Verkefnaáætlun 2010

Aðalfundur Hin þingeyska fornleifafélags var haldinn mánudagskvöldið 14. Júní síðastliðinn kl. 20.00 í Menningarmiðstöð Þingeyinga á Húavík og var ágætlega sóttur. Aðalfundarstörf voru hefðbundin og lagði stjórn fyrir fundinn tillögu um framkvæmdaáætlun sumarsins sem var samþykkt eftirfarandi: Litlu –Núpar. Opnað verður svæði milli bátsgrafar og rofabarðs en mögulegt er að þar leynist kuml. Einnig verða tekin borkjarnasýni umhverfis meintan bæjarhól og leitað að ruslahaug. 50 manndagar verða nýttir á vettvangi og 15 dagar í úrvinnslu. (50 manndagar er t.d. 5 manns að störfum í 10 daga). Þegjandadalur, Ingiríðarstaðir. Rannsökuð verða 1-2 möguleg kuml í hinum afar stóra kumlateig á Ingíríðarstöðum og tekin verða borkjarnasýni auk prufuskurða í og við meintan víkingaaldarskála. 59 manndagar á vettvangi og 12 dagar í úrvinnslu. Seljadalur, grunnur að minjakorti. Lokið verður við skráningu minja sem er undanfari minjakorts af dalnum. 20 manndagar á vettvangi og 18 manndagar í úrvinnslu. Þórutóftir á sunnanverðum Seljadal. Þórutóftir eru áður óþekktar tóftir sem fundust árið 2008 í grennd við svonefnt Hólakot og eru nefndar eftir finnandanum, Þóru Pétursdóttur fornleifafræðingi. 4 manndagar á vettvangi og 2 í úrvinnslu munu verða nýttir til töku prufuskurðar í gegnum langvegg auk þess sem leitað verður að gjóskulögum og mögulegu gólflagi eða gólfskán til að aldursgreina tóftirnar og geta til um notkun þeirra. Þingey, uppmæling – myndataka. 7 manndagar á vettvangi og 3 manndagar í úrvinnslu verða nýttir í Þingey við uppmælingu. Ákveðið hefur verið að gera tilraun til mælinga með myndatöku úr lofti og beita tölvutækni við að sameina myndir og leitast við að búa til þrívíddarmynd á tölvutæku formi af minjunum sem þar eru. Verkefnið er tilraunaverkefni . Áætlaður kostnaður við ofangreind verkefni er u.þ.b. fimm miljónir króna. Jafnframt er unnið að drögum að upplýsingaskilti um Þegjandadalinn, vefbæklingum, minjagöngum og fl. og fl. Auk þess sem áhersla verður lögð á virkari heimasíðu en verið hefur. Gert er ráð fyrir ríflega einni miljón til þessara verkefna. Nýja stjórn Hins þingeyska fornleifafélags skipa: Unnsteinn Ingason, Tryggvi Finnsson og Ásgeir Böðvarsson. Varamaður í stjórn er Halldór Valdimarsson.

Aðalfundur Hins þingeyska fornleifafélags

Aðalfundur Hins þingeyska fornleifafélags verður haldinn mánudagskvöldið 14. Júní næstkomandi kl. 20.00 í Menningarmiðstöð Þingeyinga á Húsavík (Safnahúsinu) á jarðhæð. Dagskrá aðalfundarins er eftirfarandi skv. Samþykktum félagsins: a) Skýrsla stjórnar félagsins um starfssemi þess s.l. starfsár. b) Rekstrar- og efnahagsreikningur félagsins fyrir liðið starfsár lagður fram til samþykktar. c) Rekstar og starfsáætlun lögð fram til samþykktar. c) Kosning stjórnar. d) Þóknun stjórnar. e) Kosning endurskoðanda. f) Tillögur til breytinga á samþykktum félagsins. g) Önnur mál. Kynning á verkefnum sumarsins: kl. 21.00 að loknum aðalfundi, munu þau Howell Magnús Roberts og Þóra Pétursdóttir frá Fornleifastofnun Íslands og Sif Jóhannesdóttir starfsmaður Urðarbrunns og Hins þingeyska fornleifafélags, gera grein fyrir rannsóknum og verkefnum liðins starfsárs. Allt áhugafólk er hjartanlega velkomið. Stjórn Hins þingeyska fornleifafélags. Unnsteinn Ingason Tryggvi Finnsson

