Verkefni sumarsins

Á aðalfundi félagsins í vor var samþykkt áætlun fyrir verkefnin sem stefnt er að vinna á vegum Hins Þingeyska Fornleifafélags í sumar. Um er að ræða samtals 7 verkefni. Aðal verkefni sumarsins eru í fyrsta lagi mælingar á tóftum og minjaleyfum í Þingey og Skuldaþingey. Undanfarin ár hefur staðið til að fá írska sérfræðinga til mælinga á þessum minjum, en í ljósi m.a. stöðu íslensku krónunnar hefur verið horfið frá þessum fyriráætlunum og í stað þess er stefnt að mælingum á vegum Fornleifastofnunnar. Í öðru lagi verður haldið áfram að vinna í Þegjandadal og verður lögð áhersla á áframhaldandi rannsóknir á kumlteignum og kirkju á Ingiríðarstöðum. Og að sjálfsögðu munum við halda áfram rannsóknum á kumlteignum á Litlu Núpum. Minni verkefni sem ætlað er að fara í, eru meðal annars rannsóknir á nýfundnum rústum í Seljadal, tóftir sem engar ritaðar heimildir eru til um né nafngift þeirra. Þar að auki verður Stóri Skiphóll í landi Narfastaða forkannaður til að leiða í ljós hvort kuml séu í hólnum. Loks verður haldið áfram með gerð minjakorts af Seljadal, auk þess sem stefnt er að gerð vefbæklinga sem aðgengilegir yrðu hér á heimasíðu félagsins, almenningi til upplýsinga. Mun starfsemi á vegum félagsins hefjast 20. júlí á Litlu Núpum að sögn Howell M. Roberts, fornleifafræðings.