannsóknir sumarsins 2006 miðuðu að því að aldursetja rústirnar með því að gera könnunarskurði og kanna einnig um leið hvaða mannvistarleifar væri þar að finna og hve lengi búið hafi verið á Litlu Núpum. Í samtali við Howell M. Roberts sem stjórnaði rannsóknum á Litlu Núpum nú í sumar f.h. Fornleifastofnunar Íslands, kom fram að gerðir voru könnunarskurðir inn í tvær aflangar tóftir í norðurhluta minjasvæðisins og einnig könnunarskurður í rétthyrnda tóft sem tengdist öðrum túngarðinum. Veggir aflögnu bygginganna virtust hafa fallið undan halla landsins og í hvorugri tóftinni var að finna gólflög sem gjarnan gefa upplýsingar um mannvist. Líklegt má telja að báðar tóftirnar séu rústir gripahúsa og bæði voru húsin reist eftir 950 og komin úr notkun löngu fyrir 1477 þó eftir sé að staðfesta gjóskulagagreiningu. Í þriðju tóftinni sem liggur samsíða túngarðinum kom í ljós vel varðveittur, eins metra þykkur torfveggur sem virðist hafa verið endurgerður eða lagfærður þrisvar sinnum. Í tveimur neðri torflögunum mátti sjá gjósku frá 950 og í efsta laginu var mjög þunnt lag af hvítri gjósku sem líklega er frá 1104 eða 1158. Yfir öllu lá síðan gjóskulag frá 1477. Rétt er að geta þess að ekki er búið að staðfesta bráðabirgðagreiningu á gjóskulögunum. Í tóftinni var einnig að finna mjúkt gólflag við útveggina sem síðan þynntist er innar dró og við útveggina var einnig að finna nokkuð stórar og djúpar stoðarholur sem gefa til kynna að byggt hafi verið yfir með viði. Notkun byggingarinnar er ekki ljós. Engir munir fundust við rannsóknirnar og ljóst er að mörgum spurningum er enn ósvarað um rústirnar á Litlu Núpum. Uing.

Einnig má sjá afmarkaða reiti suð-austan við beitarhúsatóftina (ofan til hægri á mynd). Mynd: Árni Einarsson.
Litlu Núpar. Vallargarðarnir og reiðgöturnar eru skýrar sem og ferningslaga gerði sem ekki er ljóst hvaða hlutverki gengdu. Mynd: Árni Einarsson
Litlu Núpar. Beitarhúsin efst til hægri. Mynd: Árni Einarsson.
Litlu Núpar í Aðaldal. Horft frá flugvellinum í Aðaldalshrauni.