Örnefni – tilurð og gildi – Fornleifaskóli barnanna

Sjötti og sjöundi bekkur ásamt Baldri skólastjóra á örnefnanámskeiði.

Föstudaginn 14 maí síðastliðinn hélt Sif Jóhannesdóttir, einn af verkefnisstjórum Fornleifaskóla barnanna, námskeið fyrir nemendur 6, 7, 9 og 10 bekkjar Litlulaugaskóla í Reykjadal um örnefni, tilurð þeirra og gildi. Markmið námskeiðsins var að nemendur áttuðu sig á því hvað hugtakið örnefni þýðir, þekki mismunandi uppruna örnefna og hvernig þau öðlast sess ásamt því hvernig önnur örnefndi falla í gleymsku og dá. Einnig að nemendur áttuðu sig á gildi örnefna út frá öryggissjónarmiðum og gagnsemi þeirra fyrir þá sem vinna úti í náttúrunni og ferðast um landið. Jafnframt var áhersla lögð á heimildagildi örnefna, hlutverki Örnefnasafns og starfssemi nafnfræðisviðs Stofnunar Árna Magnússonar í Íslenskum fræðum. Námskeiðið hófst með innlögn þar sem fjallað var um eðli og tilurð örnefnanna, þ.e. staðarheiti í öllum myndum og fjallað var um hvernig örnefni yrðu til vegna legu í landi, byggðasögu, atburða, gróðurs, dýralífs o.s.frv. Einnig var fjallað gildi örnefna m.t.t. öryggis þ.e. staðsetningu út frá örnefnum og gildi örnefna í vinnu og leik, s.s. í landbúnaði, við póstúrburð, stangveiðar og strætónotkun svo dæmi séu tekin. Þá var rætt um réttmæti örnefna og mismunandi útbreiðslu þeirra, hvernig ný myndast og önnur tapa gildi sínu. Að lokum var fjallað um hlutverk Nafnfræðisviðs Stofnunar Árna Magnússonar í Íslenskum fræðum, gildi örnefnasafnsins sem þar er vistað og ráðgjöf sem almenningur og stofnanir geta leitað eftir þar. Námskeiðinu lauk með bráðskemmtilegum Örnefnaleik þar sem þátttakendum var ætlað að búa til mögulega staðsetningu og skýringu fyrir nokkur vel valin örnefni. Námskeiðið er hluti af Örnefnaverkefni Fornleifaskóla barnanna.

Hnitsetning örnefna á vegum Fornleifaskóla barnanna

Þóra Fríður við skráningu
Frank Feeley og Óðinn að fleyta
Fjóla, Eydís, Harpa, Megan,Gunnar og Óðinn að rannsaka beinaleifar.

