Síðbúinn sunnudagur í Hafralækjarskóla

Síðbúinn sunnudagur í vísindamiðstöðinni í Hafralækjarskóla.
Sunnudaginn 10. júlí gefst almenningi tækifæri á að líta við og heimsækja fornleifafræðinga í aðsetur þeirra í Hafralækjarskóla í Aðaldal.  Á hverju sumri undanfarin ár er þar sett upp vísindamiðstöð í nokkrar vikur í senn þar sem saman koma, fornleifafræðingar og aðrir vísindamenn og dvelja við rannsóknir í sýslunni.

Dagskráin hefst kl. 16.00 og geta gestir litið við hvenær sem þeim hentar á bilinu frá kl. 16.00 tl 18.00.  Stuttir fyrirlestrar verða fluttir með 30 mínútna millibili um rannsóknirnar sem unnið er að og unnið hefur verið að í Þingeyjarsýslum undanfarin ár.  Einnig verður myndasýning stöðugt í gangi.

Kl. 16.30 – 17.00 mun Orri Vésteinsson fjalla um fornleifarannsóknir í Þingeyjarsýslum í 20 ár.  Kl. 17.00 – 17.30 mun Hildur Gestsdóttir fjalla um miðaldakirkjugarðinn á Hofstöðum í Mývatnssveit og kl. 17.30 – 18.00 mun Adolf Friðriksson fjalla um Skútustaðarannsóknirnar.

Allt áhugafólk hjartanlega velkomið.  Kaffi og kleinur á boðstólum.

Hið þingeyska fornleifafélag, Fornleifastofnun Íslands, City University of New York.

Fornir fimmtudagar á Þegjandadal og Brettingsstöðum

Birt með leyfi LMI
Lilja og Celine við uppgröft á Ingiríðarstöðum í júlí 2011
Horft yfir kumlateiginn á Ingiríðarstöðum í júlí 2011
Brettingsstaðir. Mynd: Árni Einarsson 2003

Fimmtudaginn 7. júlí kl. 14.00 og 20.30 stendur Hið þingeyska fornleifafélag í samstarfi við Fornleifastofnun íslands fyrir göngu- og fræðsluferð inn Þegjandadal þar sem fornleifafræðingar verða heimsóttir á Ingiríðarstaði og um kvöldið verða fornleifafræðingar heimsóttir á Brettingsstaði í Laxárdal þar sem unnið er að fornleifaskráningu.

Grafið hefur verið á Ingiríðarstöðum á hverju sumri undanfarin ár og margt afar forvitnilegt komið í ljós og umtalsvert hefur bæst við þekkingu vísindamanna á greftrunarsiðum forfeðra okkar í heiðnum sið.  Búið er að opna svæði sem er 4×15 metrar að stærð og mögulega leynast þar undir kuml.  Upp hafa komið tennur úr hrossi, járnbútar og beinaleyfar sem kunna að vera mannabein.  Einnig er grafið norðanvert í kumlateiginn og komu þar í ljós stórar stoðarholur (holur eftir timburstoðir) en ekkert er vitað um tilgang þeirra enn sem komið er.  Því lengur sem vísindamenn dvelja á Ingiríðarstöðum í Þegjandadal, því  fleiri spurningar vakna um líf, störf og dauða forfeðra okkar á fyrstu öldum byggðar í Þingeyjarsýslu.

Lagt verður af stað í göngu inn Þegjandadal frá bílaplaninu á Grenjaðarstað kl. 14.00 fimmtudaginn 7. júlí undir fararstjórn Sifjar Jóhannesdóttur.  Minnt er á góða skó og göngustafi en gangan tekur u.þ.b. 1,5 klst. hvora leið.  Einnig er vissara að taka með sér vargskýlur en talsverður mývargur er í Þegjandadalnum þessa dagana.

Seinni gangan kl. 20.30 er á Brettingsstöðum í Laxárdal en þar er að finna gríðarlega miklar mannvistarleifar en jarðarinnar er fyrst getið í heimildum á 15. öld en er að líkindum mun eldri og margt bendir til að búseta hafi hafist á jörðinni, mögulega strax á fyrstu öldum Íslandsbyggðar.  Ritaðar heimildar um jörðina eru fátæklegar en af þeim má þó ráða að bærinn hefur verið í eyði um skeið á 16. öld og hann fór í eyði í bólunni í upphafi 18. aldar.  Jörðin er stór og henni tilheyra miklar heiðar sem vafalaust hafa verið skógi vaxnar á fyrri öldum og miklar kolagrafir má finna í heiðinni sem og rústir nokkurra mögulegra fornbýla.  Þrátt fyrir að jörðinni hafi fylgt veiðiréttur er hún lágt metin á síðari öldum og í upphafi 20. aldar er henni lýst sem harðbalakoti og sögð lakasta jörðin í öllum Laxárdal í upphafi 20. aldar.  Tóftirnar í landi Brettingsstaða eru afar fjölbreyttar, stæðileg bæjarrúst yngsta bæjarins, bænhúsaleifar, fjölmörg útihús og garðlög.

