Skipulagðar gönguferðir um Þegjandadal

Síðastliðinn laugardag, 8. ágúst, var farið í gönguferð um minjasvæðið á Þegjandadal á vegum Hins þingeyska fornleifafélags. Þetta var fyrri ferðin af tveimur sem félagið stendur fyrir. Sif Jóhannesdóttir starfsmaður félagsins gekk með hópnum og sagði frá sögu svæðisins, þeirri rannsóknarstarfsemi sem þar hefur farið fram og helstu niðurstöðum. Gengið var fram Þegjandadal að vestan fram að Ingiríðarstöðum en þar eru fornleifafræðingar frá Fornleifastofnun Íslands að störfum þessa dagana á vegum félagsins. Þar tók Howell Magnus Roberts, deildarstjóri hjá Fornleifastofnun Íslands, á móti hópnum og fræddi göngumenn um helstu atriði rannsóknanna á Ingiríðarstöðum sem nú standa yfir. Á síðasta ári fundust för eftir arð (fornan plóg) sem gefa vísbendingar um akuryrkju og þegar göngumenn komu í Ingiríðarstaði voru þar einmitt staddir frjókornafræðingar til að taka sýni úr jarðveginum til rannsókna. Í sumar er m.a. áfram grafið í kumlateig en þar fannst silfurpeningur í síðustu viku. Einnig er nú grafið í tóft sem ýmislegt bendir til að sé bænhústóft, en þar má sjá á yfirborði garð sem liggur í nokkuð stóran hring og inni í honum er lítil ferhyrnt tóft. Eftir á að koma í ljós hvort tilgátan um bænhús reynist rétt og hvort grafir sé að finna innan garðveggsins. Eftir mjög fræðandi viðdvöl á Ingiríðarstöðum var gengið þvert yfir dalinn og niður hann austan megin. Níu manns tóku þátt í göngunni og fengu brot af því besta frá veðurguðunum, glampandi sólskin og yfir 20 stiga hita, úrhellisrigningu og jafnvel vottaði fyrir hagléli. Þegjandadalsgangan verður endurtekin næstkomandi miðvikudag 12. ágúst. Mæting er á bílastæðinu á Grenjaðarstað og lagt verður af stað kl. 16.00. Gangan með stoppum tekur 3-4 klst. Allir eru velkomnir í gönguna og þátttaka er ókeypis. SJ/UI

Halldór Valdimarsson og Oddný Magnúsdóttir komu ríðandi úr Laxárdal til móts við hópinn. Mynd: Sif Jóh.
Áð á landamerkjagarði við Ingiríðarstaði. f.v. Ásgeir Böðvarsson, Sigrún Kristjánsdóttir, Hulda Kristjánsdóttir, Sigurdís Sveinbjörnsdóttir og Þórey Hermannsdóttir. Bökin eiga Margrét Sverrisdóttir og Halla Rún Tryggvadóttir. Mynd: Sif Jóh.
För eftir arð (plóg) á Ingiríðarstöðum. ©2008 HMR