Nýverið hófst vinna á vegum Fornleifaskóla barnanna í Þingeyjarsveit við skráningu Örnefnaskráa á tölvutækt form. Fornleifaskólinn hefur fengið styrk frá Vinnumálastofnun til verkefnisins og hefur Þóra Fríður Björnsdóttir verið ráðin til þriggja mánaða til að yfirfæra prentaðar örnefnaskrár yfir á tölvutækt form. Örefnaskrár eru til yfir flestar jarðir landsins en þeim einstaklingum fækkar sífellt sem þekkja nákvæma staðsetningu þessara örnefna enda hefur gildi þeirra í daglegu lífi fólks farið þverrandi með breytingum á bússkaparháttum. Fjölmargir aðilar hafa unnið að örnefnasöfnun í gegnum tíðina og prentaðar örnefnaskrár eru afrakstur þeirrar vinnu. Örnefnin eru hins vegar partur af menningu okkar og sögu og með því að staðsetja þau með gps tækni, þ.e. lengdar- og breiddargráður í íslensku hnitakerfi, er hægt að varðveita þau um ókomna tíð. Á mörgum jörðum hafa örnefni verið staðsett á kortum og / eða ljósmyndum og á stöku jörðum hafa örnefni verið hnitsett í heild sinni, s.s. á Narfastöðum í Reykjadal þar sem 230 örnefni hafa verið hnitsett með GPS á síðustu árum. Fornleifaskóli barnanna hefur í hyggju á næstu mánuðum og árum að virkja og hvetja ungmenni sem taka þátt í Fornleifaskólanum til að staðsetja örnefni með GPS handtækjum með hjálp annarra eldri fjölskyldumeðlima og/eða annarra sem þekkja staðsetningu skráðra örnefna á jörðum í Reykjadal og vonandi Þingeyjarsveit allri þegar fram líða stundir. Verkefnið sem nú er hafið um hnitsetningu örnefna í Þingeyjarsýslu er fyrsta skrefið í samstarfsverkefni Fornleifaskóla barnanna og Litlulaugaskóla, Ferðaþjónustunnar á Narfastöðum, Fornleifastofnunar Íslands, örnefnasviðs Stofnunar Árna Magnússonar í Íslenskum fræðum, Hnit verkfræðistofu, Garmin á Íslandi, Hunter college og Brooklyn college í New York. Örnefnasvið Stofnunar Árna Magnússonar hefur verið Fornleifaskólanum innan handar við að útbúa verklagsreglur um skráninguna og mun ásamt Hnit verkfræðistofu annast varðveislu upplýsinganna sem safnað verður og lætur Fornleifaskólanum jafnframt í té þær örnefnaskrár sem notaðar verða við hnitsetningu. Hnit verkfræðistofa mun útbúa kortavefsjá þar sem almenningi verður gert kleyft að skoða staðsetningu þeirra örnefna sem safnað verður og Garmin Ísland leggur Fornleifaskólanum til Íslandskort í GPS tækin og mun nýta hnitsetningu örnefna til að bæta Íslandskort sem notuð eru í GPS tækjum hér á landi. Fornleifastofnun Íslands hefur lagt verkefninu til ýmiskonar sérfræðiráðgjöf og Hunter College og Brooklyn college færðu Fornleifaskólanum síðastliðið haust nokkur fullkomin GPS handtæki að gjöf ásamt starfrænum myndavélum en þessi búnaður er grundvöllur verkefnisins. Nánari upplýsingar um verkefnið gefa Sif Jóhannesdóttir, Þjóðfræðingur og kennari sem er jafnframt starfsmaður Fornleifaskólans og verkefnisstjóri skráningarverkefnisins og Unnsteinn Ingason formaður stjórnar Fornleifaskóla barnanna.

