Fimmtudaginn 1 ágúst var farin skoðunarferð að Fremri-Fjöllum í Kelduhverfi á vegum Hins þingeyska fornleifafélags, en félagið hefur undanfarin ár staðið fyrir kynningarferðum um áhugaverða staði undir nafninu „Fornir fimmtudagar“. Leiðsögumenn í ferðinni voru Stefán Ólafsson fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands og Árni Einarsson forstöðumaður Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn en báðir hafa rannsakað þetta svæði talsvert auk þess sem Ólafur Jónsson bóndi á Fjöllum miðlaði þekkingu sinni af svæðinu.
Fremri-Fjöll kallast tóftasvæði eða rústir sem eru 3,5 km sunnan við býlið Fjöll í Kelduhverfi. Tóftir þessar eru afar athyglisverðar fyrir margra hluta sakir. Í fyrsta lagi eru þær óvenju margar á ekki stærra svæði og virðist sem þarna séu leifar tveggja eða jafnvel þriggja skála/langhúsa auk nokkurra minni byggingarleifa. Auk þess eru garðakerfi eða gerði mjög vel sjáanleg og mynda lítil hólf eða tengja saman tóftirnar. Svipar þetta að nokkru leyti til gerða eða garðahólfa sem sjást á Ingiríðarstöðum í Þegjandadal og rannsóknir þar sýndu merki um plógför sem bent gætu til að um kornyrkju hefði verið að ræða í þessum hólfum þótt einnig hafi slík gerði hugsanlega þjónað sem hólf til að geyma skepnur. Það vekur einnig athygli að þessar tóftir eru óvenjulega vel sýnilegar allar, bæði byggingar og garðar standa talsvert hátt yfir umhverfið – sums staðar allt upp í 1 metra. Flest bendir til að þær séu frá landnámsöld en ekki hefur verið grafið í tóftirnar til að aldursgreina þær. Hins vegar var gerður könnunarskurður í gegnum garð þar stutt frá og reyndist sá garður hlaðinn að minnsta kosti fyrir 14. öld og líklega strax eftir landnám. Þess má einnig geta að Sigurður Jónsson frá Garði skrifaði ýtarlega fornleifalýsingu af öllum þekktm tóftum í Kelduneshreppi og hefur sú lýsing verið rannsakendum til mikils gagns við vinnu sína.
Tóftasvæði Fremri-Fjalla er 360 x 600 metrar að stærð og er afmarkað af görðum auk þess sem svæðið sjálft er skipt upp í reiti af görðum eða gerðum eins og áður var minnst á. Ekki er alltaf auðvelt að sjá hvort um tóft eða lítið gerði er að ræða en innnan þessa svæðis eru a m k 11 tóftir vel sjáanlegar og 8 gerði. Fyrir miðju er ein tóftin greinilegust enda leifar af beitarhúsi sem var í notkun á 19. og 20. öld og sker sig algerlega úr meðal hinna eldri tóftanna.
Miklar umræður urðu meðal ferðalanga og ýmsar hugmyndir á lofti. Flestir voru á þeirri skoðun að hér væru leifar af bæ Böðólfs landnámsmanns á Fjöllum og að minnsta kosti líklegt að fyrstu Fjalla-bændur hefðu þar búið enda eru það forn munnmæli sem getið er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1712; „Fremre Fioll kallast fornar girðíngar fram með fjöllum í Fjallalandi, og rómast að þar hafi Fjöll í fyrndinni staðið, er ekki er þess getið hvar fyrir að bærinn hafi verið fluttur“. Ekki er sem sé vitað hvers vegna byggð lagðist þarna af eða hvort bærinn var fluttur á núverandi stað Fjalla og þá hvers vegna. Voru ýmsar kenningar þar um á lofti í okkar hópi. Einnig varð mönnum tíðrætt um þennan fjölda og ekki síst stærð þeirra tófta sem í útliti svipar til skálabygginga landnámsaldar en stærsta tóftin er 44 x 15 metrar að stærð. Sé um skála að ræða þá er þetta með allra stærstu þekktu skálum hérlendis. Fjöldi tóftanna á ekki stærra svæði kemur manni fyrir sjónir eins og hér hafi verið eins konar þorp – nema að hér hafi byggingar ekki allar verið í notkun á sama tíma, sem vel getur verið.
Góð þátttaka var í ferð þessari, um 30 manns og voru leiðsögumenn fullir fróðleiks og fúsir til miðlunar á honum. Einnig naut hópurinn góðs af vitneskju heimamanna á Fjöllum um ýmsar sögusagnir af svæðinu – bæði í nútíð og allt aftur til landnámsaldar.
Næsta ferð undir merkjum „Fornra Fimmtudaga“ verður farin fimmtudaginn 8 ágúst kl: 20.00 að Skógum í Fnjóskadal þar sem skoðaðar verða menjar um járnvinnslu eða svokallaðan rauðablástur í fornöld.
Ásgeir Böðvarsson