Gangan hefst á hlaðinu á Brettingsstöðum kl. 20.30 fimmtudaginn 7. júlí og ekið er vegslóða af þjóðvegi I á Mývatnsheiði, skammt austan við afleggjarann að Stöng, sjá nánar á korti.  Gestir eru beðnir að aka hægt og gætilega um vegin og huga að gróðri þegar ökutækjum er lagt.  Vissara er að hafa vargskýlur og vatnsbrúsa meðferðis og góðir skór og göngustafir eru æskilegir.

Fornir fimmtudagar á Hofsstöðum.

Hofsstaðir, kort. Birt með leyfi LMI

Fimmtudagskvöldið 30. júní kl. 20.30 býðst gestum og gangandi að heimsækja Hildi Gestsdóttur og samstarfsfólk þar sem þau vinna að fornleifarannsóknum í kirkjugarðinum á Hofsstöðum í Mývatnssveit.  Bílum má leggja heima á hlaði á Hofsstöðum og gestir eru beðnir að fara gætilega á ökutækjum um bæjarhlaðið.

Markmið rannsóknarinnar  á kirkjugarðinum á Hofsstöðum er að gera heildstæða rannsókn á kirkju og kirkjugarði til að auka þekkingu á byggingartækni og notkun kirkna á miðöldum sem og greftrunarsiðum þess tíma.  Auk þess er  stefnt að rannsóknum á beinasafninu sem upp úr garðinum kemur.

Í lok sumars 2010 höfðu alls verið grafnar upp 110 grafir á Hofsstöðum og í þeim fundist alls 113 beinagrindur.  Grafirnar eru rétthyrndar með rúnnuðum hornum, botninn er oftast flatur og sjaldan eru grafirnar dýpri en 50-60 cm, en ná í nokkrum tilfellum niður á fast berg.  Grafirnar hafa allar stefnuna vestur-austur og fylgja þannig stefnu leifa kirknanna tveggja sem fundust í vesturenda svæðisins á fyrri stigum uppgraftrarins.

Nær allar grafirnar voru teknar á tímabilinu 871 – 1300 aldursgreiningu sem byggð er á gjóskulögum en ekki er hægt að segja að svo stöddu nánar til um tímasetningu grafanna innan þessa ramma.

Fræðast má nánar um rannsóknirnar á kirkjugarðinum á Hofstöðum í framvinduskýrslu um uppgröftinn síðasta sumar með því að smella á þennan hlekk. Kirkjugarður Hofsstöðum framvinduskýrsla 2010. Skýrslan er á pdf formi og ríflega 1 mb að stærð.

Uing.

Fornir fimmtudagar og síðbúinn sunnudagur 2011

Fimmtudagskvöldið 30. júní hefst dagskrá þar sem Hið þingeyska fornleifafélag, Fornleifastofnun Íslands og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn bjóða gestum og gangandi að heimsækja fornleifafræðinga og aðra sérfræðinga á vettvangi rannsókna og fræðast um þeirra störf og þau verkefni sem verið er að vinna að á vegum Hins þingeyska fornleifafélags, Fornleifastofnunar Íslands og fleiri aðila.

Dagskráin hefst í kirkjugarðinum á Hofstöðum kl. 20.30 fimmtudagskvöldið 30. júní og fimmtudaginn 7. júlí verða í boði tvær heimsóknir.  Önnur að Ingiríðarstöðum í þegjandadal þar sem haldið verður áfram uppgreftri á afar stórum og forvitnilegum kumlateig og um kvöldið er boðið í heimsókn að Brettingsstöðum í Laxárdal þar sem unnið er að fornleifaskráningu.  Sunnudaginn 10. júlí verður heimboð í Hafralækjarskóla en þar er sett upp vísindamiðstöð á hverju sumri af stórum hópi fornleifafræðinga og ýmissa annarra sérfræðinga af fjölmörgum þjóðernum.  Í ágúst verður boðið í göngu til garðs og kumlaleitar og verður nánar auglýst síðar.