Vel heppnað málþing um Hofstaði

Frá uppgreftri á Hofstöðum 2002

Laugardaginn 24. apríl var framtíð og fortíð Hofstaða rædd á Málþingi á Narfastöðum í Reykjadal á vegum Hins þingeyska fornleifafélags og Fornleifastofnunar Íslands. Málþingið var afar vel sótt en tæplega 50 manns hlýddu á margvísleg erindi er tengdust fortíð og framtíð Hofstaða sem og fornleifafræði, náttúrufræði og þjóðfræði á víðum grundvelli. Tilefni málþingsins var útgáfa afar vandaðs rannsóknarrits um Hofstaðarannsóknirnar í ritstjórn Gavins Lucas. Adolf Friðriksson forstöðumaður Fornleifastofnunar Íslands reifaði forsögu rannsóknanna á Hofstöðum og Gavin Lucas fornleifafræðingur stiklaði á stóru í rannsóknarniðurstöðunum. Hildur Gestsdóttir mannabeinafræðingur fjallaði um rannsóknir á mannabeinum úr kirkjugarðinum á Hofstöðum og Árni Einarsson Líffræðingur greindi frá nytjum villta dýra sem öskuhaugarnir á Hofstöðum leiddu í ljós. Ingunn Ásdísardóttir Þjóðfræðingur velti fyrir sér heiðnum átrúnaði og nautshauskúpunum á Hofstöðum. Unnsteinn Ingason greindi frá tilurð hins Þingeyska fornleifafélags og Fornleifaskóla barnanna og tengslum þessara félaga við Hofstaðarannsóknina og Sif Jóhannesdóttir Þjóðfræðingur ræddi möguleika á hagnýtingu rannsókna og tengingu vísindamanna við almenning og ferðafólk. Orri Vésteinsson fornleifafræðingur ræddi að lokum um landnám á Norðausturlandi og hvernig Hofstaðarannsóknin hefur breytt sýn vísindamanna á landnám Íslands og jafnframt vakið upp fleiri spurningar heldur en rannsóknin hefur svarað. Skipuleggendur málþingsins voru þær Sif Jóhannesdóttir f.h. Hins þingeyska fornleifafélags og Þóra Pétursdóttir f.h. Fornleifastofnunar Íslands. Málþingið þótti takast afar vel og lokið var miklu lofsorði á fyrirlesara sem og skipuleggendur málþingsins. Á næstu vikum munu hér á vefsíðu Hins þingeyska fornleifafélags birtast stuttir útdrættir úr fyrirlestrunum er fluttir voru á málþinginu.

Hofstaðir í fortíð og framtíð

Hofstaðir í fortíð og framtíð

Er yfirskrift málþings sem haldið verður á Narfastöðum í Reykjadal í Þingeyjarsveit, 24. apríl kl. 11:00-16:00

Gestagangur á Hofstöðum 11:30 Gavin Lucas, fornleifafræðingur – Excavations of the Viking Age Settlement atHofstaðir – 1991-2002. This talk will offer a general overview of the site and its current interpretation. 12:00-12:40 Matarhlé 12:40 Hildur Gestsdóttir, mannabeinafræðingur – Kirkjugarðurinn á Hofstöðum Á árunum 1999-2004 fór fram fornleifauppgröftur í miðaldakirkjugarðinum á Hofstöðum. Á þeim tíma var lokið við að grafa upp leifar tveggja kirkna auk 75 grafa. Í þessu erindi verður greint frá helstu niðurstöðum þeirra rannsókna. 13:10 Árni Einarsson, líffræðingur – Villidýrin á Hofstöðum Sagt verður frá því sem öskuhaugarnir á Hofstöðum og nágrenni gefa til kynna um nytjar af villtum dýrum. Ljóst er að þeir fornaldar-,,hofsar“ hafa víða sótt fanga. 13:40 Ingunn Ásdísardóttir, þjóðfræðingur – Að hengja haus; um upphengda hausa og heila skrokka Í erindi sínu ber Ingunn saman þær upplýsingar sem nautahauskúpurnar á Hofstöðum veita og ýmsar bókmenntaheimildir og skoðar með þeim hætti hvort þær geti varpað ljósi á hvort heiðinn átrúnaður hafi verið ástundaður af nokkurri staðfestu hér á landi. 14:10 Unnsteinn Ingason, ferðamálafrömuður og Sif Jóhannesdóttir, þjóðfræðingur– Rannsóknir skapa tækifæri í heimabyggð Erindi um þau tækifæri sem skapast fyrir heimamenn í tengslum við fornleifarannsóknir. Sagt verður frá árangursríku samstarfi í Þingeyjarsýslu og þeim möguleikum sem fornleifarannsóknir skapa í uppbyggingu ferðaþjónustu. 14:30 Orri Vésteinsson, fornleifafræðingur – Landnám á Norðausturlandi. Hofstaðir í víðara samhengi Uppgröftinn á Hofstöðum má líta á sem flaggskip umfangsmikilla rannsókna á landnámi og víkingaöld á Norðausturlandi sem hafa verið í gangi síðastliðin 15 ár – og er enn verið að. Í erindinu verður gerð grein fyrir því hvernig þessar rannsóknir hafa breytt sýn okkar á landnám Íslands og hvaða spurningar eru nú efst á baugi þegar mikilvægum áfanga hefur verið náð með útgáfu Hofstaðarannsóknarinnar. 15:00 Kaffisopi og umræður 16:00 Þingslit Málþingið er öllum opið Þátttökugjald er 1000 kr. en innifalið er kaffi og léttur hádegisverður Þátttakendur eru beðnir að skrá sig. Skráning og frekari upplýsingar: thora@instarch.is . Skráningu lýkur fimmtudaginn 22. apríl

Skipulagðar gönguferðir um Þegjandadal

Síðastliðinn laugardag, 8. ágúst, var farið í gönguferð um minjasvæðið á Þegjandadal á vegum Hins þingeyska fornleifafélags. Þetta var fyrri ferðin af tveimur sem félagið stendur fyrir. Sif Jóhannesdóttir starfsmaður félagsins gekk með hópnum og sagði frá sögu svæðisins, þeirri rannsóknarstarfsemi sem þar hefur farið fram og helstu niðurstöðum. Gengið var fram Þegjandadal að vestan fram að Ingiríðarstöðum en þar eru fornleifafræðingar frá Fornleifastofnun Íslands að störfum þessa dagana á vegum félagsins. Þar tók Howell Magnus Roberts, deildarstjóri hjá Fornleifastofnun Íslands, á móti hópnum og fræddi göngumenn um helstu atriði rannsóknanna á Ingiríðarstöðum sem nú standa yfir. Á síðasta ári fundust för eftir arð (fornan plóg) sem gefa vísbendingar um akuryrkju og þegar göngumenn komu í Ingiríðarstaði voru þar einmitt staddir frjókornafræðingar til að taka sýni úr jarðveginum til rannsókna. Í sumar er m.a. áfram grafið í kumlateig en þar fannst silfurpeningur í síðustu viku. Einnig er nú grafið í tóft sem ýmislegt bendir til að sé bænhústóft, en þar má sjá á yfirborði garð sem liggur í nokkuð stóran hring og inni í honum er lítil ferhyrnt tóft. Eftir á að koma í ljós hvort tilgátan um bænhús reynist rétt og hvort grafir sé að finna innan garðveggsins. Eftir mjög fræðandi viðdvöl á Ingiríðarstöðum var gengið þvert yfir dalinn og niður hann austan megin. Níu manns tóku þátt í göngunni og fengu brot af því besta frá veðurguðunum, glampandi sólskin og yfir 20 stiga hita, úrhellisrigningu og jafnvel vottaði fyrir hagléli. Þegjandadalsgangan verður endurtekin næstkomandi miðvikudag 12. ágúst. Mæting er á bílastæðinu á Grenjaðarstað og lagt verður af stað kl. 16.00. Gangan með stoppum tekur 3-4 klst. Allir eru velkomnir í gönguna og þátttaka er ókeypis. SJ/UI

Halldór Valdimarsson og Oddný Magnúsdóttir komu ríðandi úr Laxárdal til móts við hópinn. Mynd: Sif Jóh.
Áð á landamerkjagarði við Ingiríðarstaði. f.v. Ásgeir Böðvarsson, Sigrún Kristjánsdóttir, Hulda Kristjánsdóttir, Sigurdís Sveinbjörnsdóttir og Þórey Hermannsdóttir. Bökin eiga Margrét Sverrisdóttir og Halla Rún Tryggvadóttir. Mynd: Sif Jóh.
För eftir arð (plóg) á Ingiríðarstöðum. ©2008 HMR

Verkefni sumarsins komin vel af stað

Brotinn silfur peningur, sem fannst í dag, í rændu kumli á Ingiríðarstöðum.