Nánar má fræðast um heimsóknardagskrána og aðstandendur hennar með því að smella á tengilinn hér á eftir. Fornir fimmtudagar dagskrá 2011. Skráin er 1,4 mb að stærð.

Fornleifar í Þingeyjarsýslum

Bronsnæla frá Litlu Núpum
Uppgröftur á Litlu Núpum
Kuml á Daðastaðaleiti

Þann 20.maí 2011 verður sýningin „Fornleifar í Þingeyjarsýslum“ opnuð á jarðhæð Safnahússins.

 

Á síðustu árum hafa víðtækar og umfangsmiklar fornleifarannsóknir farið fram í Þingeyjarsýslum. Með rannsóknum þessum hefur eflst þekking á búsetu fyrr á öldum – ekki síst á söguöld og fengist skýrari mynd af því hvernig fólk lifði fyrir um 1000 árum.

 

Markmið sýningarinnar er að birta yfirlit yfir helstu fornleifarannsóknir í Þingeyjarsýslum, með sérstakri áherslu á síðustu 25 árin og efla áhuga fólks á fornminjum á svæðinu. Á sýningunni verða fornmunir sem fundist hafa við fornleifarannsóknir í héraðinu. Bátkumlið á Litlu Núpum í Aðaldal sem fannst árið 2007 er afar merkur fornleifafundur og er á sýningunni fjallað sérstaklega um hann.

 

Að sýningunni standa Menningarmiðstöð Þingeyinga, Hið þingeyska fornleifafélag og Fornleifastofnun Íslands. Sýningarstjórar eru Sigrún Kristjánsdóttir, Guðrún Alda Gísladóttir, Ásgeir Böðvarsson og Sif Jóhannesdóttir.

 

Sýningin stendur til septemberloka.

 

Frétt fengin af vef Menningarmiðstöðvar Þingeyinga www.husmus.is

Aðalfundur HÞF

Minnum á aðalfund Hins þingeyska fornleifafélags sem haldinn verður í húsnæði Menningarmiðstöðvar Þingeyinga (Safnahúsinu á Húsavík), í dag, sunnudaginn 20. mars og hefst fundurinn kl. 16.00  (neðsta hæð)

Dagskrá:  Hefðbundin aðalfundarstörf skv. Samþykktum félagsins.

Kynning á verkefnum liðins starfsárs.

Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum munu Sif Jóhannesdóttir starfsmaður Urðarbrunns (Hið þingeyska fornleifafélag, Fornleifaskóli barnanna og Þingeyskur sagnagarður) og  Adolf Friðriksson forstöðumaður Fornleifastofnunar Íslands gera grein fyrir rannsóknum og verkefnum liðins starfsárs.

Allir hjartanlega velkomnir.

Kaffi á könnunni.

Stjórn Hins þingeyska fornleifafélags.

Unnsteinn Ingason

Tryggvi Finnsson

Ásgeir Böðvarsson

Framvinduskýrslur komnar á vefinn

Framvinduskýrslur um verkefni Hins þingeyska fornleifafélags árin 2007, 2008, 2009 og 2010 eru komnar á vefinn og kennir þar margra grasa.  Fræðast má um rannsóknir á bátskumlinu og kumlateignum á Litlu Núpum, um rannsóknir á Ingiríðarstöðum og Einarsstöðum í Þegjandadal, kumlateig á Lyngbrekku, rannsóknir í Narfastaðaseli og Þórutóftum, um gerð minjakorts af Seljadal og mælingar í Skuldaþingsey í Skjálfandafljóti.

Skýrslurnar er að finna undir Framvinduskýrslur og verkefnaskrár og einnig með því að smella á tenglana hér að neðan.

Framvinduskýrsla HÞF 2007

Framvinduskýrsla HÞF 2008

Framvinduskýrsla HÞF 2009

Framvinduskýrsla HÞF 2010

Skýrslurnar eru allar á pdf formi og 3-4 mb. að stærð og því getur tekið nokkra stund að sækja skyrsluna.

Miðaldir á miðvikudegi

Miðvikudaginn 21. júlí býður Hið þingeyska fornleifafélag og Fornleifastofnun Íslands gestum og gangandi að heimsækja fornleifafræðinga að störfum á Ingiríðarstöðum í Þegjandadal í Aðaldal.  Mæting er á bílastæðinu við Grenjaðarstað kl. 13.00 þar sem safnast verður í bíla og ekið inn eftir Þegjandadal að austanverðu þar til komið er á móts við Ingiríðarstaði.  þaðan er gengið þvert yfir dalinn í vestur og tekur gangan a.m.k. hálfa klukkustund og farið er yfir votlendi svo betra er að era vel skóaður.  Á Ingiríðarstöðum munu fornleifafræðingar Fornleifastofnunar Íslands fræða gesti um uppgröft sumarsins en margt skrýtið og skemmtilegt  hefur komið í ljós á kumlateignum á Ingiríðarstöðum. Aætluð tímalengd ferðar er 4. klst.  Fararstjóri er Sif Jóhannesdóttir.  Uing.

Fornir fimmtudagar á Hofsstöðum

Horft yfir kirkjugarðinn á Hofsstöðum. Mynd Hildur Gestsdóttir

Fimmtudagskvöldið 15. júlí kl. 20.30 býður Hið þingeyska fornleifafélag og Fornleifastofnun íslands gestum og gangandi að heimsækja fornleifafræðinga að störfum á Hofsstöðum í Mývatnssveit.  Hildur Gestsdóttir mannabeinasérfræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands og hennar fólk hefur unnið að rannsóknum í sunnanverðum gamla kirkjugarðinn á Hofsstöðum undanfarnar vikur en í þeim hluta eru grafir mun þéttari en í öðrum hluta garðsins.  Búið er að grafa upp 14 grafir og eru 12 þeirra grafir barna og í flestum tilvikum nýbura og allar eru grafirnar frá því fyrir þrettánhundruð.  Gamall kirkjugarður sem þessi geymir mikla og margvíslega sögu sem lesa má úr beinunum auk þess sem ímynda sér má sitthvað um gleði þeirra og sorgir sem bjuggu í væntanlega köldum og dimmum húsakosti miðalda á Hofsstöðum.  Gleði yfir barnsfæðingum og sorg þegar nýburum, sem og öðrum sem í garðinum hvíla, var fylgt til grafar í litlum garði.

 

Einnig er verið að grafa í gegnum ruslalög frá bæjarhólnum, mestmegnis 18-20 aldar rusl sem var að finna í tveggja metra djúpri gryfju á svæðinu en nú eru fornleifafræðingar komnir niður að gjóskunni 1477 og farið er að móta fyrir kirkjugarðsveggnum þó veggurinn sjálfur sé ekki orðinn sýnilegur.

 

Mæting er á bílastæði heima við Hofsstaði næstkomandi fimmtudagskvöld kl. 20.30 og allir áhugasamir eru boðnir velkomnir.

 

Hið þingeyska fornleifafélag og Fornleifastofnun Íslands.

UIng.

Margt er skrítið á Skútustöðum.

Þóra Pétursdóttir ásamt gestum. Mynd: Unnsteinn Ingason.

Tuttugu og tveir gestir nutu leiðsagnar Þóru Pétursdóttur og Dr. Thomas McGovern um uppgraftrarsvæðið á Skútustöðum á nýliðnu fimmtudagssíðdegi. Þrátt fyrir napra norðangolu áttu gestir góða og fróðlega stund í bakgarðinum hjá Gerði á Skútustöðum III og ekki spillti fyrir sjóðandi kaffibolli sem Gerður færði gestum út í garðinn í lok heimsóknar.

Fingurbjörg. Mynd. T.McGovern

Eins og áður hefur fram komið hér á síðunni er afar gjöfull ruslahaugur á Skútustöðum III sem spannar allt frá landnámi fram á tuttugustu öldina og gríðarlegt magn beina hefur komið í ljós ásamt nokkrum skemmtilegum gripum. þar má m.a. nefna ofurlítinn tappa sem nú er ljóst að er úr rostungstönn og mikið magn af brotnum krítarpípum, hnífur, fingurbjörg og fl. Á einu pípubrotinu var merki framleiðandans og eftir uppflettingu í miklum doðröntum um krítarpípuframleiðendur fyrr á öldum kom í ljós að framleiðandi þessarar krítarpípu sem reykt var úr á Skútustöðum á sautjándu öld, var

Hnífur frá miðöldum. Mynd. T.McGovern

William Sterridge í London sem framleiddi krítarpípur á árabilinu

Krítarpípuhaus framleiddur af William Sterridge í London. Mynd. T.Mcgovern

1610-1640. Einnig má nefna sautjándualdar postulínsbrot og lítinn silfur „pening“ með skrítinni ígrafinni mynd sem margar kenningar eru uppi um hvað eigi að tákna.

 

 

Hið þingeyska fornleifafélag og Fornleifastofnun Íslands þakkar gestum komuna og Þóru og Tom skemmtilega og fræðandi leiðsögn.   UIng.