Núna þegar fer að líða undir lok sumarsins og haustið er að ganga í garð er nóg að gerast í fornleifaransóknum á vegum Hins þingeyska fornleifafelags. Undan farnar vikur hefur verið unnið á fullu í kumlteignum á Litlu Núpum og voru fornleifafræðingarnir þar orðnir frekar spenntir í lok síðastu viku þegar í ljós kom steinahrúga sem virtist vera óhreyfð og gaf til kynna óhreyft kuml. Hrúgan reyndist óhreyfð en ekkert leyndist undir henni svo skrítið sem það er. Hins vegar kom í ljós hrossakuml sem líklega hefur tengst bátskumlinu, sem fannst árið 2007. Engin merki sáust á yfirborðinu og grafa þurfti talsvert til að finna ummerki um hreyfðan jarðveg. Beinin eru í hrúgu og annað hvort hefur hrossið hreinlega verið hlutað sundur eða þá að beinunum hafi verið rótað saman stuttu eftir að hrossið var heygt. Í þessari viku byrjuðu menn svo a rannsóknum á Ingiríðarstöðum í Þegjandadal þar sem hefur verið byrjað á uppgreftri í kumlteignum og á mannvirki sem talið er vera kirkja. Auk þess er unnið að mælingum á fornleifum í Skuldaþingey og Þingey. Á meðan á heimsókn stóð á vettvangi í Þegjandadal í dag sást frumstig á þessari vinnu. Ekki er hægt að greina frekar frá „kirkjunni“ að svo stöddu þar sem menn eru enþá að vinna sig niður í gegnum moldaveggi sem hafa hrunið, moldarfok og öskulög, að hinu upprunnulega moldar yfirborði. Kumlin sem hafa verið opnuð hafa verið talsvert röskuð og þau rænd til forna. Hingað til hafa fundist nokkur bein og tennur úr hestum en það dróg heldur betur til tíðindar í dag þegar brotinn silfur peningur kom í ljós. Ekki er hægt að greina frá því hvers lenskur hann er en mun það væntanlega skírast þegar hann verður skoðaður betur.

Verkefni sumarsins

Á aðalfundi félagsins í vor var samþykkt áætlun fyrir verkefnin sem stefnt er að vinna á vegum Hins Þingeyska Fornleifafélags í sumar. Um er að ræða samtals 7 verkefni. Aðal verkefni sumarsins eru í fyrsta lagi mælingar á tóftum og minjaleyfum í Þingey og Skuldaþingey. Undanfarin ár hefur staðið til að fá írska sérfræðinga til mælinga á þessum minjum, en í ljósi m.a. stöðu íslensku krónunnar hefur verið horfið frá þessum fyriráætlunum og í stað þess er stefnt að mælingum á vegum Fornleifastofnunnar. Í öðru lagi verður haldið áfram að vinna í Þegjandadal og verður lögð áhersla á áframhaldandi rannsóknir á kumlteignum og kirkju á Ingiríðarstöðum. Og að sjálfsögðu munum við halda áfram rannsóknum á kumlteignum á Litlu Núpum. Minni verkefni sem ætlað er að fara í, eru meðal annars rannsóknir á nýfundnum rústum í Seljadal, tóftir sem engar ritaðar heimildir eru til um né nafngift þeirra. Þar að auki verður Stóri Skiphóll í landi Narfastaða forkannaður til að leiða í ljós hvort kuml séu í hólnum. Loks verður haldið áfram með gerð minjakorts af Seljadal, auk þess sem stefnt er að gerð vefbæklinga sem aðgengilegir yrðu hér á heimasíðu félagsins, almenningi til upplýsinga. Mun starfsemi á vegum félagsins hefjast 20. júlí á Litlu Núpum að sögn Howell M. Roberts, fornleifafræðings.